Vinnumarkaður - 

03. maí 2001

Réttarstaða fjarvinnufólks og vinnuveitenda

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Réttarstaða fjarvinnufólks og vinnuveitenda

Á ráðstefnu IMG og Landssímans um fjarvinnu og lífsgæði fjallaði Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur SA, um réttarstöðu fjarvinnufólks og vinnuveitenda. Í máli hennar kom fram að almennt giltu sömu reglur um starfskjör fjarvinnslufólks og annarra launþega. Að ýmsu þyrfti þó að huga og þannig leiddi t.d. af eðli máls að skyldur vinnuveitenda gætu aldrei orðið fyllilega þær sömu hvað varðar vinnuumhverfi viðkomandi starfsmanna, og þegar vinna væri framkvæmd á starfsstöð fyrirtækisins.

Á ráðstefnu IMG og Landssímans um fjarvinnu og lífsgæði fjallaði Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur SA, um réttarstöðu fjarvinnufólks og vinnuveitenda. Í máli hennar kom fram að almennt giltu sömu reglur um starfskjör fjarvinnslufólks og annarra launþega. Að ýmsu þyrfti þó að huga og þannig leiddi t.d. af eðli máls að skyldur vinnuveitenda gætu aldrei orðið fyllilega þær sömu hvað varðar vinnuumhverfi viðkomandi starfsmanna, og þegar vinna væri framkvæmd á starfsstöð fyrirtækisins.

Í máli Hrafnhildar koma fram að fjarvinna á tölvu færi vaxandi. Oftast ynni starfsmaður þó aðeins hluta vinnu sinnar heima hjá sér. Helstu kostirnir væru að vinnufyrirkomulag yrði sveigjanlegra og auðveldara fyrir starfsmenn að samræma atvinnu og fjölskyldulíf.  Þá skapaði fjarvinna einnig nýja möguleika til atvinnusköpunar utan þéttbýlis. Það væru hins vegar ýmis atriði varðandi réttarstöðu fjarvinnufólks og vinnuveitanda sem þyrfti að huga að þegar vinnustaðurinn væri fluttur heim til starfsmanns, en almennt giltu sömu reglur um starfskjör fjarvinnslufólks og annarra launþega. 

Þótt vinnuveitandi sé samkvæmt lögum ábyrgur fyrir vinnuumhverfi starfsmanna leiðir af eðli máls að skyldur hans geta aldrei orðið fyllilega þær sömu og þegar vinna er framkvæmd á starfsstöð fyrirtækisins, sagði Hrafnhildur.  Þegar starfsmenn ráða vinnutíma sínum sjálfir er heldur ekki mögulegt að beita reglum um vinnu- og hvíldartíma.  Slíkir starfsmenn eru líka undanþegnir ákvæðum vinnutímasamninga um ellefu tíma samfellda hvíld á sólarhring. Það er hins vegar rétt að taka þessi atriði og fleiri í ráðningarsamning starfsmanns við upptöku fjarvinnslu.  Það á m.a. við um launafyrirkomulag sem trauðla verður byggt á tímaskrift, kostnað vegna fjarvinnslunnar, tölvubúnað, skilmála varðandi aðgengi að gögnum og meðferð þeirra þannig að fyllsta trúnaðar og öryggis sé gætt, sagði Hrafnhildur.

Þá greindi hún frá því að málefni fjarvinnufólks eru einnig til umræðu á vettvangi ESB.  Framkvæmdastjórnin hefur lýst fyrirætlunum um setningu Evrópureglna og átt lögboðið samráð við aðila vinnumarkaðarins með tilliti til hugsanlegra Evrópusamninga þeirra á milli.  UNICE, Samtök evrópskra atvinnurekenda sem SA og SI eiga aðild að, hafa þegar lýst vilja til að ganga til samninga um leiðbeiningarreglur um fjarvinnu.  Hvað varðar einstakar starfsgreinar hafa fjarskiptageirinn og verslunin samið um viðmiðunarreglur varðandi fjarvinnu, og hefur SVÞ komið að því starfi í gegnum aðild sína að Eurocommerce.  Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir að starfsmaður eigi val um það hvort hann vinnur heima, gæta skal jafnréttis gagnvart fjarvinnufólki samanborið við aðra starfsmenn og að það verði áfram launþegar.  Vinnuveitandi greiði kostnað eða láti í té nauðsynlegan búnað og gætt sé að vinnuvernd.  Þá er lögð áhersla á að fjarvinnufólk einangrist ekki og eigi möguleika á því að halda sambandi við aðra starfsmenn. 

Að lokum sagði Hrafnhildur fjarvinnumöguleika stjórnenda og sérfræðinga almennt ekki kalla á sérstök vandamál varðandi ráðningarkjör. Ef starfsfólk væri á kjarasamningi með tímaskrift þyrfti hins vegar að skoða vinnutíma- og launafyrirkomulag. Þá þyrfti alltaf að huga að aðgengi að gögnum og öryggi, kostnaðarskiptingu og að því að finna sveigjanlega og góða lausn fyrir báða aðila.

Samtök atvinnulífsins