Réttmæt ábending SA, skoðist í víðara samhengi

"Eitt af því sem Samtök atvinnulífsins bentu á í skýrslu á sínum tíma var að skoða þyrfti betur tengsl, annars vegar stjórnsýslusekta og hins vegar refsiviðurlaga í samkeppnislögum," segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, í samtali við Fréttablaðið um stöðu rannsóknar á meintu samráði olíufélaganna.

Ari segir að honum finnist réttmæti þessarar ábendingar orðið skýrt en að þetta þurfi líka að skoða í víðara samhengi, þ.e. tengsl viðurlaga og rannsóknar Samkeppnisstofnunar og almennra refsivörsluaðila í þjóðfélaginu, þ.e. lögreglu og ríkissaksóknara. "Maður hlýtur að búast við því í framhaldi af þessari umræðu að það verði skoðað vel hvort ekki þurfi að leggja drög að skilvirkari samskiptum þarna á milli með lagabreytingum. Ekki er heppilegt að hræra í málum á fleiri en einum stað á sama tíma þannig að óljóst sé hver er að skoða hvað, eins og ríkissaksóknari hefur vakið athygli á. Þá hefur forstöðumaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra bent á að það myndi stangast á við mannréttindaákvæði ef viðurlög yrðu ákveðin á tveimur stöðum fyrir sama brot."