Rangfærslur í nýrri skýrslu OECD um tekjudreifingu á Íslandi

RÚV birti frétt í hádeginu sem byggð var á nýrri skýrslu OECD sem birt er á vef stofnunarinnar. Í fréttinni er greint frá þeirri niðurstöðu OECD að tekjulægsta fólkið hafi orðið verst úti á fyrstu árum efnahagskreppunnar. Launamunur hafi óvíða aukist meira en á Íslandi en breytingar á skattkerfi og tilfærslu hafi orðið til að draga úr ójöfnuði.

 

Þessar niðurstöður stangast algerlega á við upplýsingar Hagstofu Íslands, sem er eini aðilinn hér á landi sem birtir upplýsingar um tekjudreifingu landsmanna og finna má í gagnagrunni stofnunarinnar.  Vandséð er því hvar OECD hefur fundið heimildir fyrir sínum tölum sem birtar eru í gagnagrunni OECD. Niðurstöður OECD eru í öllu falli ekki byggðar á gögnum Hagstofunnar.

 

Niðurstaða Hagstofunnar er þveröfug við ályktun OECD, þ.e. tekjudreifing minnkaði mest á Íslandi (og í Rúmeníu) í Evrópu á tímabilinu 2007-2011. Ísland og Rúmenía skera sig rauna algerlega úr í samanburði við aðrar þjóðir hvað minnkun tekjuójafnaðar varðar.

 

Svonefndur Gini stuðull er notaður til að mæla tekjuójöfnuð. Stuðullinn tekur gildið 0 þegar allir hafa sömu tekjur og gildið 1 þegar aðeins einn hefur allar tekjurnar. Samkvæmt Hagstofunni lækkaði stuðullinn á Íslandi úr 0,28 árið 2007 í 0,236 árið 2011, eða um 4,4 stig.

 

Smelltu til að stækka!