Efnahagsmál - 

11. Júní 2009

Risavaxin áskorun í ríkisfjármálum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Risavaxin áskorun í ríkisfjármálum

Fjárlög þessa árs voru afgreidd með 153 milljarða króna halla, þar af 66 milljarða króna halla fyrir greiðslu vaxta. Nú stefnir í að niðurstaðan verði a.m.k. 20 milljörðum króna lakari. Efnahagsáætlun stjórnvalda, sem er forsenda fjárhagslegrar fyrirgreiðslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS), kveður á um að halli ríkissjóðs verði minnkaður um 2-3% af landsframleiðslu á ári næstu árin þannig að afgangur af rekstri, fyrir vaxtagreiðslur, nemi 3,5-4% af landsframleiðslu árið 2012. Landsframleiðsla þessa árs er áætluð rúmlega 1.400 milljarðar króna þannig að afgangur sem nemur 3,5-4% samsvarar 49-56 milljörðum króna. Verkefnið sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir er því að bæta afkomu ríkissjóðs um 140 milljarða á næstu þremur árum. Samkvæmt efnahagsáætluninni á heildarútfærsla þessa afkomubata ríkissjóðs að liggja fyrir um mitt þetta ár.

Fjárlög þessa árs voru afgreidd með 153 milljarða króna halla, þar af 66 milljarða króna halla fyrir greiðslu vaxta. Nú stefnir í að niðurstaðan verði a.m.k. 20 milljörðum króna lakari. Efnahagsáætlun stjórnvalda, sem er forsenda fjárhagslegrar fyrirgreiðslu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS), kveður á um að halli ríkissjóðs verði minnkaður um 2-3% af landsframleiðslu á ári næstu árin þannig að afgangur af rekstri, fyrir vaxtagreiðslur,  nemi 3,5-4% af landsframleiðslu árið 2012. Landsframleiðsla þessa árs er áætluð rúmlega 1.400 milljarðar króna þannig að afgangur sem nemur 3,5-4% samsvarar 49-56 milljörðum króna. Verkefnið sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir er því að bæta afkomu ríkissjóðs um 140 milljarða á næstu þremur árum. Samkvæmt efnahagsáætluninni á heildarútfærsla þessa afkomubata ríkissjóðs að liggja fyrir um mitt þetta ár.

Það er mikið í húfi fyrir Íslendinga að efnahagsáætlun stjórnvalda og AGS verði fylgt og trúverðugar og bindandi ákvarðanir um tekjur og gjöld ríkissjóðs til næstu þriggja ára verði tekar á næstu vikum.

Í fyrsta lagi eru slíkar ákvarðanir forsenda fyrir lánafyrirgreiðslu AGS og síðan annarra þjóða, einkum Norðurlanda, sem er forsenda fyrir því að Seðlabankinn hafi yfir að ráða lágmarks gjaldeyrisforða. Það er síðan forsenda fyrir því að gengi krónunnar verði stöðugt og geti farið að styrkjast í kjölfarið.

Í öðru lagi er núverandi hallarekstur ríkissjóðs ósjálfbær og endar með ósköpum ef ekki er tekið á honum fyrr en síðar. Engin von er til þess að hagvöxtur á komandi árum geti leyst vandann í ríkisfjármálunum og því verður ekki undan því vikist að taka á honum.

Í þriðja lagi er aukið aðhald í ríkisfjármálum nauðsynleg forsenda fyrir trausti umheimsins á fjárhag Íslendinga og því að mat lánshæfisfyrirtækja á getu ríkissjóðs til að standa við skuldbindingar sínar aukist, en hærra lánshæfismat mun bæta lánskjör ríkissjóðs og  innlendra fyrirtækja erlendis. Það er í raun forsenda fyrir því að fjárfestingar aukist á ný, t.d. að unnt verði að halda áfram að virkja orkulindir landsins því þeir fjárfestingarkostir eru vandfundnir sem standa undir þeim vöxtum sem Íslendingum bjóðast, ef lán standa yfirhöfuð til boða.

Í fjórða lagi er nauðsynlegt að draga hratt úr halla ríkissjóðs og eyða honum til þess að stuðla að lækkun langtímavaxta á innlendum markaði. Aukið framboð á innlendu lánsfé og lægri langtímavextir munu stuðla að auknum fjárfestingum fyrirtækja og nýráðningum starfsfólks og þannig gefa fyrirtækjunum færi á að vaxa á ný, en það mun  stækka mun skattstofna ríkis og sveitarfélaga og styrkja uppbyggingu velferðarkerfisins.

Í fimmta lagi er trúverðug áætlun í ríkisfjármálum næstu árin forsenda fyrir því að Seðlabankinn lækki stýrivexti sína umtalsvert frá þeim 12% sem hann ákvað í upphafi mánaðarins, en hratt vaxtalækkunarferli niður í lága eins stafs tölu er forsenda fyrir því að atvinnulífið fái eðlilegan rekstrargrundvöll.

Nokkur umræða hefur farið fram að undanförnu um það hversu hratt skuli farið í það að ná niður halla ríkissjóðs. Kostir þess að ná hallanum hraðar niður en áætlun stjórnvalda og AGS gerir ráð fyrir eru þeir að því meiri árangur sem næst á fyrri stigum þeim mun minni verður lánsfjáreftirspurn ríkisins, og þannig geta vextir orðið lægri. Viðsnúningur í efnahagslífinu verður fyrr og hjól atvinnulífsins geta farið að snúast hraðar. Þá eru einnig pólitísk rök fyrir því að taka stórt skref í upphafi því meiri líkur eru á víðtækri samstöðu um eina stóra aðgerð, þótt sársaukafull sé, en að búta óþægindin niður í marga hluta á löngum tíma.

Ekki hefur enn verið tekin pólitísk ákvörðun um hlutföll skatttekna og niðurskurðar í hinni blönduðu leið til aukins aðhalds í ríkisfjármálum. Að mati Samtaka atvinnulífsins er óraunhæft að ganga út frá því að helmingur aðhaldsins náist með auknum skatttekjum því það mun ganga of nærri skattstofnunum. Aukin skattheimta sem næmi um 3% af landsframleiðslu, 40-45 milljörðum króna, myndi leiða til svipaðrar skattbyrði og var á árunum 2001-2003. Tekjuauki af slíkri stærðargráðu verður ekki sóttur nema í stærstu tekjustofnana, tekjuskatt og virðisaukaskatt. Ef skattar hækka sem þessu nemur stendur eftir að draga þarf úr ríkisútgjöldum um 100 milljarða króna, eða allt að 20% af útgjöldum, á næstu þremur árum. Það verður sársaukafullt og vandséð að markmiðið náist öðru vísi en með verulegum niðurskurði opinberra fjárfestinga, samdrætti í þjónustu og lækkuðum launakostnaði. Á móti niðurskurði opinberra fjárfestinga gætu þó einkaframkvæmdir í samgöngumálum og byggingu sjúkrahúsa vegið að stórum hluta.

Hannes G. Sigurðsson

Samtök atvinnulífsins