Covid-19 - 

23. Apríl 2020

Rekstur án tekna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Rekstur án tekna

Er hægt að reka fyrirtæki án tekna? Svarið er einfalt, nei. Hvað er þá til ráða fyrir fyrirtæki sem standa frammi fyrir tekjumissi, að hluta eða öllu leyti? Enginn rekstur var búinn undir það gríðarlega áfall sem nú blasir við mörgum. Fyrirtæki með sterkan rekstrargrunn eru þó betur í stakk búin til að takast á við rekstrarvanda og eiga því hægara um vik að grípa tækifæri til að tryggja framtíð rekstrarins.

Er hægt að reka fyrirtæki án tekna? Svarið er einfalt, nei. Hvað er þá til ráða fyrir fyrirtæki sem standa frammi fyrir tekjumissi, að hluta eða öllu leyti? Enginn rekstur var búinn undir það gríðarlega áfall sem nú blasir við mörgum. Fyrirtæki með sterkan rekstrargrunn eru þó betur í stakk búin til að takast á við rekstrarvanda og eiga því hægara um vik að grípa tækifæri til að tryggja framtíð rekstrarins. 

Nú eru flest fyrirtæki búin að takmarka tjón sitt eins og hægt er með því að nýta sér úrræði stjórnvalda, hafi þau á annað borð verið nauðsynleg til að vernda starfsfólk og tryggja áframhaldandi rekstur. Þau úrræði gagnast þó bara tímabundið. Nauðsynlegt er að hefja strax greiningu á rekstrinum, stöðu hans og möguleikum. 

Fara þarf yfir lykilþætti í rekstrinum og greina styrkleikana og veikleikana almennt. Í ljósi útkomunnar er hægt að byggja réttar ákvarðanir um framhaldið. Í mörgum tilvikum má bæta veikan rekstrargrunn fljótt og örugglega og gera fyrirtækið þannig lífvænlegra.

Lausnin er til

Fyrirtæki með sterkan og heilbrigðan rekstur og þau sem vinna markvisst að því að skjóta styrkari stoðum undir reksturinn eiga bjarta framtíð ef þau vaka yfir tækifærum og leggja nýjar áherslur í samræmi við þau. Öll aðstoð til þeirra er hagkvæm fyrir atvinnulífið og samfélagið í heild. 

Aðstoð ein og sér dugar ekki. Fyrirtækin verða sjálf að finna lausn fyrir sinn rekstur. Nauðsynlegt er að hugsa út fyrir kassann, nú sem aldrei fyrr, og aðlaga viðskiptamódel sitt að breyttum heimi og finna nýjar leiðir til tekjuöflunar. Við greiningu á rekstrargrunni verða oftar en ekki til hugmyndir og ný tækifæri. Þó að slík vinna sé ávallt mikilvæg er hún beinlínis bráðnauðsynleg núna ef vel á að takast. 

Hvernig geta ferðaþjónustufyrirtæki starfað þar til ferðamenn fara að streyma aftur til landsins? Hvernig geta verslanir selt vörur sínar án heimsókna viðskiptavina? Það er rekstraraðilanna að finna lausnina með góðri aðstoð stjórnvalda og hagsmunasamtaka sem eru nú nótt sem dag að berjast fyrir betri framtíð fyrirtækja og þar með samfélagsins í heild. 

Án fyrirtækja er litla atvinnu að fá. Leggjumst á eitt, hugsum í lausnum en ekki vandamálum og finnum leiðina til bjartrar framtíðar!   

Vegna þeirra efnahagslegu áskorana sem viðskiptalífið stendur nú frammi fyrir býður Litla Ísland upp á tímabundna rekstraráðgjöf til félagsmanna. Hér er hægt að bóka tíma: https://litlaisland.is/rekstrarvidtal/

Ingibjörg Björnsdóttir, lögmaður og rekstrarsérfræðingur Litla Íslands

Samtök atvinnulífsins