Efnahagsmál - 

21. nóvember 2013

SA undrast hörð viðbrögð ASÍ

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA undrast hörð viðbrögð ASÍ

Samtök atvinnulífsins undrast hörð viðbrögð Alþýðusambands Íslands við auglýsingu SA og þeim staðreyndum sem þar eru settar fram. Laun á Íslandi hafa hækkað þrefalt meira en í viðskiptalöndum okkar á síðustu sjö árum. Það hefur valdið verðbólgu og kaupmáttur hefur rýrnað. Myndin sem blasir við ef horft er allt aftur til ársins 1990 er sú sama. Hækkun nafnlauna á Íslandi hefur verið meira en tvöfalt meiri en á Norðurlöndunum frá þeim tíma, verðbólga verið langt umfram það sem þar þekkist og kaupmáttarþróun lakari.

Samtök atvinnulífsins undrast hörð viðbrögð Alþýðusambands Íslands við auglýsingu SA og þeim staðreyndum sem þar eru settar fram.  Laun á Íslandi hafa hækkað þrefalt meira en í viðskiptalöndum okkar á síðustu sjö árum. Það hefur valdið verðbólgu og kaupmáttur hefur rýrnað. Myndin sem blasir við ef horft er allt aftur til ársins 1990 er sú sama. Hækkun nafnlauna á Íslandi hefur verið meira en tvöfalt meiri en á Norðurlöndunum frá þeim tíma, verðbólga verið langt umfram það sem þar þekkist og kaupmáttarþróun lakari.

Að baki þeirri mynd sem hér er dregin upp búa fjölmargar ástæður. Launaskrið hefur verið allt of mikið og grafið undan forsendum þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið; áherslur í fjármálum hins opinbera hafa oftar en ekki kynt verðbólgubálið með umfangsmiklum skattalækkunum og stórauknum útgjöldum á tímum þenslu. Þessi þróun hefur síðan valdið miklu ójafnvægi í efnahagslífinu sem birst hefur í viðvarandi viðskiptahalla og að lokum gengislækkunum með reglulegu millibili. Þessi atburðarás hefur verið endurtekin á 7 til 10 ára fresti um áratuga skeið.

Í því umhverfi sem Íslendingar eru í dag, með mjög skuldsett heimili og fyrirtæki, þá telja Samtök atvinnulífsins að það skili landsmönnum mestum árangri að kveða verðbólguna niður þannig að hægt sé að lækka vexti, leggja grunn að nýrri sókn í atvinnumálum, skapa ný störf og tryggja Íslendingum betri lífskjör.

Frændþjóðir okkar á Norðurlöndum komust að sömu niðurstöðu. Vandi þeirra var sá hinn sami og við höfum glímt við, of miklar launabreytingar, of há verðbólga og afar óstöðugt og fallandi gengi viðkomandi gjaldmiðils. Þau brugðust við og hafa síðan fetað nýja slóð með hækkun launa í hægum skrefum yfir langan tíma sem hefur bætt lífskjör þeirra mun meira en Íslendingum hefur tekist með miklu meiri launahækkunum en þar tíðkast.

Við eigum hins vegar val og það er hægt að snúa þróuninni við og innleiða hér norrænan árangur en til að svo megi verða þurfum við að fara að fordæmi frænda okkar og leggja áherslu á verðstöðugleika  og minnka sveiflur í efnahagslífinu. Það er ekki nóg að niðurstöður kjarsamninga séu í samræmi við efnahagslegar forsendur. Fyrirtækin þurfa að sýna ábyrgð og aga hvert um sig í ákvörðunum sínum um verð og laun. Til þess að ná árangri þarf samhent átak allra; aðila vinnumarkaðar, fyrirtækjanna, Seðlabankans og stjórnvalda.

Tengt efni:

Auglýsing SA: Betri lífskjör

Samtök atvinnulífsins