Efnahagsmál - 

11. apríl 2002

Ríkið keppi ekki við hugbúnaðarfyrirtæki

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ríkið keppi ekki við hugbúnaðarfyrirtæki

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins:

Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins:


Hver er ávinningur upplýsingatækninnar?
Setning á ráðstefnu TölvuMynda og dótturfélaga, Grand Hótel Reykjavík,

11. apríl 2002


Góðir gestir,

Það er mér sönn ánægja að vera boðið að setja þessa glæsilegu ráðstefnu TölvuMynda og dótturfélaga þeirra, um ávinning upplýsingatækninnar.

Upplýsingatækni mun vera orðin næststærsta atvinnugrein Evrópu. Um 6-10% af viðskiptum álfunnar eru kaup á upplýsingartækni. Á nýlegum fundi Samtaka íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja kom fram, að útflutningstekjur hugbúnaðarfyrirtækja námu tæplega tveimur og hálfum milljarði króna árið 2000, en sama ár nam heildarvelta greinarinnar 15,9 milljörðum króna. Hlutdeild upplýsingatækniiðnaðar eins og hún er metin í þjóðarframleiðslunni jókst úr 3,2% í 4,9% frá árinu 1996 til loka árs 2000, úr tæpum 34 milljörðum króna í tæpa 62. Árið 2000 störfuðu um 2.800 manns við upplýsingatækni og hafði fjöldi starfsmanna þá tvöfaldast frá árinu 1995. Þetta er óneitanlega mjög ör vöxtur, sem er mikið fagnaðarefni.

Þegar þetta er borið saman við þróunina á Norðurlöndunum og í Bretlandi kemur þó í ljós að útflutningverðmæti hugbúnaðargeirans mælt sem hlutfall af heildarútflutningi lands, er mun minna hér á landi en annars staðar.

Staðan nokkuð góð innan greinarinnar
Í febrúar sl. gerðu Samtök iðnaðarins könnun á stöðu og horfum í starfsemi 84 meðalstórra og stórra fyrirtækja innan sinna raða, þar á meðal 14 fyrirtækja í upplýsinga- og tækniiðnaði. Meðal þeirra varð að meðaltali um 33% veltuaukning 2001, en 15,5% meðal fyrirtækjanna allra. Þá reiknuðu fyrirtækin í upplýsingatækni að meðaltali með rúmlega 12% veltuaukningu í ár, en meðaltal fyrirtækjanna allra var 1,7%. Samkvæmt könnuninni hafði starfsmönnum fyrirtækja í upplýsingatækniiðnaði hins vegar fækkað að meðaltali um 2,5% milli áranna 2000 og 2001. Staða fyrirtækjanna er samkvæmt þessu nokkuð góð, þótt hægt hafi á vexti þeirra síðan á hápunkti þensluskeiðsins.

Íslenski upplýsingatæknigeirinn hefur líkt og fleiri greinar gengið í gegnum ákveðið hagræðingarskeið undanfarin misseri, m.a. með sameiningu fyrirtækja. Hann státar nú af stöndugum, framsæknum fyrirtækjum og sterkum rekstrareiningum, en sum fyrirtækjanna hafa á að skipa hundruðum starfsmanna og starfsemi víða um lönd. Svo dæmi sé tekið af TölvuMyndum sem skipuleggja þessa ráðstefnu þá starfa þar nú hátt á fjórða hundrað manns, þar af um 140 erlendis, 15 á Akureyri og 10 á Austurlandi. TölvuMyndir eru með rekstur á mismunandi sviðum atvinnulífsins í fjórum löndum, á Íslandi, í Kanada, Skotlandi og Noregi. Loks hefur fyrirtækið þrisvar sinnum verið valið í hóp 500 framsæknustu fyrirtækja í Evrópu, sem verður að teljast mjög glæsilegur árangur.

Samkeppni við ríkisstofnanir
Nýlega spurði Morgunblaðið þeirrar spurningar í ágætum greinaflokki á hverju Ísland myndi lifa. Og ef til vill væri réttara að spyrja,  á hverju við viljum lifa. Upplýsingatæknin gegnir þar augljóslega mikilvægu hlutverki.

Ljóst er að upplýsingatækniiðnaður er grein sem býður upp á gríðarleg sóknarfæri og verðmætasköpun, og því nauðsynlegt að hlúa vel að starfsumhverfi greinarinnar. Um 65% starfsfólks í upplýsingatækni á Íslandi eru með háskólagráðu og árið 2001 var veltan á hvert starf í greininni áætluð um 6,1 milljón króna. Vaxandi umfang greinarinnar, sem áður er getið, er því mikið fagnaðarefni.

Menntakerfið hefur stutt nokkuð vel við þróun greinarinnar. Hins vegar er stór hluti hugbúnaðarstarfsemi á Íslandi enn ósýnilegur, hún er innan ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja.

Tölur um umfang upplýsingatækniiðnaðarins ná einungis til virðisaukaskattsskyldrar starfsemi. Þær segja hins vegar engan veginn alla söguna því fjöldi opinberra stofnana og fyrirtækja starfrækir sína eigin hugbúnaðarþjónustu. Ekki skal hér fullyrt um hvort nákvæmir útreikningar liggi þar alla jafna fyrir um fjárhagslegt ágæti slíks fyrirkomulags, en ef svo er þá byggja þeir væntanlega á forsendum skattfrelsis þessarar innanhússstarfsemi hinna opinberu aðila. Þarna er um að ræða óeðlilega samkeppni opinberra aðila við fyrirtæki á markaði og gera verður þá kröfu til hins opinbera að það keppi ekki við einkafyrirtæki á þessu sviði.

Frumvörp um vísindi og tækni
Framlög fyrirtækja til rannsókna og þróunar hafa löngum verið fremur lág hér á landi, þótt veruleg breyting hafi orðið þar á með tilkomu Íslenskrar erfðagreiningar. Rannsóknir og þróun eru upplýsingatækninni auðvitað nauðsynleg og aðgangur að slíku fjármagni því mikið hagsmunamál greinarinnar. Nú liggja fyrir Alþingi þrjú frumvörp um opinberan stuðning við vísinda- og tæknirannsóknir.

Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins hafa lagt fram sameiginlega umsögn um frumvörpin þrjú. Samtökin telja að nokkuð góð sátt eigi að geta náðst um frumvarp forsætisráðherra um vísinda- og tækniráð. Þá er sérstaklega horft til þess að með þessu nýja ráði er vísinda- og tæknimálum gert hærra undir höfði í stjórnkerfinu með beinni þátttöku fjögurra ráðherra, og vonandi með þeim árangri að áherslur verði auknar á málaflokkinn.

Varðandi hin frumvörpin hafa samtökin ákveðnar áhyggjur af því að ekkert er gefið upp um stærð og umfang Tækniþróunarsjóðs, sem augljóslega mun snúa meira að fyrirtækjaumhverfinu. Hins vegar kemur fram að eignir og skuldbindingar Tæknisjóðs Rannís muni falla inn í Rannsóknasjóð. Það er því ljóst af að stærð og umfang Tækniþróunarsjóðs og stjórnskipulag hans mun ráða miklu um árangur þessara breytinga fyrir atvinnulífið og afstöðu atvinnulífsins til þeirra.

Samtökin telja að árlegt ráðstöfunarfé Tækniþróunarsjóðs þurfi að vera a.m.k. 800-1000 milljónir kr. til að byrja með, til að mæta þeirri brýnu þörf sem nú blasir við í nýsköpunarumhverfinu. Þessi framlög þyrfti síðan að auka í a.m.k. 2 milljarða á 3-5 ára tímabili.

Glæsilegt framtak

Góðir gestir.
Ég vil að lokum færa  TölvuMyndum og dótturfélögum þeirra þakkir fyrir að skipuleggja þessa glæsilegu og afar áhugaverðu ráðstefnu og vona að hún verði ykkur öllum gagnleg.

Samtök atvinnulífsins