SA hafna verðbólgusamningum

Markmið Samtaka atvinnulífsins í yfirstandandi samningalotu er að leggja grunn að stöðugu verðlagi og betri lífskjörum. Stöðugt verðlag er skilgreint með 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Í því  felst að launabreytingar í heild á hverjum 12 mánuðum verða að vera innan marka sem samrýmast verðstöðugleika. Heildar launabreytingum má skipta í fernt, þ.e. launabreytingar sem ákveðnar eru í kjarasamningum, framkvæmd kjarasamninga innan fyrirtækja og stofnana, innbyggðar breytingar í kjarasamningsbundnum og óformlegum launakerfum, t.d. starfsaldurshækkanir, og loks launaskrið sem á sér markaðslegar forsendur.

ASÍ hefur lagt fram óformlega tillögu í yfirstandandi kjaraviðræðum sem felur í sér 3,25% almenna launahækkun en þó að lágmarki 11.000 kr. hækkun mánaðarlauna. Ætla má að  krónutöluhækkunin auki launakostnað um 0,8%.  Samtals felst því liðlega 4% hækkun launakostnaðar í tillögu ASÍ. Ef sú yrði niðurstaða kjarasamninga og við bættist síðan önnur launamyndun sem að framan er getið gæti launavísitala ársins 2014 hækkað um 5-6%. Það myndi leiða til vaxandi verðbólgu og stuðla að enn hærri vöxtum sem bitna illa á skuldsettum fyrirtækjum og heimilum.

Það vill svo til að snemma á  þessu ári hækkuðu laun almennt um 3,25% og mánaðarlaunataxtar kjarasamninga um að lágmarki 11.000 kr. Mat samningsaðila á almenna vinnumarkaðnum var að krónutöluhækkunin myndi hækka launakostnað um 0,5% aukalega. Niðurstaðan varð sú að launavísitalan hækkaði um 6% milli október 2012 og 2013 og að hækkun verðlags síðustu 12 mánuði var 3,7%.

Launin hækkuðu í febrúar og mars um u.þ.b. 4% samkvæmt kjarasamningum og um 2% af öðrum ástæðum. Skýringarnar á þessari 2% hækkun umfram kjarasamninga eru eflaust fjölmargar en stærstu þættirnir liggja í launakerfum sem tryggja ákveðinn framgang í launum og þeirri tilhneigingu að prósentur krónutöluhækkana launataxta leiti upp allan launastigann á vinnumarkaðnum.

Á vef ASÍ í dag, 17. desember, er því haldið fram að hugmyndir ASÍ félaganna um 3,25% almenna hækkun launa en þó að lágmarki 11.000 kr. hækkun mánaðarlauna, séu vel innan marka sem Seðlabankinn hafi nefnt að samrýmist verðbólgumarkmiðinu 2,5%. Þarna er ekki farið rétt með.

Í fréttaþættinum Speglinum í RÚV þann 6. nóvember 2013 var Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, spurður um hvað laun mættu hækka mikið án þess að verðbólgan skrúfaðist upp. Hann svaraði orðrétt: "

Það er nú einfalt að reikna það, að ef laun eiga að vera í samræmi við verðbólgumarkmið bankans, þá má launakostnaður á framleidda einingu ekki vaxa meira heldur en nemur verðbólgumarkmiðinu. Þar af leiðandi  mega launin hækka sem nemur framleiðniaukningu, við vitum ekki nákvæmlega hver hún verður, segjum að hún sé eitt prósent eða eitt og hálft prósent, þá mega launin hækka kannski um þrjú og hálft til fjögur. En það má ekki gerast allt í kjarasamningum vegna þess að það er alltaf þannig að það er alltaf eitthvað smá launaskrið og sérsamningar sem leggjast ofan á. Þannig að það er nú aðallega vinnumarkaðarins að meta það hvað það svigrúm er nákvæmlega, hvort það er 2 prósent eða tvö og hálft prósent."

Á kynningarfundi Seðlabankans þann sama dag sagði Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans.

" ...við erum ekki sérstaklega bjartsýnir um niðurstöðu kjarasamnings í okkar spá, og gerum ráð fyrir að laun hækki meira en samræmist verðbólgumarkmiðinu sem þýðir þá að hjöðnun verðbólgunnar verður hæg og það þarf þá hærri vexti en ella til að tryggja það." "Til þess að það sé ekki verðbólguþrýstingur á vinnumarkaði þá þarf launakostnaður á framleidda einingu að hækka um circa 2 ½%."

Á kynningarfundi Seðlabankans þann 11. desember sl. var Seðlabankastjóri spurður að því hvort bankinn hefði áhyggjur af því að það ríki óvissa á vinnumarkaði. Svar hans var orðrétt:

 "Varðandi kjarasamningana, jú við höfum haft áhyggjur af því og höfum áfram áhyggjur af því, en óvissa er betri heldur en vissa um slæma niðurstöðu. Sem betur fer, ef þið bara skoðið bilið sem þessir aðilar voru að ræða varðandi almenna launahækkun, þá er efri hlutinn í því bili, ef við sleppum þessu með hækkun lægstu launa, það er spurning um hvernig áhrif það hefur á heildina, efri hlutinn á því bili er fyrir neðan það sem er innbyggt inn í spá Seðlabanks nú þegar. Sem betur fer, þrátt fyrir það að það hafi slitnað upp úr og það sé ekki búið að ná saman, þá virðist mér að bæði væntingar og umræðan öll vera orðin miklu raunhæfari heldur en hún var til dæmis síðastliðið sumar."

Þarna var Seðlabankastjóri að bera saman tillögu ASÍ og spá bankans um hækkun launavísitölu á árinu 2014, sem er u.þ.b. 5,5%, en sú hækkun samrýmist ekki verðbólgumarkmiði bankans eins og skýrt hefur komið fram.

Aðalhagfræðingur Seðlabankans, Þórarinn G. Pétursson, hefur birt greiningu á áhrifum kjarasamninganna árið 2011. Niðurstaðan er sú að í aðdraganda þeirra hafi verðbólga hjaðnað töluvert, verðbólguvæntingar hafi verið við verðbólgumarkmið og ágætur bati hafinn á vinnumarkaði. Kjarasamningarnir vorið 2011 virðist síðan hafa haft þau áhrif að verðbólga jókst, verðbólguvæntingar hækkuðu og neikvæður viðsnúningur varð á vinnumarkaði. Samningarnir hafi leitt til uppsagna og færri störf hafi orðið til en ella en m.a. er fjallað um málið í frétt á vef Viðskiptablaðsins 18. nóvember sl.

Samtök atvinnulífsins vilja að aðilar á vinnumarkaði dragi lærdóm af reynslu undangenginna ára. Sá lærdómur felst í því að launahækkanir í heild þurfi að samrýmast stöðugu verðlagi. Það felur í sér að launavísitalan hækki ekki meira en 3,5-4% á ári og það gerist ekki nema niðurstaða kjarasamninga verði vel innan við 3%. Kjarasamningar sem fela í sér meiri hækkanir eru verðbólgusamningar.