09. janúar 2026

SA gagnrýna víðtækar heimildir í frumvarpi heilbrigðisráðherra

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA gagnrýna víðtækar heimildir í frumvarpi heilbrigðisráðherra

Samtök atvinnulífsins hafa skilað umsögn um drög að frumvarpi til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna viðbragða við lyfjaskorti (mál nr. S-241/2025). Frumvarpið felur í sér breytingar á lyfjalögum, lögum um dýralyf og lögum um lækningatæki og er markmið þess meðal annars að tryggja Lyfjastofnun skýrari lagaheimildir til að bregðast við lyfjaskorti.

Í umsögn sinni taka samtökin undir mikilvægi þess að unnt sé að bregðast við lyfjaskorti og lágmarka áhrif hans á sjúklinga. Samtökin telja þó að mörg ákvæði frumvarpsins gangi lengra en nauðsyn krefur og feli í sér óhóflegt inngrip í rekstur fyrirtækja á lyfjamarkaði og stjórnarskrárvarið atvinnufrelsi.

Samtökin minna á að sambærilegt frumvarp hafi verið lagt fram á síðasta löggjafarþingi án þess að ná fram að ganga og að ekki hafi verið brugðist við athugasemdum sem SA gerðu þá. Því ítreka samtökin gagnrýni sína, meðal annars á þá fullyrðingu í greinargerð frumvarpsins að það gefi ekki tilefni til að ætla að ákvæði þess stangist á við stjórnarskrá. Að mati samtakanna er slík umfjöllun ófullnægjandi og er hvatt eindregið til þess að farið verði í heildstætt og vandað mat á stjórnarskrársamræmi frumvarpsins.

Sérstök gagnrýni beinist að fyrirhuguðum breytingum á skyldum heildsöluleyfishafa, meðal annars varðandi tilkynningar um yfirvofandi eða ófyrirséðan lyfjaskort og nýrri heimild Lyfjastofnunar til að krefjast þess að lyfjum verði skilað til heildsala. Samtökin telja orðalag ákvæðanna of opið og matskennt og vara við því að þau geti raskað samningsfrelsi og samkeppni á markaði. Þá gera samtökin alvarlegar athugasemdir við þær víðtæku heimildir sem Lyfjastofnun yrði veitt til að stýra og takmarka afgreiðslu lyfja samkvæmt frumvarpinu.

Loks gagnrýna samtökin tillögur um skyldu til að halda lágmarksbirgðir lyfja og heimildir til sviptingar leyfa. SA telja að skortur sé á skýrleika, meðalhófi og kröfum um saknæmi og árétta að afmarka verði slíkar heimildir mun betur í lögum.

Samtök atvinnulífsins