Vinnumarkaður - 

22. október 2003

Röskun vegna vetrarfría í grunnskólum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Röskun vegna vetrarfría í grunnskólum

Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé komin mikil reynsla á vetrarfrí grunnskólanna, en þau valdi óneitanlega mikilli röskun og óþægindum á mörgum vinnustöðum. Hann segir að þetta komi óneitanlega verst við fyrirtæki sem eru með mikið af ungu fólki í þjónustustörfum, svo sem banka og tryggingafélög.

Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að ekki sé komin mikil reynsla á vetrarfrí grunnskólanna, en þau valdi óneitanlega mikilli röskun og óþægindum á mörgum vinnustöðum. Hann segir að þetta komi óneitanlega verst við fyrirtæki sem eru með mikið af ungu fólki í þjónustustörfum, svo sem banka og tryggingafélög.

Hann segir ljóst að vetrarfríin bitni frekar á konum en körlum á vinnumarkaðnum: "Þó svo að það eigi ekki að vera þannig, og sé sem betur fer að breytast, þá er það samt ennþá veruleikinn að konur bera meiri ábyrgð á heimilunum. Þess vegna lendir það frekar á konum að missa úr vinnu vegna þessara daga." Gústaf segir þetta eitt af þessum dæmigerðu atriðum sem stuðla að tekjumuni kynjanna.

Vetrarfrí í grunnskólum Reykjavíkur hafa nú verið samræmd af Fræðsluráði Reykjavíkur og eru dagana 30. október til 3. nóvember, í þeim skólum sem taka vetrarfrí yfirleitt. Gústaf segir að hafa mætti meira samráð um vetrarfríin við Samtök atvinnulífsins. "Það kann vel að vera að það sé heppilegt að samræma þessa daga. Við höfum lýst okkur reiðubúna til að koma á einhverju samstarfi eða samráði um þetta fyrirkomulag. Við höfum gert athugasemdir við að fræðsluyfirvöld ákveði einhliða hvernig þetta á að vera. Kannski er ástæða til að stuðla að almennri orlofstöku tiltekna daga svo menn séu viðbúnir þessu, en eins og staðan er í dag hefur ekki verið talað við okkur um þetta."

Samtök atvinnulífsins