Vinnumarkaður - 

18. Janúar 2011

SA og ASÍ undirrita viðræðuáætlun um sameiginleg mál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA og ASÍ undirrita viðræðuáætlun um sameiginleg mál

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa undirritað viðræðuáætlun um sameiginleg mál en áætlunin var undirrituð á fundi samninganefnda samtakanna hjá ríkissáttasemjara í gær. Samkvæmt áætluninni skal ríkissáttasemjari taka að sér stjórn viðræðna vísi eitthvert aðildarsamtaka ASÍ kjaradeilu sinni til hans. Starfsgreinasambandið, utan svokallaðs Flóabandalags, hefur nú vísað kjaradeilu sinni til sáttasemjara og færast því viðræður um sameiginleg mál undir stjórn hans.

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa undirritað viðræðuáætlun um sameiginleg mál en áætlunin var undirrituð á fundi samninganefnda samtakanna hjá ríkissáttasemjara í gær. Samkvæmt áætluninni skal ríkissáttasemjari taka að sér stjórn viðræðna vísi eitthvert aðildarsamtaka ASÍ kjaradeilu sinni til hans. Starfsgreinasambandið, utan svokallaðs Flóabandalags, hefur nú vísað kjaradeilu sinni til sáttasemjara og færast því viðræður um sameiginleg mál undir stjórn hans.

Með sameiginlegum málum er átt við almenn hagsmunamál vinnuveitenda og viðsemjenda þeirra. SA hafa lagt áherslu á að koma fjárfestingum af stað sérstaklega í útflutningsgreinum, afnám gjaldeyrishafta, breytingu á skattalögum og fleiri aðgerðir til að auka hagvöxt, fjölga störfum og bæta lífskjör fólks.

Í síðustu viku lögðu Samtök atvinnulífsins fram meginmarkmið SA þar sem m.a. er að finna ofangreind mál og kynntu þau leiðtogum ríkisstjórnarflokkanna. Það sama gerði Alþýðusamband Íslands en báðir aðilar bíða nú eftir því að ríkisstjórnin svari því hvort og með hvaða hætti hún er tilbúin að koma að gerð nýrra kjarasamninga. Af hálfu beggja aðila er það forsenda þess að hægt verði að semja til þriggja ára eins og SA hafa lagt áherslu á og skapa með því frið á vinnumarkaðnum  og eyða óvissu. Það er einnig grundvöllur þess að fjárfestingar geti hafist í atvinnulífinu, hagvöxtur aukist og störf verði til. Um áramót voru 13.972 án atvinnu.

Samtök atvinnulífsins