Efnahagsmál - 

04. nóvember 2010

Ráðherra segir fólki að bíða

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ráðherra segir fólki að bíða

Í þættinum Okkar á milli í Ríkisútvarpinu í gær sagði umhverfisráðherra að ekki þyrfti að koma til móts við raddir hagsmunasamtaka eins og Samtaka atvinnulífsins. Þrýstingur frá hagsmunasamtökum væri mjög mikill en þau yrðu nú að gera sér að góðu að sitja á bekknum og bíða. Samtök atvinnulífsins hafa vissulega gagnrýnt stjórnsýslu umhverfisráðuneytisins og undirstofnana þess. Sú gagnrýni hefur m.a. byggst á því að stjórnvöld virða ekki tímafresti heldur draga afgreiðslu mála von úr viti.

Í þættinum Okkar á milli í Ríkisútvarpinu í gær sagði umhverfisráðherra að ekki þyrfti að koma til móts við raddir hagsmunasamtaka eins og Samtaka atvinnulífsins. Þrýstingur frá hagsmunasamtökum væri mjög mikill en þau yrðu nú að gera sér að góðu að sitja á bekknum og bíða. Samtök atvinnulífsins hafa vissulega gagnrýnt stjórnsýslu umhverfisráðuneytisins og undirstofnana þess. Sú gagnrýni hefur m.a. byggst á því að stjórnvöld virða ekki tímafresti heldur draga afgreiðslu mála von úr viti.

Ráðherra hefur einnig gengið mjög langt í að grípa fram fyrir hendur kjörinna sveitastjórna. Síðast með því að áfrýja til Hæstaréttar dómi þar sem ákvörðun ráðherra um synjun staðfestingar á aðalskipulagi Flóahrepps var var ógilt. Telur ráðherra að ekki hafi verið heimilt að sveitarstjórnin fengi greiddan kostnað við gerð skipulags frá þeim sem málið helst varðaði þrátt fyrir að ekkert í lögum hafi bannað að svo væri gert og að lögum hafi síðar sérstaklega verið breytt til að heimila slíkar greiðslur.

Samtök atvinnulífsins telja mjög mikilvægt að stjórnvöld virði lögbundna tímafresti. Geri þau það hins vegar ekki verði að líta svo á að stjórnvöld hafi ekki  athugasemdir fram að færa í viðkomandi máli. Þetta er í samræmi við þau viðhorf sem hafa verið að þróast í OECD-ríkjunum og er ætlað að tryggja hag borgaranna í samskiptum við stjórnvöld. Í þessu á að gilda að þögn sé sama og samþykki.

Það kemur ekkert á óvart að ráðherra skuli segja fólki að bíða. Samtök atvinnulífsins biðu mjög lengi eftir því að ríkisstjórnin efndi stöðugleikasáttmálann sem undirritaður var í júní 2009 áður en vanefndir ríkisstjórnarinnar urðu til þess að sáttmálinn brast. Það hefur legið ljóst fyrir að umhverfisráðherrann hafði engan áhuga á að efna hann og gerði um leið undirskriftir forsætisráðherra og fjármálaráðherra marklausar.

En það eru fleiri en Samtök atvinnulífsins sem bíða eftir því að umfangsmiklar framkvæmdir í hagkerfinu geti hafist og að óvissu um rekstrarskilyrði í atvinnulífinu verði eytt.  Á vef Vinnumálastofnunar má sjá að í dag eru atvinnulausir 13.544 talsins. Þetta fólk bíður líka.

Samtök atvinnulífins telja nauðsynlegt að stjórnvöld grípi til allra tiltækra ráða til koma atvinnulífinu af stað og auka hagvöxt hér á landi. Aðeins þannig verður dregið úr atvinnuleysi, lífskjör bætt og niðurskurður opinberrar þjónustu takmarkaður.

Það má enginn búast því við að Samtök atvinnulífsins sitji hljóð á bekknum og bíði þegjandi á meðan ekki hefur verið leyst úr þessum mikilvægu verkefnum.

Tengt efni:

Hlusta á Okkar á milli á ruv.is - 3.11. 2010

Samtök atvinnulífsins