Fréttir - 

12. Maí 2015

Rétti tíminn til að afnema höft er núna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Rétti tíminn til að afnema höft er núna

Fá verkefni eru mikilvægari í íslensku efnahagslífi en afnám gjaldeyrishafta og rétti tíminn er núna. Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, við upphaf opins umræðufundar SA um afnám hafta sem fram fór í morgun undir yfirskriftinni Rjúfum Íslandsmúrinn.

Fá verkefni eru mikilvægari í íslensku efnahagslífi en afnám gjaldeyrishafta og rétti tíminn er núna. Þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA, við upphaf opins umræðufundar SA um afnám hafta sem fram fór í morgun undir yfirskriftinni Rjúfum Íslandsmúrinn.  

Þorsteinn sagði fórnarkostnaðinn við höftin mikinn en ósýnilegan. Tækifæri tapist, ný fyrirtæki verði ekki til  og vöxtur sem geti skilað þjóðarbúinu miklum verðmætum verði ekki að veruleika. Farsælt afnám hafta er nátengt skynsamlegri niðurstöðu í kjaraviðræðum á almennum og opinberum vinnumarkaði. Þorsteinn sagði kjöraðstæður til að hefja losun hafta og mikilvægt að kjarasamningarnir raski ekki jafnvæginu sem hefur náðst í efnahagslífinu. Það sé óþolandi rekstrarumhverfi fyrir atvinnulífið að búa við gjaldeyrishöft.

undefined

Frummælendur á fundinum voru Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA,  Heiðar Guðjónsson, hagfræðingur og fjárfestir, Ásgeir Jónsson, dósent við Háskóla Íslands og Jón Daníelsson, prófessor við London School of Economics. Glærukynningar þeirra ásamt stuttri samantekt er nú aðgengileg á vef SA. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA stýrði fundinum en ekki voru allir á eitt sáttir um að hægt væri að afnema höftin skjótt.

Allar aðstæður fyrir hendi

undefinedÁsdís Kristjánsdóttir sagði í erindi sínu að sex ár hafi farið í undirbúning afnáms hafta og nú sé kominn tími til að láta slag standa. „Stöðugleiki ríkir í efnahagslífinu, verðbólga er lág, ríkisfjármál í jafnvægi og afgangur af viðskiptum við útlönd. Efnahagshorfur eru  góðar og spár  gera ráð fyrir myndarlegum hagvexti á komandi árum.“

Ásdís sagði bankakerfið standa styrkum fótum og staða einkageirans færi einnig batnandi ásamt því sem hlutfall skulda heimila og fyrirtækja hafi lækkað og sé svipað og það var árið 2004. Erlendir lánamarkaðir hafi opnast og gjaldeyrisforðinn þanist út og vaxtamunur við útlönd mikill. „Að öðru óbreyttu mun gjaldeyrisforðinn fljótlega duga til að mæta öllum erlendum skammtímaskuldum þjóðarbúsins að viðbættum aflandskrónum.“

Ásdís benti jafnframt á að vextir á Íslandi væru háir í alþjóðlegum samanburði og því allt eins líklegt að við losun hafta muni mæta Íslendingum gjaldeyrisinnflæði frekar en flótti frá krónunni.

Glærur Ásdísar

Efasemdir um að tíminn sé runninn upp

undefined

Heiðar Guðjónsson var ekki eins sannfærður um að tímabært sé að aflétta höftunum og sagði margar hættur blasa við. Tvennt hindri afnám hafta í dag, það vanti trúverðuga peningastefnu á Íslandi og gera þurfi upp slitabú föllnu bankanna áður en hægt verður af afnema höftin.

Heiðar sagði það skipta höfuðmáli að menn viti hvað taki við þegar höftunum verður létt, krónan hafi tekið kollsteypur í gegnum tíðina og það geti gerst eina ferðina enn. Það er mat Heiðars að hægt verði að afnema höft eftir tvö ár í fyrsta lagi, setja verði slitabú bankanna í þrot þannig að að íslenskir kröfuhafar fái greitt en erlendir aðilar sitji fastir. Höftum verði svo aflétt í einu lagi fyrir alla. Forðast verði að aflétta þeim skref fyrir skref því það muni mismuna aðilum, t.d. íslenskum lífeyrissjóðum sem muni verða aftarlega í röðinni. Erlendir kröfuhafar megi ekki fara úr landi með fjármagn sitt fyrr en trúverðug peningastefna verði til staðar.

Glærur Heiðars

Að endurheimta frelsið
undefined

Ásgeir Jónsson, fjallaði um leiðir til að endurheimta frelsið en hann sagði fimm þröskulda vera á leiðinni áður en það næst. Stórar krónufjárhæðir væru í eigu erlendra aðila, mikil uppsöfnuð þörf væri fyrir erlendar eignir í eignasöfnum, losun hafta sé aftast í röðinni hjá stjórnmálamönnum og hagsmunaaðilum, engin áætlun um losun hafta hafi enn komið fram og Íslendingar geri meiri kröfur til krónunnar heldur en hún geti uppfyllt – nema þá aðeins bundin í höftum.

Þá sagði Ásgeir að landsmenn virðist ekki tengja saman góð lífskjör og stöðugleika við framleiðni og skynsama hagstjórn – það gerir þeim mjög erfitt fyrir að lifa við opinn, alþjóðlegan fjármagnsmarkað.

Ásgeir sagði peninga streyma inn í haftahagkerfið og það sé ákveðið traustmerki en ferðaþjónustan dragi vagninn. Ekkert hafi breyst í hagkerfinu eftir hrun að því undanskildu að fjöldi erlendra ferðamanna hafi vaxið mikið og sú fjölgun dragi áfram alla markaði á Íslandi.

Ásgeir sagði Íslendinga verða að svara því hvað þeir vilji. Höftin gæði krónuna öryggi stórgjaldmiðils þannig að venjulegt fólk geti sinnt sínum málum án þess að vera ofurselt gengisáhættu. Íslendingar verði líka að horfast í augu við það að með lítinn frjálsan gjaldmiðill er ekki hægt að lofa stöðugleika, öruggum kaupmætti, lágri verðbólgu og stöðugri greiðslubyrði. Helsta hættan væri að nýtt Ísland byggist upp á þeim falska stöðugleika og öryggi sem fjármagnshöftin veiti. „Þegar til kastanna kemur vilja Íslendingar ekki stíga upp úr hægindastólnum,“ sagði Ásgeir og benti á að það tók 62 ár afnema fjármagnshöftin sem voru upphaflega sett 1931.

Glærur Ásgeirs

Stærstu mistökin

undefined

Jón Daníelsson sagði það hafa verið stærstu mistök Íslendinga í kjölfar hrunsins að setja á gjaldeyrishöft og jafnframt stór mistök að hafa ekki afnumið þau, nú þegar. Það sé hægt að afnema höftin hratt og það sé ekki flókið verkefni. Hægt sé að afnema gjaldeyrishöft á nokkrum mánuðum og meiri líkur séu á að krónan styrkist við afnám frekar en að gengi hennar falli verulega eins og margir óttast.

Jón sagði að undirbúa þyrfti afnám hafta vel en ekki mætti treysta alþjóðastofnunum eða innlendum embættismönnum fyrir því verkefni. Ráða þurfi rétta ráðgjafa til verksins og passa að þeir teygi ekki um of á því.

Að lokum áréttaði Jón að höftin eru mjög skaðleg og kostnaður vegna þeirra fari vaxandi eftir því sem þau eru lengur við lýði. Margir hafi hag af því að viðhalda þeim og ekki eigi að bíða eftir réttum tíma. „Hægt er að afleggja þau hvenær sem er og mjög hratt.“

Glærur Jóns

Tengt efni:

Viðtal við Ásdísi Kristjánsdóttur í Morgunútgáfunni á RÚV

Frétt mbl.is: „Ísland er þorpsfíflið“

Frétt mbl.is: Krónan eins og kröfulitlir foreldrar

Frétt RÚV: Rætt við Heiðar Guðjónsson og Jón Daníelsson

Samtök atvinnulífsins