Vinnumarkaður - 

11. júní 2003

Ráðstefna um vinnuvistfræði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ráðstefna um vinnuvistfræði

Vinnuvistfræðifélag Íslands (VINNÍS) mun standa fyrir ráðstefnu á sviði vinnuvistfræði dagana 11.-13. ágúst nk. á Grand Hótel í Reykjavík, m.a. með stuðningi Samtaka atvinnulífsins. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Norrænu vinnuvistfræðisamtökin NES (Nordiska Ergonomisällskapet) og verður yfirskrift hennar Hugur og hönd í heimi tækninnar, eða Mind and Body in a technological world.


Vinnuvistfræðifélag Íslands (VINNÍS) mun standa fyrir ráðstefnu á sviði vinnuvistfræði dagana 11.-13. ágúst nk. á Grand Hótel í Reykjavík, m.a. með stuðningi Samtaka atvinnulífsins. Ráðstefnan er haldin í samvinnu við Norrænu vinnuvistfræðisamtökin NES (Nordiska Ergonomisällskapet) og verður yfirskrift hennar Hugur og hönd í heimi tækninnar, eða Mind and Body in a technological world.

Erindi á ráðstefnunni flytja m.a. fyrirlesarar frá Kanada, Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, auk Íslands. Meðal efnis sem fjallað verður um á ráðstefnunni er samspil streitu og líkamlegs álags, áhrif upplýsingatækni á líðan starfsmanna, heilsa kvenna og vinna, fjárhagslegur ávinningur af vinnuverndarstarfi, áhættumat, þátttaka og þjálfun starfsmanna, hönnun út frá vinnuvistfræðilegu sjónarhorni, hefðbundnar íhlutandi rannsóknir og þróun rannsókna í vinnuvistfræði, staða vinnuverndar og stefna til framtíðar.

Kynning á vörum og þjónustu
Í tengslum við ráðstefnuna verður sýning þar sem framleiðendum, seljendum og þjónustuaðilum, sem leggja áherslu á vinnuvistfræðilega hönnun og ráðgjöf, er boðið að kynna vörur sínar og þjónustu.

NES-verðlaunin
Á ráðstefnunni er fyrirhugað að veita NES-verðlaunin en þau hlýtur fyrirtæki eða einstaklingur sem unnið hefur framúrskarandi starf eða framlag á sviði vinnuverndar. Ábendingum um fyrirtæki eða einstaklinga sem kæmu til álita til verðlauna má koma á framfæri við Þórunni Sveinsdóttur, formann VINNÍS (torunn@ver.is).

Markhópar
Markhópar ráðstefnunnar innanlands eru allir þeir sem koma að vinnuverndarstarfi fyrirtækja, hafa áhrif á vinnuumhverfi, hönnun og starfsmenntunarnám, t.d. stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja, hönnuðir, sérfræðingar á sviði heilsu, umhverfis og öryggis, skipuleggjendur starfsmenntunar og starfsfræðslu, fulltrúar samtaka launþega og atvinnurekenda og aðrir stefnumótandi aðilar á þessu sviði. Erlendir þátttakendur í ráðstefnunni koma frá Norðurlöndunum, Evrópu og öðrum heimshlutum.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu ráðstefnunnar en þar er einnig hægt að skrá þátttöku.

Samtök atvinnulífsins