Vinnumarkaður - 

11. Apríl 2006

SA aðilar að þróun jafnréttiskennitölu fyrirtækja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

SA aðilar að þróun jafnréttiskennitölu fyrirtækja

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur vegna verkefnisins jafnréttiskennitala fyrirtækjanna. Að verkefninu standa viðskiptaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa, auk Rannsóknaseturs vinnuréttar og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem halda fara mun með framkvæmd verkefnisins.

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur vegna verkefnisins jafnréttiskennitala fyrirtækjanna. Að verkefninu standa viðskiptaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa, auk Rannsóknaseturs vinnuréttar og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst sem halda fara mun með framkvæmd verkefnisins.

Í verkefninu felst m.a. eftirfarandi:

  • Birtar verða árlega grunnupplýsingar um fjölda kvenkyns stjórnarmanna og stjórnarformanna í 100 stærstu fyrirtækjunum hér á landi.

  • Birtar verða árlega upplýsingar um fjölda æðstu stjórnenda innan fyrirtækjanna, þ.e. framkvæmdastjóra og forstjóra.

  • Mótaðir verða fleiri mælikvarðar á árangur fyrirtækja í jafnréttismálum og birtar upplýsingar á grundvelli þeirra.

  • Þróuð verður jafnréttiskennitala fyrirtækjanna, sem er ætlað að sýna hvaða árangri hvert fyrirtæki fyrir sig hefur náð í jafnréttismálum.

Með aðild að þessu verkefni vilja Samtök atvinnulífsins leggja sitt af mörkum til að stuðla að mikilvægri umræðu um jafna stöðu karla og kvenna í atvinnulífinu. Enn er svo komið að karlar hafa að jafnaði hærri tekjur en konur og stjórnunarstöður eru mun oftar mannaðar körlum en konum. SA hafa lagt áherslu á það að hvers kyns mismunun á ómálefnalegum forsendum sé einfaldlega léleg stjórnun og sóun á verðmætum sem ekki á að geta þrifist í samkeppnisrekstri. Samtökin hafa jafnframt beint athyglinni að kerfislægum ástæðum fyrir þessari stöðu og bent á að ábyrgð mæðra virðist einhverra hluta vegna ennþá vera meiri en ábyrgð feðra á heimilunum (sbr. könnun IMG Gallup fyrir Jafnréttisráð sem sýndi að kennaraverkfallið bitnaði frekar á konum en körlum á vinnumarkaði). Þannig á það auðvitað ekki að vera en sá virðist engu að síður vera veruleikinn. Þess vegna hafa SA í þessu samhengi ekki síst lagt áherslu á skilvirkni í starfsemi leikskóla, grunnskóla, öldrunarstofnana o.s.frv. Ef kerfislægar ástæður eru að valda því að konur standa höllum fæti á vinnumarkaði þá þarf einfaldlega að vinna á þeim ástæðum.

Sýnilegir mælikvarðar

Hins vegar er jafnframt ástæða til að minna stjórnendur í atvinnulífinu á það ójafnvægi sem ríkir varðandi stjórnunarstöður og launatekjur. Verkefnið um jafnréttiskennitölu fyrirtækja mun vonandi stuðla að því að stjórnendur horfi í auknum mæli til öflugra kvenna við ákvarðanatöku um framgang í starfi og fjölmörg  fyrirtæki sem standa sig vel á sviði jafnréttismála munu í krafti þessa verkefnis geta vísað til sýnilegra mælikvarða um árangur. Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, undirritaði samninginn fyrir hönd samtakanna.

Samtök atvinnulífsins