SA styrkja meistaranám í Bretlandi

Breska sendiráðið og Samtök atvinnulífsins hafa gert með sér samkomulag til tveggja ára um að bjóða upp á Chevening-námsstyrk á Íslandi. Styrkurinn er fyrir nám á meistarastigi við háskóla í Bretlandi og nemur 10.000 sterlingspundum á ári. Sérstaklega er hvatt til þess að fólk sem hyggst á nám sem gæti nýst atvinnulífinu sæki um styrkinn.

Chevening-námsstyrkir eru fjármagnaðir af breska utanríkisráðuneytinu og samstarfsaðilum og þeir eru virtustu námsstyrkir sem breska ríkið veitir erlendum námsmönnum.

Breska sendiráðið í Reykjavík hefur umsjón með veitingu Chevening-styrkja á Íslandi. Styrkirnir hafa verið veittir frá árinu 1983 og munu um 1.700 Chevening-styrkþegar víða að úr heiminum hefja nám í Bretlandi í haust.

Chevening-styrkþegar eru hluti af alþjóðlegu tengslaneti og eru í dag um 50 þúsund talsins; þ.á m. eru margir þjóðarleiðtogar og annað alþjóðlegt forystufólk. Meðal markmiða með veitingu styrkjanna er að styðja leiðtoga framtíðarinnar sem geta mótað innlend jafnt sem alþjóðleg málefni með því að byggja á reynslu sinni og nánu sambandi við Bretland, sem námsdvölin þar veitir.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, er t.d. úr hópi fyrrverandi Chevening-styrkþega. Íslensku styrkhöfunum býðst að taka þátt í ýmsum viðburðum, bæði í Bretlandi og á Íslandi, sem hjálpar þeim að öðlast dýpri skilning á bresku samfélagi, stofnunum, stefnumótun og menningu og að þróa mikilvæg tengsl til framtíðar.

 „Vel menntað starfsfólk er lykill að sterkri samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs og Íslendingar menntaðir í bestu háskólum heims eru mikilvægur hluti af vinnuaflinu. Chevening-námsstyrkirnir verða á næstu árum góð viðbót við menntamálaáherslur Samtaka atvinnulífsins, “ segir Halldór Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

 

Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Ísland segir þetta spennandi samstarf.

„Það sýnir hversu sterk viðskipta- og fjárfestingatengslin eru á milli Íslands og Bretlands – 1,6 milljarður sterlingspunda á síðasta ári – með því að fjárfesta í íslenskum hæfileikum til framtíðar. Virt samtök eins og Samtök atvinnulífsins gera íslenskum nemanda kleift að upplifa breska og heimsklassa framhaldsmenntun og á sama tíma styrkja tengslin á milli Íslands og Bretlands. Ég hvet nemendur til að sækja um þennan virta námsstyrk þegar opnað verður fyrir umsóknir í ágúst.“

 

Opnað verður fyrir umsóknir fyrir skólaárið 2019-2020 í byrjun ágúst á þessu ári. Frekari upplýsingar er að finna á vefslóðinni www.chevening.org/iceland.

 

Á myndinni eru Michael Nevin, sendiherra Bretlands á Íslandi og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, við undirritun samkomulagsins í Húsi atvinnulífsins.