Efnahagsmál - 

13. Apríl 2010

SA lýsa stuðningi við hugmyndir samgönguráðherra um flýtingu samgönguframkvæmda

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA lýsa stuðningi við hugmyndir samgönguráðherra um flýtingu samgönguframkvæmda

Samgönguráðherra hefur kynnt hugmyndir um flýtingu stórra framkvæmda í samgöngumálum. Um er að ræða þær þrjár leiðir sem liggja til og frá höfuðborginni, þ.e. tvöföldun Vesturlandsvegar, tvöföldun Suðurlandsvegar auk nýrrar brúar yfir Ölfusá, að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar og Vaðlaheiðargöng. Kostnaður er áætlaður samtals 33 milljarðar króna og geta framkvæmdir hafist þegar á þessu ári og lokið árið 2014. Stofnað verði sérstakt félag í eigu ríkissjóðs um þessar framkvæmdir sem taki lán hjá lífeyrissjóðum á svipuðum vöxtum og skuldabréf Íbúðalánasjóðs bera og hófleg veggjöld standi straum af endurgreiðslu lána og vaxta.

Samgönguráðherra hefur kynnt hugmyndir um flýtingu stórra framkvæmda í samgöngumálum. Um er að ræða þær þrjár leiðir sem liggja til og frá höfuðborginni, þ.e. tvöföldun Vesturlandsvegar, tvöföldun Suðurlandsvegar auk nýrrar brúar yfir Ölfusá, að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar og Vaðlaheiðargöng. Kostnaður er áætlaður samtals 33 milljarðar króna og geta framkvæmdir hafist þegar á þessu ári og lokið árið 2014. Stofnað verði sérstakt félag í eigu ríkissjóðs um þessar framkvæmdir sem taki lán hjá lífeyrissjóðum á svipuðum vöxtum og  skuldabréf Íbúðalánasjóðs bera og hófleg veggjöld standi straum af endurgreiðslu lána og vaxta.

Ríkissjóður verður að skera niður útgjöld á næstu árum og draga mun úr framlögum ríkisins til samgönguframkvæmda sem annarra verkefna. Ólíklegt er að þessar framkvæmdir verði að veruleika fyrr en eftir 10-15 ár ef fjármögnun verður með hefðbundnum hætti, þ.e. með framlögum úr ríkissjóði. Framkvæmdirnar eru hins vegar þjóðhagslega hagkvæmar vegna mikils umferðarmagns og hárrar tjóna- og slysatíðni á þessum leiðum. Tvöföldun stofnbrauta  umhverfis höfuðborgarsvæðið með vegriðum og öruggum gatnamótum mun bæta umferðaröryggi og fækka slysum og munatjónum mjög mikið.

Við núverandi aðstæður í atvinnumálum þar sem atvinnuleysi í heild er á bilinu 9-10% af mannafla, og  mun meira í mannvirkjagreinum, hafa framkvæmdir á borð við þessar þau jákvæðu hliðaráhrif að draga verulega úr atvinnuleysi og kostnaði ríkissjóðs af því, og gefa fjölmörgum einstaklingum tækifæri til starfa og fyrirtækjum möguleika á að halda áfram starfsemi.

Fjárfestingar á Íslandi stefna í sögulegt lágmark á þessu ári. Á síðasta ári námu fjárfestingar í heild um 14% af landsframleiðslu en þær hafa numið 25% af landsframleiðslu að jafnaði frá lokum síðari heimsstyrjaldar og 21% á síðustu tveimur áratugum. Samkvæmt könnun Capacents meðal stærstu fyrirtækja landsins búast þau við því að fjárfestingar dragist saman um 12% á þessu ári í krónum talið og um 17% til viðbótar á næsta ári. Þar sem fjárfesting er aflvél vaxtar og atvinnusköpunar er ljóst að verði þessar spár fyrirtækjanna að veruleika mun samdráttur halda áfram í atvinnulífinu, fleiri störf munu hverfa en verða til og tæki og búnaður úreldast. Við þessar aðstæður er lífsnauðsynlegt fyrir íslenskt efnahagslíf að allra leiða sé leitað til þess að auka framkvæmdir og fjárfestingar.

Þegar tímabil innheimtu veggjalda hefst, væntanlega á árinu 2015, til þess að standa straum af kostnaði við framkvæmdirnar gæti nýtt kerfi gjaldtöku fyrir notkun umferðarmannvirkja verið í sjónmáli. Þær hugmyndir sem samgönguráðherra hefur kynnt um gjaldtöku fyrir notkun á umræddum þremur stofnæðum og göngum munu falla vel að nýju fyrirkomulagi gjaldtöku sem komi í stað þess sem nú er.

Samtök atvinnulífsins styðja hugmyndir samgönguráðherra og hvetja til víðtækrar pólitískrar samstöðu um þessi verkefni.

Samtök atvinnulífsins