21. október 2022

Raunverulegur árangur í loftslagsmálum

Umhverfismál

Sjálfbærni

Umhverfismál

Sjálfbærni

Halldór Benjamín Þorbergsson

1 MIN

Raunverulegur árangur í loftslagsmálum

Stærstu áskoranir heimsins verða ekki leystar í nefndum, spretthópum og ráðum.

Starfsemi allra fyrirtækja hefur áhrif á umhverfið. Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök þeirra hafa um árabil hvatt fyrirtæki til þess að lágmarka þau áhrif. Sjálfbær nýting auðlinda er lykillinn að farsælum rekstri á mörgum sviðum og fyrirtæki leggja sífellt meiri áherslu á umhverfismál. Samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda, betri nýting aðfanga og átak til að draga úr myndun úrgangs skiptir miklu fyrir umhverfið og okkur öll, en dregur auk þess úr kostnaði og stuðlar að góðri afkomu.

Mikilvægt er að fyrirtæki sem starfa í greinum sem hafa mikil áhrif á umhverfið láti ekki sitt eftir liggja og ekki er síður mikilvægt að til þeirra sé horft þegar verðlauna á góðan árangur í umhverfis- og loftslagsmálum. Stærstu áskoranir heimsins verða ekki leystar í nefndum, spretthópum og ráðum á vegum hins opinbera heldur með nýsköpun, fjárfestingu, þróun og hugkvæmni sem verður til í atvinnulífinu. Og raunverulegum árangri verður ekki náð nema fyrirtæki í öllum greinum atvinnulífsins taki virkan þátt í sameiginlegu verkefni okkar allra að minnka losun og áhrif á umhverfið. Atvinnulífið er lykillinn að lausn vandans.

Það er á þessum grunni sem Umhverfisverðlaun atvinnulífsins eru veitt fyrirtækjum sem hafa skarað fram úr í umhverfismálum, hafa m.a. innleitt umhverfisstjórnunarkerfi og ganga lengra en lög og reglur segja til um til að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið.

Umhverfisfyrirtæki ársins

Norðurál var valið umhverfisfyrirtæki ársins 2022 hjá Samtökum atvinnulífsins. Í umsögn sjálfstæðrar valnefndar umhverfisverðlaunanna kemur m.a. fram að álið sem er framleitt í álveri Norðuráls á Grundartanga hafi eitt lægsta kolefnisspor sem völ er á í heiminum. Það skiptir máli. Til að setja þá staðreynd í samhengi má benda á að ef öll álver í heiminum framleiddu ál með sama hætti og Norðurál myndi losun CO2 á heimsvísu minnka um 550 milljón tonn á ári. Til samanburðar nemur heildarlosun Íslands um 4,5 milljónum tonna árlega.

Heildarlosun vegna framleiðslu Norðuráls er innan við fjórðungur af meðallosun álframleiðslu í heiminum. Einnig kemur fram að markmið fyrirtækisins eru bæði skýr og aðgengileg. Aðgerðaáætlun Norðuráls í loftslagsmálum samanstendur af tíu vel skilgreindum aðgerðum sem er ætlað að vera leiðarvísir fyrirtækisins að settu marki. Mælikvarðarnir eru settir fram á einfaldan og auðskilinn hátt á heimasíðu Norðuráls.

Norðurál hefur látið framkvæma ítarlega vistferilsgreiningu á því áli sem fyrirtækið framleiðir. Greiningin miðast við vistferil álsins frá vöggu að hliði (e. cradle-to-gate) þar sem tekið er tillit til framleiðslu og flutnings allra hráefna, staðbundinnar losunar mengandi efna og myndunar úrgangs. Umhverfisáhrif allra hlekkja í framleiðslukeðjunni voru metin, skrásett og rýnd með það að markmiði að draga úr áhrifum starfseminnar á umhverfið. Þrátt fyrir að kolefnisspor áls frá Norðuráli sé með því lægsta sem gerist í heiminum er framleiðslan ekki kolefnishlutlaus, enda verður ekki lengra komist með núverandi framleiðslutækni. Markmið Norðuráls er eigi að síður að ná fullu kolefnishlutleysi og því til marks er fyrirtækið þátttakandi í þróunar- og nýsköpunarverkefnum sem miða að því að þróa tæknilegar lausnir sem gera það mögulegt.

Markmið og árangur Norðuráls eru eftirtektarverð og öðrum til eftirbreytni og því var Norðurál valið umhverfisfyrirtæki ársins hjá Samtökum atvinnulífsins. Við eigum að hampa því sem vel er gert.

Umhverfis- og loftslagsmál eru ekki einkamál Íslands

Það liggur fyrir að orkuskipti eru stærsta verkefnið á sviði loftslagsmála í heiminum. Leiðin að því marki felst meðal annars í því að staðsetja orkusækinn iðnað nálægt endurnýjanlegum orkugjöfum, eins og tilfellið er á Íslandi. Það væri stórt skref aftur á bak að úthýsa slíkum fyrirtækjum frá Íslandi til landa þar sem orkan er sótt í kol eða olíu. Þó að það myndi ef til vill minnka kolefnisfótspor Íslands, þá myndi loftslagsvandinn dýpka á heimsvísu. Loftslagsmál eru nefnilega ekki staðbundin heldur hnattræn og þannig ber að takast á við loftslagsvandann.

Í samstarfsyfirlýsingu stjórnvalda og orkusækins iðnaðar sem undirrituð var árið 2019 var kveðið á um að leitað yrði leiða til að ná kolefnishlutleysi árið 2040. Þá er í undirbúningi atvinnugreinaskipt nálgun á loftslagsmálin svo hægt sé að greina hvað skilar mestum árangri í samdrætti miðað við kostnað og tækniþroska. Í kjölfarið er hægt að taka gagnadrifnar ákvarðanir og verja fjármagni í verkefni sem atvinnulífið þróar og draga mest úr losun. Þetta er leiðin sem vörðuð hefur verið af atvinnulífi og stjórnvöldum og þetta er leiðin sem er líklegust til að skila árangri – ekki aðeins hér á landi heldur á hnattræna vísu.

Halldór Benjamín Þorbergsson

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins