Efnahagsmál - 

06. Júlí 2006

Raunverulegt tækifæri til að ná niður verðbólgu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Raunverulegt tækifæri til að ná niður verðbólgu

Samkomulagi Samtaka atvinnulífsins og viðsemjenda þeirra þann 22. júní sl. hefur almennt verið vel tekið. Með því er vissulega tekin áhætta af hálfu atvinnulífsins en hún er vel þess virði í ljósi þeirra nýju möguleika sem gefast á því að hreinsa verðbólguna út úr hagkerfinu á næsta ári. Að undanförnu hafa flestir helstu álitsgjafar í efnahagsmálum tjáð sig um þessa aðgerð og meginlínan í þeim skoðunum sem settar hafa verið fram er sú að verðbólgan verði eitthvað meiri á árinu 2006 en að hún geti farið lækkandi á árinu 2007.

Samkomulagi Samtaka atvinnulífsins og viðsemjenda þeirra þann 22. júní sl. hefur almennt verið vel tekið. Með því er vissulega tekin áhætta af hálfu atvinnulífsins en hún er vel þess virði í ljósi þeirra nýju möguleika sem gefast á því að hreinsa verðbólguna út úr hagkerfinu á næsta ári. Að undanförnu hafa flestir helstu álitsgjafar í efnahagsmálum tjáð sig um þessa aðgerð og meginlínan í þeim skoðunum sem settar hafa verið fram er sú að verðbólgan verði eitthvað meiri á árinu 2006 en að hún geti farið lækkandi á árinu 2007.

Margir kalla eftir ábyrgð ríkisins og algeng athugasemd er að ríkið sé að gera of lítið of seint. Þó hefur ríkið þegar tilkynnt frestun framkvæmda sem ekki eru komnar í útboð og tekið á málefnum Íbúðalánasjóðs sem snúa að hlutverki hans í hagstjórninni. Eftir er að útfæra þátt sveitarfélaganna í hagstjórn, en það á eftir að koma í ljós hvort ríkið muni beita sér fyrir umbótum á því sviði.

Fasteignamarkaðurinn stærsta málið

Það sem hefur mesta þýðingu fyrir aðkomu ríkisins að því að ná verðbólgunni niður er hvernig til tekst með Íbúðalánasjóð og fasteignamarkaðinn. Hin óeðlilega uppsveifla á þessum markaði, þar sem íbúðaverð er komið langt umfram framleiðslukostnað, átti stóran þátt í að magna upp verðbólguna, bæði beint með vísitöluáhrifum og óbeint með því að stuðla að aukinni einkaneyslu. Því er nauðsynlegt að íbúðamarkaðurinn róist og verðhækkanir stöðvist án kollsteypu. Þannig getur þróunin á þessum markaði orðið jákvætt innlegg í lækkun verðbólgunnar.

Almennur vinnumarkaður marki launastefnuna

Að öðru leyti verður meginverkefni ríkisins að leggja fram trúðverðugt fjárlagafrumvarp þar sem tekið er á öllum þáttum, ekki bara frestun framkvæmda. Það verður ekki auðvelt verk þar sem hægagangurinn sem fyrirséður er í efnahagslífinu skilar ríkissjóði minni tekjum en ella meðan útgjaldakröfurnar eru takmarkalausar. Á útgjaldahlið ríkisins skiptir mestu máli að launaþróunin verði í samræmi við það umhverfi sem samkomulag SA og verkalýðshreyfingarinnar hefur skapað. Þar liggja stóru útgjaldatölurnar hjá ríkinu og þar liggja stóru áhrifaþættirnir á þróun verðbólgunnar á næsta ári. Opinberir aðilar mega ekki hefja nýjan misvægishring í launatöxtum.

Segja má að boltinn varðandi verðbólguna á næsta ári hafi verið hjá SA og verkalýðshreyfingunni. Með samkomulaginu 22. júní var boltinn sendur til ríkisins en brautin jafnframt rudd út árið 2007. Öll skilyrði eiga að vera fyrir hendi að það takist að kveða verðbólguna niður á næsta ári. Ríkisstjórnin hefur ekki skorast undan sinni ábyrgð, þvert á móti. Stjórnarandstaðan hefur líka tekið undir nauðsyn þess að ná verðbólgunni niður. Það er því raunverulegt tækifæri til staðar að ná á ný efnahagslegum stöðugleika og jafnvægi í hagkerfinu. Það tækifæri verður að nýta.

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins