Rétti tíminn til að lækka skatta á atvinnulífið

„Hagkerfið er að breyta um takt eftir mikinn efnahagsuppgang og hagvöxt síðustu ára,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið í dag en hann segir skýr merki þess í nýju fjárlagafrumvarpi.

Það eru kjöraðstæður til að lækka tryggingagjaldið.

„Hagvöxtur verður minni á næsta ári og fjárlögin endurspegla þann breytta veruleika. Ég sakna þess því að sjá ekki áherslur um að koma til móts við atvinnulífið, m.a. með lækkun á tryggingagjaldi,“ segir hann og bendir á að nú séu kjöraðstæður til lækkunar gjaldsins.

Halldór segir í samtali við blaðið jákvætt að greiddar séu niður skuldir hins opinbera en þær minnkað um tæpan helming frá því þær voru hvað mestar í kringum áramótin 2011-2012. Stóra málið í vetur segir Halldór þó vera kjaraviðræður ríkisins við stéttarfélög opinberra starfsmanna.

„Ég tel mikilvægt að ríkið sýni ábyrgð í fjármálastjórn og hjálpi okkur að varðveita kaupmáttaraukningu síðustu ára,“ segir hann og vísar þar til komandi kjaraviðræðna.

Einnig var rætt við Halldór Benjamín í kvöldfréttum RÚV 12. september. Hægt er að horfa á fréttina hér að neðan en þar sagði Halldór m.a. mikilvægt að stuðla að stöðugleika auk þess að standa vörð um kaupmáttinn.

Framkvæmdastjóri SA gagnrýnir skattahækkanir í nýju fjárlagafrumvarpi þar sem það er að hægja á hagkerfinu. „Núna er rétti tíminn til að spila út skattalækkunum til atvinnulífsins sem sannarlega hefur þurft að þola sterkt raungengi svo dæmi sé nefnt.“

Sjá nánar:

Horfa á frétt RÚV 12. september 2017

Tengt efni:

Frumvarp til fjárlaga 2018