Vinnumarkaður - 

06. Oktober 2018

SA gagnrýna yfirlýsingu ASÍ um hagræðingaraðgerðir Icelandair

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA gagnrýna yfirlýsingu ASÍ um hagræðingaraðgerðir Icelandair

Í ályktum miðstjórnar Alþýðusambands Íslands 3. október er ákvörðun Icelandair um uppsagnir starfsmanna og fækkun flugliða sem gefst kostur á hlutastarfi gagnrýnd. Í ljósi þeirrar gagnrýni skal bent á nokkrar staðreyndir um fjölgun starfsmanna félagsins síðustu ár.

Í ályktum miðstjórnar Alþýðusambands Íslands  3. október er ákvörðun Icelandair um uppsagnir starfsmanna og fækkun flugliða sem gefst kostur á hlutastarfi gagnrýnd. Í ljósi þeirrar gagnrýni skal bent á nokkrar staðreyndir um fjölgun starfsmanna félagsins síðustu ár.

  • Starfsmenn eru nú 4.300, en voru 2.800 árið 2013. Félagið hefur skapað 1.500 störf á fjórum árum.
  • Nær öll störfin hafa orðið til hér á Íslandi.
  • Félagið hefur nýlega reist þjálfunarsetur í Hafnarfirði og flugskýli á Keflavíkurflugvelli fyrir milljarða króna í þeim tilgangi að flytja til Íslands á annað hundrað störf sem áður voru unnin erlendis.
  • Fáir vinnustaðir eru eftirsóttari, ekki síst vegna þess að félagið er þekkt fyrir að bjóða gott starfsumhverfi.

Icelandair hefur, í harðri alþjóðlegri samkeppni við erlend flugfélög, ávallt starfað af heilindum á íslenskum vinnumarkaði og virt alla kjarasamninga. Icelandair hefur gengið mun lengra en önnur félög í sambærilegum rekstri í þjónustu við flugvélar og öðrum rekstrarþáttum hér á landi.

 

Aðstæður í flugrekstri eru krefjandi um þessar mundir. Eins og fram hefur komið í tilkynningum Icelandair hefur félaginu reynst nauðsynlegt að grípa til margháttaðra ráðstafana til hagræðingar og lækkunar kostnaðar og þar á meðal til uppsagna starfsmanna. Í þeim efnum hefur öllum samningum sem um slíkt gilda verið fylgt.

 

Launakostnaður íslenskra fyrirtækja er einn sá hæsti í heimi. Á alþjóðamarkaði verða þau að bregðast við aukinni samkeppni, lækkun verða og hækkun kostnaðar með hagræðingu. Auknar öryggiskröfur hafa aukið þjálfunarkostnað flugliða og flugmanna mikið. Flugmönnum gefst almennt ekki kostur á hlutastarfi. Frumskyldur flugliða felast í því að gæta öryggis um borð og þjálfunarkostnaður flugliða í hlutastarfi er mun hærri hlutfallslega en flugliða í fullu starfi.

 

Óhjákvæmilegar hagræðingaraðgerðir standa fyrir dyrum í íslensku atvinnulífi til að bregðast við háum launakostnaði og erfiðri samkeppnisstöðu. Minna má á að norræn verkalýðshreyfing sýnir hagræðingaraðgerðum fyrirtækja skilning á grundvelli tryggs öryggisnets á vinnumarkaði, enda forsenda þess að fyrirtæki geti staðist alþjóðlega samkeppni.

 

 

Samtök atvinnulífsins