Vinnumarkaður - 

20. Oktober 2017

Rangfærslur um styttingu vinnutíma á Íslandi

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Rangfærslur um styttingu vinnutíma á Íslandi

Hugmyndir og tillögur um styttingu vinnutíma á Íslandi markast af röngum upplýsingum og þar af leiðandi röngum ályktunum.

Hugmyndir og tillögur um styttingu vinnutíma á Íslandi markast af röngum upplýsingum og þar af leiðandi röngum ályktunum.

Flestir halda að dagvinnutími á viku sé 40 stundir og bera saman við 37 eða 37,5 stundir í Danmörku og Noregi. Þetta er ekki rétt því dagvinnutími verður lengstur 37 stundir á Íslandi. Vinnutími er sá tími sem starfsmaður er við störf og til taks fyrir vinnuveitandann. Umsamdir kaffitímar, 3 klukkustundir á viku, eiga þannig ekki að reiknast með vinnutíma þótt þeir séu greiddir. Kaffitímarnir eru eigin tími starfsmanna og þeim er yfirleitt frjálst að yfirgefa vinnustaðinn á meðan á þeim stendur.

Umsaminn ársvinnutími á Íslandi er hvergi styttri í Evrópu, að Frakklandi undanskildu eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Árlegar vinnustundir sem standa vinnuveitendum til ráðstöfunar á dagvinnukaupi eru 1.632 og er þá miðað við 37 stundir á viku, 28 daga meðalorlof og 11,4 sérstaka frídaga.


Smelltu á myndina til að stækka

Ósveigjanlegir kjarasamningar
Mikill munur er á greiddum vinnustundum og raunverulega unnum stundum hér á landi. Ísland sker sig frá öðrum löndum vegna þess hversu stór hluti launagreiðslna er í formi yfirvinnugreiðslna. Skýringin liggur í ósveigjanlegum ákvæðum kjarasamninga um vinnutíma. Samanburður kjarasamninga á Íslandi og öðrum Norðurlöndum leiðir berlega í ljós hversu ósveigjanlegir íslensku kjarasamningarnir eru varðandi skipulag vinnutíma.

Sveigjanlegri ákvæði kjarasamninga geta hvatt atvinnulífið til aukningar framleiðni og stuðlað að bættum kjörum, en það geta einfaldar pennastriksaðferðir ekki.

Á Norðurlöndum eru víða miklir möguleikar á því að jafna vinnustundum milli daga og vikna og gera vinnutímann upp á lengri tímabilum, t.d. mánuði eða jafnvel enn lengri tímabilum. Þannig er vinnustundum umfram vinnuskyldu á einu tímabili mætt með færri vinnustundum á síðara tímabili. Slíkur sveigjanleiki dregur mjög úr yfirvinnugreiðslum enda eru þær til dæmis aðeins 1% launagreiðslna í Danmörku en 15% á Íslandi.

Skynsamt fólk lærir af mistökum sínum og annarra. Lögin frá 1972 um 40 stunda vinnuviku (í raun 37 stundir) hafði óveruleg áhrif á heildarvinnutíma þótt þau styttu dagvinnutíma um fjórar stundir á viku. Áhrif laganna voru fyrst og fremst að hækka launakostnað atvinnulífsins. Áhrifin af umsaminni styttingu dagvinnutímabils verslunarmannafélaga árið 2000 drógu ekki úr heildarvinnutíma verslunarmanna, en hlutur yfirvinnutekna í heildarlaunum jókst og þar með launakostnaður.

Miðstýring eykur ekki framleiðni
Ofmat á vinnustundum á Íslandi veldur því að afköst mælast léleg í alþjóðlegum samanburði og margir trúa því að þau taki stökkbreytingu með pennastriksaðferð sem gengur undir heitinu „stytting vinnutíma“. Framleiðni á Íslandi er vanmetin vegna þess ofmats á vinnutíma sem felst í því að taldir eru greiddir tíma en ekki unnar vinnustundir. Í veruleikanum eykst framleiðni jafnt og þétt í hægum skrefum með sífelldum og smáum umbótum þúsunda aðila.

Mældur (og ofmetinn) vinnutími hefur styst hér á landi um fjórar klukkustundir á viku á undanförnum tveimur áratugum og um 12-14 stundir sé litið til undangenginna fjögurra áratuga. Þetta er mikil breyting og er til marks um aukin afköst og bætt lífskjör þar sem svigrúm hefur skapast fyrir mun styttri vinnutíma en áður. Aukin framleiðni í atvinnulífinu hefur knúið þessa þróun áfram. Svigrúminu sem framleiðniaukning hefur skapað til bættra lífskjara hefur verið skipt milli beinnar kaupmáttaraukningar og styttri vinnutíma. Sveigjanlegri ákvæði kjarasamninga geta hvatt atvinnulífið til aukningar framleiðni og stuðlað að bættum kjörum, en það geta einfaldar pennastriksaðferðir ekki.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Markaðnum 18. október 2017.

Samtök atvinnulífsins