Ráðgjöf Hafró og staða efnahagsmála

Það rifjaðist upp fyrir mörgum í nýliðnu sjómannaverkfalli hvað útflutningstekjur sjávarútvegsins skipta þjóðarbúið miklu máli. Að fiskútflutningur er enn meginuppspretta gjaldeyristekna þjóðarinnar, þótt tekjur af ferðamönnum, álútflutningi og ýmsu fleiru hafi blessunarlega aukist umtalsvert. Upplýsingar um stöðu og framtíðarhorfur veiðistofns þorsks, sem er efnahagslega lang þýðingarmesta sjávardýrið fyrir okkur Íslendinga, koma því illa við marga.

Að sönnu ætti sú staða sem upp er komin varðandi þorskstofninn ekki ein og sér að gera útslagið um efnahagshorfur á næstu misserum, en þessar upplýsingar koma á slæmum tíma fyrir íslenskt efnahagslíf. Efnahags- og kostnaðarþróun síðustu mánaða hefur dregið þrótt úr innlendum fjárfestum og stjórnendum og hætta er á að samdráttur verði mun meiri en efnahagsstofnanir hafa enn spáð fyrir um. Ákveðin hætta virðist líka á að gengi íslensku krónunnar festist í gildi sem er lægra en hagsmunir útflutningsatvinnuveganna krefjast, jafnvel þótt litið sé til síðustu tíðinda, með tilheyrandi áhrifum á lífskjör og verðbólguþrýsting.

Við þessar aðstæður hafa Samtök atvinnulífsins lagt áherslu á nauðsyn þess að hraða ákvarðanatöku og stefnumörkun sem haft geti jákvæð áhrif á þetta umhverfi og aukið tiltrú á íslensku efnahagslífi. Þar er einna mikilvægast að stjórnvöld kynni efnisatriði og tímasetningar þeirra skattalækkana fyrir fyrirtæki sem þau hyggjast framkvæma, að það takist að ljúka samningum um frekari uppbyggingu stóriðju, og að Seðlabankinn lækki vexti umtalsvert. En aftur að stöðu þorskstofnsins og ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

Upplýsingar um ofmat stofnstærðar þorsks eru mikið áfall fyrir Hafrannsóknastofnun og alla þá sem hafa stutt það að ákvarðanir um heildarafla séu grundvallaðar á vísindalegri þekkingu. Með 25% aflareglunni töldu menn að á nokkrum næstu árum mætti byggja veiðistofninn upp í að vera um 1,5 milljón tonna.

Enginn er óskeikull, en þegar slík mistök koma upp skiptir miklu hvernig haldið er á málum þannig að menn og stofnanir tapi ekki trúverðugleika. Nokkra undrun vekur að Hafró hafi ekki fyrr haft frumkvæði að ítarlegum opinberum umræðum um grundvöll ráðgjafar stofnunarinnar, en fram hefur komið að ráðgjafarhópur hafi skilað lokaskýrslu um mat á aðferðum í nóvember síðast liðnum. Í umræðum nú er mörgum ólíkum hlutum blandað saman. Sem betur fer virðist ekki hafa verið um stórfellt ofmat að ræða um miðjan síðasta áratug þegar þorskstofninn stóð lægst áður. Frá þeim tíma hefur ráðgjöf og útreikningum fiskifræðinga verið fylgt nákvæmlega, þar til í fyrra að þorskaflahámark var ákveðið 17 þúsund tonnum hærra en 25% veiðireglan gaf tilefni til. Hefur verið víðtæk samstaða um það í þjóðfélaginu á síðustu árum að fylgja ráðgjöf fiskifræðinga í öllum meginatriðum. Auðvitað eykst hættan á hruni þegar stofninn er mjög veikur, en þróun veiðistofnsins í 30 ár, frá því er hann var stærstur um 1955 (um 2,5 mt), lá fyrir er menn lögðu á ráðin um uppbyggingu þorskstofnsins.

Það ruglar því umræðuna nú er forstjóri Hafró ræðir um ofveiði síðustu 40 ára og skaðar að ósekju umfjöllun um tilraunir Íslands til sjálfbærrar auðlindanýtingar. Það er tvennt ólíkt að stunda vísvitandi óábyrgar veiðar, eða að veilur sem þarf að laga komi upp í þeim vísindalega grundvelli sem ákvarðanir eru byggðar á.

Svo einkennilegt sem það er hafa ýmsir orðið til að hlakka yfir mistökum Hafrannsóknastofnunar. Berja sér á brjóst og ræða um ónákvæmni vísindanna. Sú ónákvæmni er þó aldrei talin vera nema í aðra áttina og er ekki talin rökstyðja aflaákvörðun uppá t.d. 100 þúsund tonn. Eins og við er að búast hafa andstæðingar kvótakerfisins líka reynt að hræra saman mistökum við mat á stofnstærð og umræðum um skipulag fiskveiðistjórnunar. Þetta eru þó tvö sjálfstæð mál þótt ekki séu þau óskyld.

Beinasta tengingin þarna á milli felst í því að aflahlutdeildarkerfið stuðlar að sátt um ábyrga nýtingu. Þeir sem nýta auðlindina vita að ef þeir leggja sitt af mörkum til uppbyggingar fiskistofna, þá munu þeir geta veitt tvö kíló á morgun í stað eins í dag. Þetta horfir allt öðru vísi við þar sem sóknarkapphlaup er í gangi. Þá veiða menn strax eða tapa. Meginorsök ofmats Hafró nú virðist hafa verið aukinn veiðanleiki þorsks 1997 og 1998. Menn sjá að með sífellt betri veiðitækni er í raun ógerningur að stjórna fiskveiðum nema tímabundið með sóknartakmörkunum, því ekki geta menn bannað allar fjárfestingar og framfarir til langframa. Hver er reynslan af sóknardagakerfi smábáta?

Fiskimiðin eru fjöregg íslensku þjóðarinnar og við höfum ekki efni á neinni ævintýramennsku við nýtingu þeirra. Allt kapp verður því að leggja á það að efla rannsóknir Hafrannsóknastofnunar enn frekar. Engir hafa meiri skilning á þessu en útvegsmenn, sem hafa stutt fiskvernd og fiskirannsóknir með ráðum og dáð og féllust m.a. á sérstaka gjaldtöku af útgerðum til að greiða fyrir smíði nýs og fullkomins hafrannsóknaskips.

Hafrannsóknastofnun stendur hins vegar frammi fyrir því verkefni að endurheimta traust þeirra sem nýta auðlindina, stjórnvalda og alls almennings. Það er brýnasta verkefni stofnunarinnar og sjávarútvegsráðherra að setja fram áætlun um það hvernig að því verði unnið og mikilvægt fyrir alla að það takist.

Ari Edwald