Efnahagsmál - 

11. september 2008

Raunhæfar væntingar um stöðugleika og hagvöxt

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Raunhæfar væntingar um stöðugleika og hagvöxt

Samtök atvinnulífsins hafa að undanförnu átt viðræður við Alþýðusambandið, landssambönd þess og stærstu félög vegna stöðu kjarasamninganna sem gerðir voru 17. febrúar sl. Forsendur þeirra samninga voru m.a. að kaupmáttur lækkaði ekki og að verðbólga færi lækkandi. Nú er ljóst að forsendurnar eru brostnar, verðbólga mælist í tveggja stafa tölu og kaupmáttur launa hefur lækkað. Reyndar fer atvinnulífið ekki heldur varhluta af erfiðleikunum. Sem betur fer eru mörg öflug fyrirtæki í íslensku atvinnulífi líkleg til að komast í gegnum erfiða tíma án varanlegra áfalla en samkvæmt könnun SA frá því í sumar má reikna með því að 25% - 30% fyrirtækja verði í barningi sem verður sífellt þyngri eftir því sem hár fjármagnskostnaður og annað andstreymi varir lengur.

Samtök atvinnulífsins hafa að undanförnu átt viðræður við Alþýðusambandið, landssambönd þess og stærstu félög vegna stöðu kjarasamninganna sem gerðir voru 17. febrúar sl. Forsendur þeirra samninga voru m.a. að kaupmáttur lækkaði ekki og að verðbólga færi lækkandi. Nú er ljóst að forsendurnar eru brostnar, verðbólga mælist í tveggja stafa tölu og kaupmáttur launa hefur lækkað. Reyndar fer atvinnulífið ekki heldur varhluta af erfiðleikunum. Sem betur fer eru mörg öflug fyrirtæki í íslensku atvinnulífi líkleg til að komast í gegnum erfiða tíma án varanlegra áfalla en samkvæmt könnun SA frá því í sumar má reikna með því að 25% - 30% fyrirtækja verði í barningi sem verður sífellt þyngri eftir því sem hár fjármagnskostnaður og annað andstreymi varir lengur.

Forsendunefnd SA og ASÍ sem starfar samkvæmt samningunum frá 17. febrúar hefur það hlutverk að fylgjast með framvindu mála og ræða viðbrögð ef forsendur samninganna standast ekki en samningarnir eru opnanlegir frá 1. mars 2009 en gilda ella til nóvemberloka 2010. Það er gert ráð fyrir því að starf nefndarinnar sé samfellt á samningstímanum. Í raun er eðlilegt að samstarf SA og ASÍ sé mjög náið um öll atriði er varða framgang efnahags- og kjaramála og að samtökin séu sífellt að leggja mat á stöðuna og ræða hvað megi verða til að treysta stöðugleika og framfarir.

Nú þegar haustar þurfa viðræður SA við verkalýðshreyfinguna að komast á skrið. Meginviðfangsefnið vegna kjarasamningana frá 17. febrúar er að afstýra því að atvinnulífið og almenningur festist í fjötrum tveggja stafa verðbólgu og óstöðugleika. Það verður að skapa raunhæfar væntingar um stöðugleika og möguleika á hagvexti til lengri tíma. Það má ekki gerast að núverandi erfiðleikar leiði til gamaldags víxlhækkana launa og verðlags sem á sínum tíma gengu nærri bæði starfsfólki og fyrirtækjum. Framfarir verða að byggja á stöðugleika, þannig eru mestar líkur á því að árangur náist.

SA hafa verið að vinna sína heimavinnu vegna þessara viðræðna og í því ferli er velt upp margvíslegum hugmyndum sem þarf að fara í gegnum, þróa og þroska. Fjölmiðlaumfjöllum um einstök atriði er ótímabær vegna þess að viðræðurnar eru svo skammt komnar og enginn verið beðinn um að taka afstöðu til þeirra, hvorki innan SA né ASÍ og hvað þá að sameiginleg afstaða hafi verið mótuð. Það er hins vegar skylda SA og ASÍ að leita allra leiða til þess að ná efnahagslegum stöðugleika á ný og til þess þarf að fjalla um öll þau mál sem geta skipt máli.

Ef SA og ASÍ ná samstöðu innan sinna raða og milli sín um heildarsýn á aðgerðir í efnahags- og atvinnumálum og þróun kjaramála til þess að stuðla að stöðugleika á ný og hagvexti í framtíðinni þarf að hefja viðræður við ríkisstjórnina á þeim grundvelli. Ekki hefur enn reynt á það hvort nauðsynleg samstaða næst en á það verður látið reyna. Það þarf líka að hafa í huga að afstaða til einstakra mála í viðræðum af þessu tagi fer í ýmsum tilvikum eftir því hvernig þau falla inn í heildarmyndina og hvort hún skapar þær raunhæfu framtíðarvæntingar um stöðugleika og hagvöxt sem sóst er eftir.

Einhvers staðar verður að byrja svona vegferð þrátt fyrir að enginn geti séð fyrir nákvæmlega hvar og hvernig hún muni enda. Það liggur fyrir að ef ekki er að gert stefnir í tveggja stafa verðbólgutölur og óstöðugleika um fyrirsjáanlega framtíð. Þess vegna er það skylda SA að hafa frumkvæði eftir því sem nauðsyn krefur að leggja sitt af mörkum til að skapa samstöðu innan atvinnulífsins og með verkalýðshreyfingunni og leita eftir stuðningi stjórnvalda eins og með þarf.

Íslendingar hafa haft metnað til þess að vera meðal fremstu þjóða heims og talið það nauðsynlegt til þess að skapa uppvaxandi kynslóð ákjósanleg tækifæri og trygga framtíð. Ísland hefur þegar fallið um alltof mörg sæti í samanburði þjóða vegna óstöðugleika og verðbólgu. Ástandið bitnar harkalega á lífskjörum fólks og rekstrarmöguleikum fyrirtækja.

Það verður eitt af helstu og mikilvægustu viðfangsefnum SA á næstu mánuðum að sinna þessum viðræðum við ASÍ, ríkisstjórnina og aðra aðila. Árangur í þeim mun skipta miklu máli fyrir þróun atvinnulífsins og rekstrarskilyrði íslenskra fyrirtækja um langa framtíð. Þess vegna verður að velta upp og ræða öll mál sem geta orðið að gagni og reyna að ná samstöðu um aðgerðir og þróun kjaramála. Vinnan er hafin og er í réttum farvegi. Samtök atvinnulífsins munu ekki ganga frá þessari vinnu meðan nokkur von er um að árangur náist.   

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins