SA standa við gagnrýni á vaxtahækkun Seðlabankans

Aðalhagfræðingur Seðlabankans skaut föstum skotum að Samtökum atvinnulífsins  í samtali við Kjarnann síðastliðinn föstudag og sagði útreikninga SA í grein á vef samtakanna sl. föstudag um aukinn launakostnað vegna kjarasamninganna byggða á misskilningi. Þá bætti hann um betur og sakaði SA um að hafa notað spár Seðlabankans um verðlagsáhrif launahækkana sem hræðsluáróður.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp gagnrýni SA á síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans. Í henni var bent á að verðbólguþrýstingur hefði reynst mun minni en vænst hafði verið af þeim launahækkunum sem orðið hafa á þessu ári. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hefði aðeins hækkað um 0,4% síðastliðna 12 mánuði. Þá væri raunaðhald peningastefnunnar þegar mjög mikið og vaxtamunur við viðskiptalönd okkar orðinn mjög hár. Vegna þessa væri aukin hætta á innflæði fjármagns vegna spákaupmennsku og styrkingu nafngengis krónunnar sem grafið gæti undan samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Rétt væri því að staldra við og spyrja hvort bankinn hækkaði vexti hraðar en ástæða væri til.

Í þessari gagnrýni SA var skýrt tekið fram að hækkun launakostnaðar í síðustu kjarasamningum væri meiri en samræmdist verðstöðugleika til lengri tíma litið. Samtökin skorast ekki undan ábyrgð í þeim efnum. Í gagnrýninni á vaxtahækkun bankans fólst engin stefnubreyting af hálfu SA líkt og aðalhagfræðingur SÍ ýjar að. Samtökin hafa ítrekað haldið því fram að hóflegar launahækkanir séu ein meginforsenda verðstöðugleika og að mikla verðbólgu undangenginna ára og áratuga megi fyrst og fremst rekja til of mikilla launahækkana. Telja samtökin nauðsynlegt að bæta vinnubrögð við gerð kjarasamninga til að ráða bót á þessum vanda. Fullyrðingar aðalhagfræðings SÍ þess efnis að SA hafi notað greiningar SÍ sem hræðsluáróður í kjarasamningum eru honum ekki sæmandi.

Seðlabankinn heldur því fram í nýjasta hefti Peningamála að vegna kjarasamninga SA í maí og júní 2015 muni nafnlaun hækka um 8,5% að meðaltali á árunum 2015-2019 (ársmeðaltöl) og um 10,5% milli meðaltala áranna 2014 og 2015. SA kannast alls ekki við að hafa samið um svo miklar launahækkanir, jafnvel þótt gert væri ráð fyrir umtalsverðu launaskriði á komandi árum. Mat SA á hækkun launakostnaðar vegna samninganna var 6,2% frá maí 2015, 5,6% frá maí 2016, 3,4% frá maí 2017 og 2,4% frá maí 2018%; samtals 18,7% á samningstímanum. SA leggur það mat á kjarasamningunum (sem ná til u.þ.b. 90% af almenna vinnumarkaðnum) til grundvallar framreiknings launavísitölu Hagstofunnar fyrir almennan vinnumarkað, en hann vegur rúmlega 70% í vísitölunni.  Í útreikningunum voru þær tölur sem fyrir lágu um launavísitölu maí, júní og júlí látnar halda sér og mismunurinn á þeim og 6,2% matinu látinn falla á ágústvísitöluna. Aðalhagfræðingur SÍ telur misskilning SA m.a. felast í því að reikna ekki með  afturvirkni launahækkana samninga sem hefur þær afleiðingar að launavísitalan hækkar seinna en ella og því verður hækkun launavísitölu milli ársmeðaltala minni en raunverulegur launakostnaðarauki fyrirtækjanna.

Gott og vel. Ef SA breytir útreikningum sínum á þann veg að allt 6,2% matið á kjarasamningunum sé látið gilda frá maí 2015, í stað þess að falla á mánuðina júní-ágúst, eins og gert var í útreikningum  greinarinnar á vef SA, fæst sú niðurstaða að laun hækki um 6,8% milli áranna 2014 og 2015 án launaskriðs og um 7,4% ef árstaktur launaskriðs er 2%. Mat Seðlabankans er sem fyrr segir 10,5%. Árleg meðalhækkun launakostnaðar á árunum 2015-2018 er, samkvæmt mati SA á kjarasamningunum að viðbættu árlegu 2% launaskriði, 6,2% en Seðlabankinn telur hækkanirnar verða 8,5%.

Varla er ætlast til of mikils af Seðlabankanum að hann útskýri hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu að SA hafi samið um miklu meiri launahækkanir en samtökin hafa hingað til talið. Þá metur Seðlabankinn launabreytingar á öðrum grunni en þeim sem flestir líta til, þ.e. launavísitölu Hagstofunnar. Það hlýtur að vera í anda krafna um gegnsæi í störfum bankans að hann birti þann launaferil sem hann byggir verðbólguspár sínar á, þannig að SA sem og aðrir greiningaraðilar geti áttað sig betur á forsendum vaxtaákvarðana bankans.