Efnahagsmál - 

16. Desember 2009

SA mótmæla rökum fyrir nýju þrepi í VSK

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA mótmæla rökum fyrir nýju þrepi í VSK

Margir standa í þeirri trú að lækkun virðisaukaskatts á matvæli feli í sér lífskjarajöfnun þrátt fyrir að opinber gögn sýni fram á allt annað. Með lækkun svokallaðs "matarskatts" árið 2007 var ráðist í eina dýrustu og óskilvirkustu aðferð sem hægt er að hugsa sér til lífskjarajöfnunar. Lægra þrep virðisaukaskatts var þá lækkað úr 14% í 7% en það jákvæða við þá breytingu sem þá var gerð var að öll matvæli og drykkjarvörur voru skattlagðar í sama þrepi.

Margir standa í þeirri trú að lækkun virðisaukaskatts á matvæli feli í sér lífskjarajöfnun þrátt fyrir að opinber gögn sýni fram á allt annað. Með lækkun svokallaðs "matarskatts" árið 2007 var ráðist í eina dýrustu og óskilvirkustu aðferð sem hægt er að hugsa sér til lífskjarajöfnunar. Lægra þrep virðisaukaskatts var þá lækkað úr 14% í 7% en það jákvæða við þá breytingu sem þá var gerð var að öll matvæli og drykkjarvörur voru skattlagðar í sama þrepi.

Áætlað er að hver prósenta í neðra þrepi VSK skili ríkissjóði nú 1,5 milljarði króna í skatta og hefur því þessi skattalækkun numið 10,5 milljörðum króna á núvirði.  Áætla má að ríflega þriðjungur upphæðarinnar hafi runnið til þess fjórðungs heimila sem hafði hæstar tekjurnar og innan við fimmtungur til tekjulægsta fjórðungsins.

Í nýrri skýrslu Hagstofunnar um útgjöld heimilanna er enn einu sinni staðfest að hlutfall útgjalda til matar og drykkjarvöru (fyrir utan áfengi) af heildarneyslu heimilanna er nánast óháð tekjum. Þannig varði neðsti tekjufjórðungurinn 12,1% ráðstöfunartekna sinna til kaupa á matvælum árið 2008, sá næst neðsti 12,8%, sá næst efsti 11,9% og sá efsti 10,1%. Sé litið á upphæðir þá greiða þær fjölskyldur sem eru í efri hluta tekjustigans 60% af skattinum og þær sem eru í neðri hlutanum 40%. Sé matarskattur hækkaður bera því fjölskyldurnar í efri hluta tekjustigans ríflegan meirihluta skattahækkunarinnar og öfugt, þ.e. sé hann lækkaður þá rennur meiri hluti skattalækkunarinnar til þeirra tekjuhærri.

Hlutfall matarútgjalda af fór lækkandi í öllum tekjufjórðungum árin 2003-2007 en hækkaði á síðasta ári. Staðan á síðasta ári var þó sú að hlutfallið var lægra í öllum tekjuhópum árið 2008 en á árunum 2003-2004.

Því hefur verið haldið á lofti m.a. á Alþingi að ekki megi hækka neðra þrep virðisaukaskattsins vegna neikvæðra áhrif á fólk með lágar tekjur en áformað er þess í stað að bæta við þriðja virðisaukaskattsþrepinu - 14.% þann 1. mars nk. - og hækka efsta þrep virðisaukaskattsins í 25% um áramót.

Samtök atvinnulífsins telja misráðið að bæta við nýju skattþrepi með auknu flækjustigi og hættu á undanskotum og hafa bent á að eðlilegra væri að halda tveimur virðisaukaskattsþrepum en hækka neðra þrepið úr 7% í t.d. 10% og hærra þrepið í rúm 25%. Sú breyting hefði svipuð tekjuskiptingaráhrif og það að bæta við nýju þrepi en á móti væri einfaldara, ódýrara og skilvirkara skattkerfi varðveitt.

Hér að neðan má sjá töflur sem byggja á gögnum úr skýrslu Hagstofnunnar sem sýna hlutfall matarútgjalda af heildarútgjöldum heimila eftir tekjufjórðungum:

Hlutfall matarútgjalda af heildarútgjöldum heimila

Smellið á myndina til að stækka.

Hlutfall matarútgjalda af heildarútgjöldum heimila

Smellið á myndina til að stækka. 

Sjá nánar:

Umsögn SA um breytingar á virðisaukaskatti

Skýrsla Hagstofunnar um útgjöld heimila

Samtök atvinnulífsins