Vinnumarkaður - 

14. Oktober 2018

SA birta samningsáherslur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA birta samningsáherslur

Samtök atvinnulífsins hafa sent formönnum verkalýðsfélaga á almennum vinnumarkaði bréf þar sem áherslur SA í komandi kjaraviðræðum eru settar fram. Miklu máli skiptir fyrir atvinnulífið og launafólk að vel takist til við endurnýjun samninga um áramótin sem ná til á þriðja þúsund aðildarfyrirtækja SA og 110 þúsund starfsmanna þeirra.

Samtök atvinnulífsins hafa sent formönnum verkalýðsfélaga á almennum vinnumarkaði bréf þar sem áherslur SA í komandi kjaraviðræðum eru settar fram. Miklu máli skiptir fyrir atvinnulífið og launafólk að vel takist til við endurnýjun samninga um áramótin sem ná til á þriðja þúsund aðildarfyrirtækja SA og 110 þúsund starfsmanna þeirra.

Í bréfinu lýsa Samtök atvinnulífsins áskorunum sem mikilvægt er að fjallað verði um í komandi kjaraviðræðum. SA óska eftir viðræðum sem hafa að leiðarljósi samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja, lága verðbólgu og lægri vexti.

Lífskjör og starfsánægju má bæta með öðru en beinum launahækkunum og lýsa SA yfir vilja til að ræða ýmis sameiginleg áherslumál aðila.

Aðgerðir á fasteignamarkaði
Að mati Samtaka atvinnulífsins geta aðgerðir til að auka framboð á hagkvæmu húsnæði bætt stöðu tekjulágra á vinnumarkaði og greitt fyrir farsælli niðurstöðu kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Miklar launahækkanir myndu valda enn meiri hækkunum á húsnæðisverði og auka núverandi vanda. Húsnæðisvandinn er ekki almennur heldur bundinn við höfuðborgarsvæðið og afmarkaða hópa, einkum tekjulága og erlent starfsfólk. Aðgerðir miði að því að tryggja þessum hópum aðgang að húsnæði - bæði til leigu og eignar - og að aðilar vinnumarkaðar vinni saman að því markmiði á kjarasamningstímabilinu.

Aukinn sveigjanleiki og fjölskylduvænn vinnumarkaður
SA leggja áherslu á aukinn sveigjanleika vinnutíma, m.a. til að foreldrar eigi auðveldara með að samræma atvinnu og fjölskyldulíf. Með breytingum á kjarasamningum má færa launakostnað vegna yfirvinnu inn í dagvinnugrunn því yfirvinnugreiðslur eru margfalt meiri á Íslandi en nokkurs staðar þekkist. Slíkar breytingar myndu stuðla að minni launamun kynjanna því karlar hafa hafa hærri heildarlaun en konur sem að stórum hluta stafar af yfirvinnugreiðslum.

Aukin framleiðni með nýrri nálgun
Samningsaðilum ber að stuðla að aukinni framleiðni sé þess kostur með breytingum á kjarasamningum. Með betra skipulagi og sveigjanlegri vinnutíma munu bæði fyrirtæki og starfsmenn þeirra hagnast. Unnt er að stytta heildarvinnutíma, gera vinnumarkaðinn fjölskylduvænni og auka hagkvæmni í rekstri fyrirtækja og heimila

Samábyrgð vegna einstaklinga með skerta starfsgetu 
Samtök atvinnulífsins hafa um árabil haft verulegar áhyggjur af fjölgun fólks sem snýr ekki aftur á vinnumarkað eftir langvinn veikindi eða önnur áföll. Það hefur mikil áhrif á afkomu fjölskyldna þeirra auk þess sem kostnaður samfélagsins er mikill. Að mati SA getur samvinna atvinnurekenda, sjúkrasjóða stéttarfélaga, Virk og Sjúkratrygginga Íslands greitt götu fólks með skerta starfsgetu inn á vinnumarkaðinn á nýjan leik. Takist það vinna allir.

Í niðurlagi bréfs Samtaka atvinnulífsins sem formaður SA, Eyjólfur Árni Rafnsson, og framkvæmdastjóri SA, Halldór Benjamín Þorbergsson, skrifa undir segir:

„Kjaraviðræður snúast um uppbyggingu lífskjara fólks og jákvæða þróun samfélagsins. Forsenda bættra kjara er samkeppnishæft atvinnulíf og jákvætt samstarf allra aðila á vinnumarkaði.“

Formaður og framkvæmdastjóri SA hafa óskað eftir því að hefja viðræður við viðsemjendur um ofangreind atriði en þeim er betur lýst í bréfi SA til verkalýðsfélaganna á almennum markaði sem má nálgast hér að neðan:

Bréf SA til viðsemjenda 1. október 2018 (PDF)

Samtök atvinnulífsins