Vinnumarkaður - 

12. Febrúar 2009

Ráðningar fólks samkvæmt reglum um vinnumarkaðsúrræði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ráðningar fólks samkvæmt reglum um vinnumarkaðsúrræði

Ráðning vegna frumkvöðlastarfs í fyrirtækjum og þróun eigin viðskiptahugmyndar eru meðal þeirra úrræða sem Vinnumálastofnun getur boðið en nýjar reglugerðir voru settar um vinnumarkaðsaðgerðir í byrjun janúar. Ennfremur er þar kveðið á um reynsluráðningar og starfsþjálfunarsamninga. Í lögum um vinnumarkaðsaðgerðir eru tiltekin helstu vinnumarkaðsúrræði sem Vinnumálastofnun skal annast, en þar er um að ræða styttri námskeið, starfstengd úrræði, námsúrræði, atvinnutengda endurhæfingu og ráðgjöf.

Ráðning vegna frumkvöðlastarfs í fyrirtækjum og þróun eigin viðskiptahugmyndar eru meðal þeirra úrræða sem Vinnumálastofnun getur boðið en nýjar reglugerðir voru settar um vinnumarkaðsaðgerðir í  byrjun janúar. Ennfremur er þar kveðið á um reynsluráðningar og starfsþjálfunarsamninga. Í lögum um vinnumarkaðsaðgerðir  eru tiltekin helstu vinnumarkaðsúrræði sem Vinnumálastofnun skal annast, en þar er um að ræða styttri námskeið, starfstengd úrræði, námsúrræði, atvinnutengda endurhæfingu og ráðgjöf.

Í  lögum um atvinnuleysistryggingar segir að Vinnumálastofnun sé heimilt að veita styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra sem tryggðir eru úr sjóðnum í vinnumarkaðsaðgerðum. Vinnumálastofnun hefur nú sett upp greinagóðar vefsíður um úrræðin sem bjóðast  samkvæmt nýju reglugerðunum. Aðgerðirnar eru margvíslega en það sem snýr öðru fremur að atvinnurekendum er ráðning atvinnulausra með tilstyrk atvinnuleysistryggingasjóðs vegna frumkvöðlastarfs í fyrirtækjunum, reynsluráðningar, starfsþjálfunarsamningar og stuðningur við einstaklinga um þróun eigin viðskiptahugmyndar.

Starfsorka er átaksverkefni með það markmið að auðvelda fyrirtækjum að ráða fólk í atvinnuleit og byggir á 8. grein reglugerðar 12/2009. Starfsorka byggir á þríhliða samningi milli Vinnumálastofnunar, fyrirtækis og atvinnuleitanda um ráðningu í störf sem lúta að nýsköpun og þróun og greiðslu atvinnuleysisbóta. Í samningunum samþykkir atvinnuleitandinn að Vinnumálastofnun greiði grunnatvinnuleysisbætur hans ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð beint til fyrirtækisins. Fyrirtækið skuldbindur sig til að ráða atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins við þróun nýrrar viðskiptahugmyndar í allt að sex mánuði og greiðir honum laun samkvæmt gildandi kjarasamningi. Vinnumálastofnun greiðir sem nemur fjárhæð þeirra atvinnuleysisbóta sem atvinnuleitandi á rétt á úr Atvinnuleysistryggingasjóði til fyrirtækisins auk 8% mótframlags í lífeyrissjóð þann tíma.

Markmið með verkefninu eru:

Að styðja við nýsköpun og þróun í fyrirtækjum.
Að koma á tengslum milli atvinnuleitenda og fyrirtækja.
Að styðja við frumkvöðla með hugmyndir um nýsköpun.
Að styðja við atvinnuleitendur og auðvelda þeim leit að störfum.

Forsendur fyrir þátttöku í verkefninu:

Að um starfandi fyrirtæki sé að ræða og velta síðasta árs sé fimm milljónir eða meira.
Að eitt eða fleiri stöðugildi séu nú þegar í fyrirtækinu.
Að veruleg nýsköpun/þróun sé í því verkefni sem atvinnuleitandi er ráðinn til.
Að atvinnuleitandi sé tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins og eigi rétt á atvinnuleysisbótum.
Að atvinnuleitandi sé í virkri atvinnuleit og á skrá hjá Vinnumálastofnun.
Að ráðning atvinnuleitandans feli í sér fjölgun starfsmanna hjá fyrirtækinu.
Að verkefnið raski ekki samkeppni innanlands í viðkomandi starfsgreinum.

Samkvæmt reglugerðinni er Vinnumálastofnun  heimilt að gera sérstakan samning við atvinnuleitanda sem er tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins um að hann vinni í allt að sex mánuði að þróun eigin viðskiptahugmyndar með það að markmiði að koma hugmyndinni í framkvæmd. hafa vinnuna.

Skilyrði samnings um þróun eigin viðskiptahugmyndar  er að atvinnuleitandinn leggi fram viðskiptaáætlun og skili framvinduskýrslu til Vinnumálastofnunar eftir þrjá mánuði og aftur við lok verkefnisins. Jafnframt er það skilyrði að viðskiptahugmyndin verði talin líkleg til þess að skapa atvinnuleitandanum framtíðarstarf að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Þá er það skilyrði að atvinnuleitandinn hafi kynnt sér rekstur og stofnun smáfyrirtækja. Vinnumálastofnun greiðir atvinnuleitanda á sama tíma atvinnuleysisbætur sem hann á rétt til á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleitandi á að vera í reglulegum samskiptum við ráðgjafa Vinnumálastofnunar á gildistíma samningsins en hann þarf ekki að vera í virkri atvinnuleit á sama tíma.

Markmið samnings um reynsluráðningu er að atvinnuleitandi fái tækifæri til að öðlast reynslu í þeirri starfsgrein sem fyrirtækið eða stofnunin starfar innan og að veita fyrirtækinu eða stofnuninni tækifæri til að ráða atvinnuleitanda til reynslu í þeim tilgangi að stuðla að framtíðarráðningu hans innan fyrirtækisins eða stofnunarinnar.  Samingurinn felur í sér að fyrirtæki eða stofnun fær fjárhæð sem nemur grunnatvinnuleysisbótum auk 8% mótframlags í lífeyrissjóð en fyrirtæki á að greiða laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings.

Skilyrði fyrir gerð reynsluráðningarsamnings er að ráðning atvinnuleitandans feli í sér aukningu á starfsmannafjölda fyrirtækis eða stofnunar og að fyrirtækið eða stofnunin skuldbindi sig til að ráða atvinnuleitandann með hefðbundnum hætti til a.m.k. jafn langs tíma og sem nemur gildistíma samningsins eftir að gildistíma hans lýkur.

Hvað varðar starfsþjálfunarsamninga gilda sömu reglur og um reynsluráðingu hvað varðar greiðslu bóta og launa. Skilyrði fyrir gerð starfsþjálfunarsamnings er að ráðning atvinnuleitandans feli í sér aukningu á starfsmannafjölda fyrirtækis eða stofnunar og að viðkomandi  hafi ekki áður starfað í þeirri starfsgrein sem um er að ræða eða lengri tími en eitt ár er liðinn síðan hann lét af störfum í starfsgreininni.

Samtök atvinnulífsins