SA og verkalýðsforystan hefji umræður

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sagði Ingimundur Sigurpálsson, nýr formaður samtakanna, Íslendinga standa frammi fyrir spennandi og ögrandi tímum mikilla fjárfestinga og kraftmikils hagvaxtar. Höfuðviðfangsefni fulltrúa vinnumarkaðar og stjórnvalda á næstu misserum væri að vinna svo úr góðum efnivið, að hann yrði sem flestum til hagsældar til lengri tíma.

Næstu kjarasamningar
"Næsta haust hefst vinna við gerð kjarasamninga eftir lengsta gildistíma í sögu kjarasamninga og mikinn ávinning launamanna í formi aukins kaupmáttar og aukinna framlaga til lífeyrissparnaðar", sagði Ingimundur í ræðu sinni. Hann sagði þó kaupmáttaraukningu undanfarinna ára að öllum líkindum hafa gengið lengra en æskilegt yrði að telja, því hlutur launa og launatengdra gjalda í verðmætasköpuninni væri nú orðinn 70%, en hann væri um 60% í samanburðarlöndum. Ingimundur sagði ljóst að bætt lífskjör á næstu árum yrðu ekki sótt með því að auka enn hlut launagreiðslna í verðmætasköpuninni. Hann sagði það hins vegar afar þýðingarmikið við núverandi aðstæður, að heildarsamtök á almennum vinnumarkaði næðu að vinna saman að brýnum hagsmunamálum fyrirtækja og launamanna.

"Æskilegt er, að verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins nái sameiginlegri sýn á stöðu efnahagsmála og breytingar á launakostnaði næstu misseri. Í því skyni þarf forysta verkalýðshreyfingarinnar og Samtaka atvinnulífsins að ræða fyrr en seinna þær meginlínur, sem koma til með að móta kjarasamninga á næsta samningstímabili, þar með talið samningstíma og kostnaðarbreytingar. Það verður að vera forgangsverkefni forystumanna aðila vinnumarkaðarins að afstýra því, að fyrirsjánleg þensla vegna mikilla framkvæmda á næstu árum verði til þess að valda ólgu á vinnumarkaði og vinnudeilum", sagði Ingimundur. Hann fagnaði nýlegu frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar á sviði trygginga launafólks vegna veikinda og slysa og sagði jafnframt þörf á að ræða lífeyrismálin, tengsl þeirra við veikinda- og slysabætur og um aldurstengda réttindamyndun.

Forgangsatriði að draga úr útgjöldum hins opinbera
Ingimundur fjallaði um stóriðjuframkvæmdirnar framundan og sagði stjórnvöld verða að vinna að því að þensluáhrif þeirra, sem að óbreyttu myndu leiða til vaxandi verðbólgu, hækkunar vaxta og gengis, yrðu sem allra minnst. Verkefnið í opinberri fjármálastjórn næstu misserin hlyti því að felast í því að koma í veg fyrir hækkun vaxta og gengis krónunnar. Ingimundur sagði rök standa til þess að það eigi að vera forgangsatriði í þessu sambandi að draga úr útgjöldum hins opinbera. Vaxtahækkanir Seðlabankans ættu að koma þar á eftir. Ingimundur sagði ekkert einfalt svar við því hvar hið opinbera ætti að bera niður, en sagði mikla hækkun rekstrarútgjalda hins opinbera undanfarin ár fyrst og fremst mega rekja til mikillar aukningar kaupmáttar launa opinberra starfsmanna umfram aðra launamenn. Óhjákvæmilegt væri hins vegar að hægja á útgjaldaaukningunni.

Á brattann að sækja
Þá fjallaði Ingimundur um hátt vaxtastig, hátt gengi krónunnar og miklar launahækkanir hérlendis í samanburði við nágrannalöndin. Hann sagði það sameiginlega hagsmuni fyrirtækja og launafólks að launabreytingar hérlendis væru á svipuðu stigi og hjá erlendum samkeppnisþjóðum.

Loks fjallaði Ingimundur í ræðu sinni um mikinn hagvöxt og mikla kaupmáttaraukningu á undanförnum árum, umbætur á starfsskilyrðum atvinnulífsins, aukið frjálsræði á fjármála- og gjaldeyrismarkaði, aukna samkeppni, stóra áfanga í einkavæðingu ríkisfyrirtækja, stöðugleika í verðlagi, mikilvægi einfalds og skilvirks skattkerfis, jafnréttismál og fræðslumál.

Sjá ræðu Ingimundar (pdf-skjal).

Sjá glærur með ræðu Ingimundar.