04. desember 2023

Réttlát græn umskipti á vinnumarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Réttlát græn umskipti á vinnumarkaði

Norrænir fulltrúar og aðilar vinnumarkaðarins komu saman

Græn umskipti á vinnumarkaði voru til umfjöllunar í fjölmennu þríhliða samtali sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið stóð fyrir í Hörpu 1. desember síðastliðinn. Ráðstefnan bar yfirskriftina Green Transition on the Nordic Labor Market: A Tripartite Dialogue. Samtalið fór fram undir formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og til grundvallar því lá viljayfirlýsingin Reykjavik Memorandum of Understanding . Í henni er lögð áhersla á mikilvægi þess að horfa til tækifæra og áskorana grænna umskipta til að tryggja að þau verði réttlát og treysti hin sameiginlegu gildi á norrænum vinnumarkaði.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra bauð til fundarins þar sem um 200 norrænir fulltrúar stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins mættu til að ræða mikilvæg skref til að tryggja græn umskipti á vinnumarkaði.

Atvinnulíf, verkalýðshreyfing og stjórnvöld átt gott samstarf

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA tók þátt í pallborðsumræðum á fundinum og dró saman þrjú áherslumál af hálfu íslensks atvinnulífs í tengslum við réttlát umskipti:

“Við þurfum fyrst og fremst að standa vörð um og vinna að efnahagslegum stöðugleika. Þá þarf að greina rauðu ljósin á veginum í átt að kolefnishlutleysi Íslands en þau birtast í orkuframleiðslu og aðgengi að orku, regluverki, grænum fjárhagslegum hvötum og innviðauppbyggingu. Loftslagsvegvísar atvinnulífsins hafa að geyma 332 tillögur að aðgerðum sem stjórnvöld fengu afhentar á vormánuðum. Fyrirtækin leiða þar sannarlega vagninn og fara jafnan lengra en lagabókstafurinn segir. Í tillögunum má t.d. sjá mikla grósku og nýja hugsun í rótgrónum greinum. Að síðustu biðlum við til allra að vinna að því með okkur að styrkja mannauðinn okkar og setja aukinn kraft í menntun við hæfi sem og erlent vinnuafl."

Þá nefndi Sigríður Margrét góða reynslu af samstarfi við stjórnvöld og verkalýðshreyfinguna í samfélagslega mikilvægum málefnum. Þar nefndi hún sérstaklega lífeyriskerfið sem sett var á í núverandi mynd fyrir 50 árum, og er í dag á við tvöfalda landsframleiðslu Íslands. Ekki megi gleyma því að fátækt hefur einnig dregist saman og farið úr 17% í 7% á síðustu 20 árum.

,, Stofnun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í kjarasamningunum 2002 var einnig mikilvægt verkefni og hefur reynst mikilvægt hreyfiafl í því að greina, meta og auka hæfni fólks á vinnumarkaði.”

Stofnun Verzlunarskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík væri annað gott dæmi um samstarf hagsmunasamtaka atvinnulífs og stjórnvalda þar sem metið var að raunverulegt framboð á menntun þyrfti til að mæta þörf á vinnumarkaði.

Sólrún Kristjánsdóttir, framkvæmdastýra Veitna, tók einnig þátt í fundinum með erindi og þátttöku í pallborðsumræðum:

,,Umræða um réttlát græn umskipti má ekki snúast um að verja óbreytt ástand eða hindra framförum. Umskiptin sem standa nú yfir hafa bæði áhrif á fyrirtæki og launafólk. Ef fyrirtæki taka ekki þátt í grænum umskiptum þá skaðar það samkeppnishæfni þeirra og þau hellast úr lestinni. Sama gildir um starfsfólk fyrirtækja, valdefla þarf starfsfólk með því að veita þeim upplýsingar um þá þróun sem á sér stað innan fyrirtækisins svo starfsfólk geti sótt sér rétta hæfni í samstarfi við sinn atvinnurekanda en við getum ekki náð auknum árangri í loftslagsaðgerðum án þess að taka höndum saman."

Ný skýrsla um áhrif grænna og réttlátra umskipta

Til grundvallar umræðunum í Hörpu var ný skýrsla frá norrænu rannsóknarstofnuninni Nordregio. Þar er fjallað um áhrif grænna og réttlátra umskipta, auk þess sem tekin eru saman raundæmi frá ríkjunum um það á hvaða vettvangi hægt sé að ná sameiginlegum, þríhliða árangri við hin grænu umskipti.

Í aðdraganda ráðstefnunnar fór fram árlegur fundur norrænu vinnumarkaðsráðherranna. Efni fundarins var ný framkvæmdaáætlun fyrir árin 2025-2030 í norrænu samstarfi á sviði vinnumála og stýrði Guðmundur Ingi fundinum. Ráðherrarnir tóku síðan þátt í ráðstefnunni 1. desember sem ætlað er að vera mikilvægt innlegg inn í nýja framkvæmdaáætlun, í samræmi við norrænu framtíðarsýnina til ársins 2030.

Samtök atvinnulífsins