Vinnumarkaður - 

11. September 2008

SA styðja tvær nýjar rannsóknir á launamun kynja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA styðja tvær nýjar rannsóknir á launamun kynja

Samtök atvinnulífsins, Hagstofa Íslands og Alþýðusamband Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um rannsókn á launamun kvenna og karla sem byggir á gagnasafni Hagstofunnar. Er samstarfið gert í framhaldi af bókun með kjarasamningi ASÍ og SA frá 17. febrúar 2008 um áherslur samningsaðila í jafnréttismálum og nær til gagna um laun og störf á almennum vinnumarkaði. Þá hafa SA og ASÍ gert samstarfssamning við ParX, Viðskiptaráðgjöf IBM, um rannsókn á launamun kynja fyrir árið 2008 á grundvelli gagnasafns ParX um launagreiðslur.

Samtök atvinnulífsins, Hagstofa Íslands og Alþýðusamband Íslands hafa gert með sér samstarfssamning um rannsókn á launamun kvenna og karla sem byggir á gagnasafni Hagstofunnar. Er samstarfið gert í framhaldi af bókun með kjarasamningi ASÍ og SA frá 17. febrúar 2008 um áherslur samningsaðila í jafnréttismálum og nær til gagna um laun og störf á almennum vinnumarkaði. Þá hafa SA og ASÍ gert samstarfssamning við ParX, Viðskiptaráðgjöf IBM, um rannsókn á launamun kynja fyrir árið 2008 á grundvelli gagnasafns ParX um launagreiðslur.

Samstarfssamningurinn við Hagstofuna felur í sér gerð frumskýrslu um ákjósanlegustu leiðir til að reikna launamun karla og kvenna á almennum vinnumarkaði á grundvelli gagna Hagstofunnar með hliðsjón af sérstöðu og séreinkennum íslenska vinnumarkaðarins. Framkvæmd verkefnisins er í höndum Hagstofu Íslands og er áætlað að því ljúki í desember 2008.

Samstarfssamningurinn við ParX felur í sér gerð skýrslu um skýringar á launamun kynja á grundvelli gagnasafns fyrirtækisins um launagreiðslur á árinu 2008. Meðal þess sem verður kannað í rannsókninni er ábyrgð í starfi og áhrif ábyrgðar á launagreiðslur. Horft verður til fjölda stafsmanna sem vinna með stjórnanda, fjárráða og veltu. Ráðgjafar ParX munu verða fyrirtækjum sem taka þátt í rannsókninni innan handar við að skila réttum gögnum. Öll gagnavinnsla fer fram hjá ParX og munu engin gögn eða launaupplýsingar fara úr aðgangsstýrðum gagnageymslum félagsins. Áætlað er að niðurstöður rannsóknarinnar verði gefnar út um miðjan nóvember 2008.

Samstarfssamningurinn við ParX er gerður í framhaldi af rannsókn sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands gerði í samvinnu við SA og ParX á launagreiðslum íslenskra fyrirtækja árið 2006. Sjá nánar hér: http://www.sa.is/frettir/almennar/nr/3878/

Samtök atvinnulífsins