Ríkið ekki trúverðugur eigandi bankanna

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið 8. nóvember eitt brýnasta hagsmunamál atvinnulífs og heimila til lengri tíma litið að eðlilegur aðgangur fáist að erlendu lánsfé á fjármagnsmörkuðum og í bönkum. Það sé ófært ef ríkið verður áfram eigandi bankanna því það hafi misst trúverðugleika gagnvart erlendum kröfuhöfum. Lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og einstökum ríkjum sé mjög mikilvægt fyrsta skref til að leysa bráðavandann núna en tryggja þurfi til lengri tíma litið að Íslendingar eigi eðlilegan aðgang að erlendum fjármagnsmarkaði. Ríkisbankaleiðin sé alger ófæra.

"Ég sé ekki að ríkið sé trúverðugur eigandi bankanna gagnvart erlendum kröfuhöfum, sem hefur verið farið svona með. Besta leiðin til að semja frið við þá, er að þeir fái bankana afhenta, eins og myndi gerast í venjulegu þrotabúi, þar sem kröfuhafar taka það yfir. Menn þurfa að snúa algerlega við blaðinu varðandi hugmyndir um eignarhald ríkisins á bönkunum," segir Vilhjálmur.

Í umfjöllun blaðsins segir ennfremur:

"Frá því að þessi ósköp byrjuðu hefur ríkið haft forystu um að leysa þessi mál og leynt og ljóst á kostnað erlendra kröfuhafa í bönkunum. Hefur verið talið nauðsynlegt að slá skjaldborg utan um aðra hagsmuni á kostnað þessara hagsmuna. Ég er ekki sérstaklega að gagnrýna það í sjálfu sér en það þýðir að ríkið verður á sama tíma algerlega ótrúverðugur eigandi bankanna. Ríkið getur ekki á sama tíma og það er að ganga svona á hagsmuni erlendra kröfuhafa bankanna, komið fram sem trúverðugur eigandi þessara banka og ætlað svo síðar meir að hefja eðlileg viðskipti við þessa aðila. Þó ríkið sé trúverðugur eigandi bankanna inn á við, þá er það alls ekki trúverðugur eigandi bankanna gagnvart þeim aðilum sem munu síðar þurfa að endurfjármagna lán og lána heimilum og fyrirtækjum eftir þessa uppstokkun," segir hann.

Vilhjálmur bendir á að mjög há erlend lán hvíli á fyrirtækjum og heimilum sem þurfi að sjálfsögðu að greiða til baka. Ef ekki fáist ný lán hjá erlendum fjármálastofnunum þá hafi það óhjákvæmilega í för með sér risagjaldþrot heimila og fyrirtækja.

,,Það þarf að fá þessa erlendu kröfuhafa til þess að eiga bankana að meira eða minna leyti og fá þá til þess að sinna þessu lánasafni," segir Vilhjálmur og bætir við að fyrsta skrefið sé að tala við þá. Það þýði ekki að umgangast þá með þeim hætti að ekki sé svarað í síma og engin samtöl eigi sér stað við þá hjá opinberum stofnunum.

Allt of áhættusamt að ríkið sé milliliður um lánaviðskiptin

"Til lengri tíma litið þá verðum við að eiga eðlileg fjármagnsviðskipti við útlönd og erlenda banka. Það þarf að ræða málin á þeim forsendum og það er allt of áhættusamt að ríkið komi fram sem þessi aðili vegna þess að ríkið hefur gengið þannig fram í samskiptum við þessa kröfuhafa.

Best væri að fá þá í einhverju formi til þess að stunda hérna þessi lánsviðskipti beint við fyrirtækin og heimilin í stað þess að hafa ríkið sem millilið," segir Vilhjálmur. "Þetta er stóra málið sem er að renna upp fyrir mönnum núna," segir hann.

Sjá einnig:

Frétt RÚV 8. nóvember um sama mál - hljóðskrá

Rætt við Vilhjálm Egilsson og Ásmund Stefánsson, nýjan formann bankastjórnar Landsbankans