Efnahagsmál - 

25. janúar 2012

Pólitískan vilja þarf til að ná settum markmiðum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Pólitískan vilja þarf til að ná settum markmiðum

"Eitt brýnasta verkefni stjórnkerfisins er breytt vinnulag við gerð fjárlaga sem grundvallast á pólitískum vilja til þess að ná settum markmiðum. Trúverðugleiki fjárlaga er m.a. kominn undir vilja og getu ríkisstjórnarinnar, ráðuneyta og stofnana til þess að halda útgjöldum ríkissjóðs innan heimilda fjárlaga." Þetta sagði Halldór Árnason, hagfræðingur hjá SA, m.a. á ráðstefnu um bætta umgjörð fjárlagagerðar sem fram fór í morgun en hann fjallaði um áhrif opinberra fjármála á atvinnulífið.

"Eitt brýnasta verkefni stjórnkerfisins er breytt vinnulag við gerð fjárlaga sem grundvallast á pólitískum vilja til þess að ná settum markmiðum. Trúverðugleiki fjárlaga er m.a. kominn undir vilja og getu ríkisstjórnarinnar, ráðuneyta og stofnana til þess að halda útgjöldum ríkissjóðs innan heimilda fjárlaga." Þetta sagði Halldór Árnason, hagfræðingur hjá SA, m.a. á ráðstefnu um bætta umgjörð fjárlagagerðar sem fram fór í morgun en hann fjallaði um áhrif opinberra fjármála á atvinnulífið.

Erindi Halldórs má nálgast hér að neðan í heild sinni en hann sagði það álit SA að skattalegt umhverfi í landinu eigi að miða að því að ná fram sem mestri hagkvæmni, hvort sem er í rekstri heimila eða fyrirtækja.

"Skattkerfið á fyrst og fremst að vera skilvirkt tekjuöflunartæki ríkissjóðs. Það á að vera gegnsætt og forðast flækjur, skattstofnar eiga að vera breiðir og skattprósentur fáar og lágar. Með því móti er dregið úr hvata til undanskota. Markmiðum ríkisvaldsins um jafnari tekjuskiptingu verður best náð með aðgerðum á útgjaldahlið. Þannig fæst m.a. skýrari mynd af kostnaðinum sem fer til tekjujöfnunar. Þetta er niðurstaða alþjóða­stofnana á borð við OECD og AGS og var mjög vel lýst í skýrslu skattasérfræðinga AGS um skattkerfið á Íslandi í júní 2010.

Svo að stýring opinberra fjármála styðji sem best við efnahagslegan stöðugleika þarf fyrirsjáanleikinn á þeim bæ að vera sem mestur. Fyrirtæki og heimili taka ákvarðanir um ráðstöfun fjármuna og skuldsetningu á forsendum um skattlagningu. Stöðugleiki og fyrirsjáanleiki í skattlagningu hefur því mikla þýðingu sem grunnur að vönduðum ákvörðunum bæði fyrirtækja og heimila. Miklar, örar og handahófskenndar skattabreytingar draga hins vegar úr árangri allra skattgreiðenda. Ein meginforsenda árangurs í rekstri opin­berra stofnana er að stjórnendur og starfsfólk þeirra hafi nægilegt svigrúm til að laga þjónustuna eða starfsemina að langtímamarkmiðum."

Halldór undirstrikaði að skattlagningu verði að haga þannig að hún stuðli að fjárfestingu og verðmætasköpun í stað þess að letja fólk til vinnu. Atvinnulífið leggi grunn að þeirri velferð sem þjóðin geti staðið undir á hverjum tíma og því mikilvægt að rekstur hins opinbera sé hagkvæmur.

Erindi Halldórs Árnasonar (PDF)

Félag forstöðumanna ríkisstofnana og fjármálaraðuneytisins í samstarfi við stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála stóð fyrir ráðstefnunni. Glærur frá ráðstefnunni verða aðgengilegar á www.ffr.is og www.stjornsyslustofnun.hi.is

Samtök atvinnulífsins