1 MIN
SA og ASÍ sammála um nauðsyn breytinga á örorkukerfi
Samráðshópur Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) í lífeyrismálum hélt fund föstudaginn 5. september á Hilton Reykjavík Nordica þar sem rætt var um samspil almannatrygginga, vinnumarkaðar og lífeyrissjóða í málefnum örorku.
Mikil byrði á ríkissjóði og vinnumarkaði
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, setti fundinn og flutti erindi þar sem hún benti á mikinn kostnað ríkissjóðs og vinnumarkaðar vegna veikinda og örorku, um 195 milljarða króna á ári. Hún lagði áherslu á snemmtæka starfsendurhæfingu og sagði:
„Það segir sig sjálft að núverandi staða gengur ekki lengur. Það er kominn tími til þess að vinnumarkaðurinn, við sem erum hér, tökum heildstætt á veikindum og örorku – sterkur vinnumarkaður er á ábyrgð okkar, ekki á ábyrgð stjórnmálamanna.“
Kostnaður hækkað gríðarlega
Gylfi Jónu Arnbjarnarson, verkefnastjóri í fjármálaráðuneytinu, kynnti nýtt kerfi örorkubóta sem tók gildi 1. september. Hann benti á mikla kostnaðaraukningu undanfarin ár, auk hættu á tortryggni og ójöfnuði vegna skorts á samræmdu verklagi milli Tryggingastofnunar og lífeyrissjóða. Hann hvatti til þess að fresta víxlverkunarfrumvarpi og framlengja bráðabirgðarákvæði til að skapa vinnufrið.
Áherslur stéttarfélaganna
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ, sagði mikilvægt að vinna í áföngum og leggja áherslu á áhrif vinnuálags og aðstæðna á örorku. Hann taldi nauðsynlegt að skapa vinnufrið við mótun langtímalausnar með áframhaldandi jöfnunarframlagi frá ríkinu.
Jón Ólafur Halldórsson, formaður stjórnar SA, lagði fram sjö skilyrði sem gott örorku- og starfsendurhæfingarkerfi þyrfti að uppfylla, meðal annars einfaldleika, sjálfbærni, næga framfærslu og raunhæfa möguleika til starfsendurhæfingar.
Verkafólk hefur setið eftir
Í umræðum lagði Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, áherslu á að verkafólk og lágtekjufólk hafi setið eftir í kerfinu og borið þyngstu byrðarnar. Hann sagði að SGS og Efling muni ekki taka þátt í vinnunni nema ríkið ábyrgðist áframhaldandi jöfnunarframlag.
Samstaða um vinnufrið og breytingar
Almenn samstaða var um að snemmtæk íhlutun skipti sköpum og að tryggja verði áframhaldandi jöfnun á örorkubyrði lífeyrissjóða til að skapa vinnufrið. Fundargestir lýstu vilja til breytinga sem auka virkni, ábyrgð og þátttöku á vinnumarkaði og sögðu forræði verkefnisins eiga að liggja hjá aðilum vinnumarkaðarins.















