Ráðningarstyrkur mikilvægur í viðspyrnu

Meðal áberandi aðgerða sem ráðist hefur verið í til að mæta efnahagslegum afleiðingum kórónuveirufaraldursins er hlutabótaleiðin svokallaða, stuðningur launa á uppsagnarfresti ásamt lokunar, - tekjufalls- og viðspyrnustyrkjum. Minna hefur verið rætt um ráðningarstyrk.

Ráðningarstyrkur er fólginn í því að atvinnurekandi getur fengið grunnatvinnuleysisbætur auk 11,5% framlags í lífeyrissjóð í allt að 6 mánuði greiddar með nýjum starfskrafti eða allt að 322.804 kr. í styrk á mánuði. Hinn 1. janúar verður fjárhæðin 344.535 kr. á mánuði samhliða hækkun grunnatvinnuleysisbóta.

Um skilyrði ráðningarstyrks er fjallað í 11. gr. reglugerðar um greiðslu styrkja úr atvinnuleysistryggingasjóði o.fl. Til þess að geta sótt um ráðningarstyrk þarf atvinnurekandi m.a. að vera í skilum með launatengd gjöld og opinber gjöld, hafa a.m.k. einn starfsmann á launaskrá og ráðningin þarf að fela í sér aukningu á starfsmannafjölda.

Ferlið virkar þannig að fyllt er út umsókn og umbeðnum gögnum skilað til Vinnumálastofnunar. Þegar umsókn er samþykkt er skráð inn starf á vef Vinnumálastofnunar og gengið frá þríhliða samningi milli fyrirtækis, starfsmanns úr hópi umsækjenda og atvinnuráðgjafa Vinnumálastofnunar. Þeir sem hafa verið á atvinnuleysisskrá í minnst einn mánuð geta sótt um starfið.

Ráðningarstyrkur er afar mikilvægt úrræði til að örva atvinnulífið og fjölga atvinnutækifærum þeirra sem eru án vinnu. Framundan er stór áskorun við að draga úr atvinnuleysi og koma hjólum atvinnulífsins aftur í gang. Ráðningarstyrkur er hluti af lausninni.  

Upplýsingar um ráðningarstyrk á heimasíðu Vinnumálastofnunar

Reglugerð um greiðslu styrkja úr atvinnuleysistryggingasjóði o.fl. (11. gr.)

Skattastefna sem skapar störf