Ráðumst ekki á lífeyrissjóðina

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, flutti í gærkvöld erindi um skattlagningu lífeyrisiðgjalda hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum. Þar sagði hann m.a. að uppbygging lífeyrissjóðana væri eitt af því besta sem gerst hafi í þróun íslensks samfélags og íslenska lífeyrissjóðakerfið sé öfundarefni annarra þjóða. "Ráðumst ekki á það sem vel gengur og léttir okkur enn frekar róðurinn í framtíðinni," sagði Vilhjálmur meðal annars. Hann segir skynsamlegt að nýta lífeyrissjóðina sem bakhjarl fyrir sparnað og fjárfestingar til þess að leiða nýtt uppbyggingartímabil.

Vilhjálmur fjallaði ítarlega um forsögu þess að almennu lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir í kreppunni á 7. áratug síðustu aldar og um skattlagningu lífeyrisiðgjalda. Útgreiðslur voru alltaf skattskyldar en við upptöku staðgreiðslunnar voru iðgjöld starfsmanna ekki frádráttarbær en skattprósentan lækkuð á móti. Á árunum 1995 -1997 urðu iðgjöld hins vegar aftur að fullu frádráttarbær. Þetta fyrirkomulag þótti skynsamlegt til að einfalda meðferð út frá skattalegum sjónarmiðum og vegna samspils við almannatryggingar. Jafnframt hafði þetta í för með sér aukinn heildarsparnað og auknar eignir þjóðarinnar - þar með aukið fjármagn til lánveitinga og fjárfestinga. Með þessu fyrirkomulagi eru lífeyrisþegar jafnframt skattgreiðiendur sem er nauðsynlegt þar sem þjóðin er að eldast.

Vilhjálmur fjallaði um eftirfarandi tillögur sem settar hafa verið fram um breytingar á skattlagningu lífeyrisiðgjalda:

  • Iðgjöld almennt skattskyld - útgreiðslur skattfrjálsar.

  • Frestaður tekjuskattur innheimtur af séreignarsparnaði - iðgjöld skattlögð - útgreiðslur skattfrjálsar.

  • Fjármagnstekjuskattur lagður á lífeyrissjóði.

  • Iðgjöld í séreignarsparnað lækkuð (aðeins að hluta frádráttarbær).

Vilhjálmur sagði að ef ráðist yrði í skattlagningu lífeyrisiðgjalda til að bregðast við þeim vanda sem þjóðin glímir við nú muni sparnaður dragast saman og þjóðin ekki safna eignum í sama mæli. Uppsafnaðar vaxtatekjur verði ekki eins háar og lífeyrissjóðirnir muni því hafa minna fé til fjárfestinga. Fólk þurfi að treysta í auknum mæli á almannatryggingar og stjórnmálamenn dagsins í dag geti ekki lofað skattfrelsi lífeyrisgreiðslna fram í tímann.

Þá vék Vilhjálmur að ójafnræði milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins en sjóðsfélagar lífeyrissjóða á almennum markaði bera áhættuna af rekstri sjóðanna sjálfir á meðan skattgreiðendur bera áhættuna af rekstri opinberu lífeyrissjóðanna. "Verða lífeyriskjörin jöfnuð eða verða lífeyriskjör opinberra starfsmanna skert?" spurði Vilhjálmur.

Vilhjálmur sagði ljóst að ef lífeyrisiðgjöld verði gerð skattskyld og útgreiðslur lífeyrissjóðanna að sama skapi skattfrjálsar þá verði lífeyrissjóðirnir að loka núverandi starfsemi og opna nýjar deildir. Réttindi fólks muni lækka vegna stöðu áfallinna skuldbindinga. Þá sagði Vilhjálmur hugmyndir um skattlagningu séreignasjóða jafnframt vekja fjölda spurninga og auka ennfremur mismun milli opinbera og almenna markaðarins.

Vilhjálmur sagði í lok erindisins að uppbygging atvinnulífsins væri hafin en við værum enn í miðri kreppu. Það væri óskynsamlegt að ráðast á lífeyrissjóðina nú því með því yrðu skattstofnar framtíðarinnar skertir en vegna breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar verði skattgreiðendur í náinni framtíð hlutfallslega færri. Ísland þurfi því á sparnaði að halda og öflugum fjárfestingum lífeyrissjóðanna sem muni létta okkur róðurinn í framtíðinni.

Sjá nánar:

Glærur Vilhjálms