31. janúar 2023

SA stefna Eflingu vegna verkfallsboðunar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA stefna Eflingu vegna verkfallsboðunar

Samtök atvinnulífsins hafa stefnt Eflingu stéttarfélagi í kjölfar ótímabundinnar vinnustöðvunar félagsfólks Eflingar á sjö tilgreindum hótelum Íslandshótela ehf. og Fosshótels Reykjavíkur ehf. og sem starfar eftir kjarasamningi Eflingar við Samtök atvinnulífsins um vinnu í veitinga- og gistihúsum. Vinnustöðvuninni er ætlað að hefjast kl. 12:00 þriðjudaginn 7. febrúar.

Samtök atvinnulífsins telja boðaða vinnustöðvun ólögmæta enda hafi miðlunartillaga verið lögð fram af hálfu ríkissáttasemjara í kjaradeilu SA og Eflingar. Óheimilt sé að boða og hrinda í framkvæmd vinnustöðvun á meðan miðlunartillaga er í kynningu og atkvæðagreiðslu auk þess sem Efling hafi með ólögmætum hætti hindrað að atkvæðagreiðsla geti farið fram um miðlunartillöguna. Niðurstaða atkvæðagreiðslu um miðlunartillöguna hafi því ekki getað legið fyrir innan þeirra tímamarka sem ákveðin höfðu verið af ríkissáttasemjara.

Fyrr í dag skoruðu SA á Eflingu að fresta boðaðri vinnustöðvun til nánar tiltekins tíma, eins og heimilt er samkvæmt lögum nr. 80/1938, og að hún myndi ekki koma til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi eftir að lögmætri atkvæðagreiðslu er lokið um miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Efling varð ekki við þeirri áskorun SA og því hafa SA þingfest mál fyrir Félagsdómi til viðurkenningar á ólögmæti boðaðrar vinnustöðvunar. Málflutningur er ráðgerður næstkomandi föstudag. Samtökin skora jafnframt á Eflingu að láta þegar af ólögmætum aðgerðum sem hindrað hafa lögbundinn rétt alls Eflingarfólks til að kjósa um miðlunartillöguna, sem er lögum samkvæmt ígildi kjarasamnings.

Stefnu SA má lesa í heild sinni hér .

------

Reiknaðu uppsafnað tap

Fram hefur komið að ef verkfallsaðgerðir Eflingar hefjast verði afturvirkni kjarasamninga, sem hefði náð aftur til 1. nóvember sl., úr sögunni. Nú hefur 1 af hverjum 169 sem falla undir kjarasamninga Eflingar og SA samþykkt verkfall. Hvað kostar það fyrir Eflingarfólk? Settu inn forsendur um heildarlaun á mánuði og mögulegar launahækkanir í nýjum kjarasamningi í reiknivélinni hér að neðan.

Smelltu hér til að nota reiknivélina

Tengt frétt

Hverju tapar Eflingarfólk?
Lesa meira

Tengt frétt

Hvað þýðir verkfall fyrir mig?
Lesa meira

Tengt frétt

Brú að bættum lífskjörum samþykkt af aðildarfyrirtækjum SA
Lesa meira

Samtök atvinnulífsins