Efnahagsmál - 

14. maí 2002

Rauða strikið stóðst

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Rauða strikið stóðst

Fréttatilkynning Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna rauðs striks í kjarasamningi aðila í maí 2002

Fréttatilkynning Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins vegna rauðs striks í kjarasamningi aðila í maí 2002


Rauða strikið stóðst
Í dag var birt vísitala neysluverðs fyrir maímánuð og er gildi hennar 221,8.  Gildið er undir svonefndu rauðu striki kjarasamninga og hefur því verðlagsforsenda þeirra  staðist fyrir árið 2002 og kjarasamningar halda gildi sínu með þeim breytingum sem samið var um í desember.   Til að treysta stöðugleika varanlega í sessi leggja samningsaðilar  áherslu á mikilvægi áframhaldandi aðhalds að verðlagi, lækkun vaxta  og ráðdeild í fjármálum ríkis og sveitarfélaga. 

Verðbólguforsendan í kjarasamningunum
Í kjarasamningum milli Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga ASÍ,  sem flestir voru gerðir árið 2000 og renna út veturinn 2003-2004, er almennt ákvæði um verðlagsforsendur.  Efnislega fól þetta ákvæði í sér markmið um hjöðnun verðbólgu og að hún þróaðist á  svipað stig og í viðskiptalöndum okkar, en samningsgerðin vorið 2000 fór fram í skugga vaxandi verðbólgu.  Þegar á haustmánuðum 2001 varð ljóst að þessi forsenda myndi ekki standast þegar kæmi að skoðun á verðbólgu-forsendum kjarasamninga í febrúar 2002, vegna mikillar lækkunar á gengi krónunnar.  Því hófu ASÍ og SA viðræður með það að markmiði að koma í veg fyrir að há verðbólga festi sig í sessi með tilheyrandi skaða fyrir heimili og fyrirtæki.

Samningurinn 13. 12. 2001
Þann 13. desember sl. var gengið frá kjarasamningi milli ASÍ og SA, þar sem verðlagsforsendu vegna ársins 2002 var breytt á þann veg að ef vísitala neysluverðs yrði ekki hærri en 222,5 stig í maí 2002 hefði verðlagsforsenda kjarasamninga  staðist.  Að öðrum kosti væru launaliðir kjarasamninga uppsegjanlegir frá og með 1. júní. Með aðild sinni að samkomulaginu gaf ríkisstjórnin út sérstaka yfirlýsingu, þar sem kynntar voru aðgerðir til að styrkja gengi krónunnar og breytingar á tollum og innflutningshöftum á grænmeti. Kjarasamningurinn frá 13. desember, ásamt  yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, fól í sér fullnaðarmat á samningsforsendum á árinu 2002 af hálfu samningsaðila.  Vísitala neysluverðs fyrir maí felur í sér að kjarasamningar eru áfram bundnir en næsta skoðun á  forsendum þeirra mun fara fram í febrúar árið 2003.

Breytingar á efni kjarasamninga
Efnisatriði samnings aðila frá 13. desember 2001 voru eftirfarandi: 


"Viðbótarframlag í séreignarsjóð
Samkvæmt gildandi kjarasamningum er vinnuveitanda skylt frá 1. janúar 2002 að greiða 2% mótframlag í séreignarsjóð (eða eftir atvikum sameignarsjóð) gegn 2% viðbótarframlagi launamanns.  Samkomulag er um breytingar á þessu ákvæði þannig að frá og með 1. júlí 2002 munu vinnuveitendur greiða 1% framlag í séreignarsjóð  launamanns án framlags af hálfu launamanns.  Áfram gildir reglan um 2% mótframlag gegn 2% viðbótarsparnaði launamanns og leiðir þessi viðbót ekki til hækkunar á því.  Framangreind breyting gildir þó ekki í þeim tilvikum þar sem lög- og samningsbundin lífeyrisframlög vinnuveitanda eru samtals 7% eða hærri.   Framlag þetta greiðist til séreignardeildar þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi launamaður á aðild að, nema launamaður ákveði annað.

Almenn launahækkun 1. janúar 2003
Samkomulag er um að almenn launahækkun þann 1. janúar árið 2003 verði 0,40% hærri en ella."

Áhrif samningsins á verð- og gengisþróun
Í byrjun desembermánaðar síðastliðnum var gengi íslensku krónunnar orðið fimmtungi lægra en það var í byrjun ársins 2001 og fór gengisvísitalan hæst í um 151 stig.  Þessi gengislækkun kom til vegna óvenju mikils viðskiptahalla og óvissu um fjármögnun hans. Gengislækkunin þrýsti upp verðlagi og olli vaxandi óvissu um framvindu efnahagsmála.  Markmið aðila vinnumarkaðarins með samningsgerðinni var að draga úr óvissu um framtíðina, hafa jákvæð áhrif á væntingar og treysta þannig þann kaupmátt sem áunnist hafði með kjarasamningunum vorið 2000. Óhætt er að segja að þessi áætlun hafi gengið eftir.  Gengi krónunnar hefur styrkst um á annan tug prósenta frá desemberbyrjun og jákvæð áhrif á verðlagsþróun hafa ekki látið á sér standa. Jafnframt hefur tekist að tryggja mun betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum en horfur voru á á haustmánuðum.

Áhrif aðhalds að verðlagi
Á þeim sex mánuðum sem liðnir eru frá gerð samningsins hefur verið unnið ötullega að því að halda aftur af verðhækkunum, með virkt verðlagseftirlit, upplýsingar, hvatningu og beinar fortölur að vopni. Mörg fyrirtæki hafa ekki hækkað verð í samræmi við kostnaðarþróun, dregið til baka áður áformaðar verðhækkanir og jafnvel lækkað verð í trausti þess að gengi krónunnar styrktist og þannig stuðlað að lækkun verðbólgu.  Mikilvægt er að áframhald verði á þessari þróun.  Þá er ótalinn mikilvægur þáttur opinberra aðila, bæði ríkisstjórnar og sveitarstjórna, í aðhaldi að verðlagsþróun, en fyrir liggur að margar ákvarðanir um opinberar verðskrár hafa dregið úr verðbólgunni.

Vaxtalækkanir framundan
Verðbólga undanfarna þrjá til sex mánuði er um þessar mundir á svipuðu stigi eða lægri en í viðskiptalöndum okkar.  Ef horft er til síðustu tólf mánaða er verðbólga ennþá meiri en í viðskiptalöndunum og gætir þar enn áhrifa gengislækkunarinnar í fyrra.  Allar líkur eru á því að verðbólga verði mjög lítil á þessu ári.  Góðar verðlagshorfur, ásamt jafnvægi á vinnumarkaði og vörumarkaði, gefa  tilefni til þess að myndarleg skref verði stigin í lækkun vaxta á næstunni.  Mikilvægt er að Seðlabanki Íslands, og bankar og sparisjóðir í kjölfarið, bregðist skjótt við þessari mælingu með lækkun vaxta. 

Nauðsyn aðhalds í fjármálum ríkis og sveitarfélaga
Þegar litið er lengra fram veginn eru mun betri forsendur fyrir  stöðugleika í verðlags- og gengismálum en verið hefur undanfarin tvö ár.  Ein helsta forsenda þess er að ítrasta aðhalds verði gætt í rekstri hins opinbera, bæði ríkissjóðs og sveitarsjóða. Þannig eiga opinber fjármál að  stuðla að hóflegri eftirspurn innanlands og afgangi í viðskiptum við útlönd.


 

Samtök atvinnulífsins