Efnahagsmál - 

24. mars 2009

Peningastefnunefnd ákveði frekari vaxtalækkun

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Peningastefnunefnd ákveði frekari vaxtalækkun

Verðlag lækkaði í mars um 0,6% frá fyrra mánuði. Við það hjaðnaði verðbólgan, þ.e. verðlagshækkun síðustu 12 mánaða, í 15,2%. Í þeirri tölu vegur gríðarleg hækkun í apríl í fyrra þungt, en þá hækkaði verðlag um 3,4% milli mánaða og 4,2% án húsnæðisliðar. Ef hækkunin í næsta mánuði verður óveruleg, en aðstæður hérlendis sem erlendis benda til þess, þá fellur 12 mánaða verðbólga niður í 11-12%.

Verðlag lækkaði í mars um 0,6% frá fyrra mánuði. Við það hjaðnaði verðbólgan, þ.e. verðlagshækkun síðustu 12 mánaða, í 15,2%. Í þeirri tölu vegur gríðarleg hækkun í apríl í fyrra þungt, en þá hækkaði verðlag um 3,4% milli mánaða og 4,2% án húsnæðisliðar. Ef hækkunin í næsta mánuði verður óveruleg, en aðstæður hérlendis sem erlendis benda til þess, þá fellur 12 mánaða verðbólga niður í 11-12%.

Þegar litið er til skemmri tíma en 12 mánaða er verðbólgan mun minni. Árshraði verðbólgu síðustu þriggja mánaða er 1,9% og árshraði síðustu sex mánaða er 12,4%. Í næstu mælingu Hagstofunnar má búast við því að árshraði þriggja mánaða breytingar nálgist núll og sex mánaða breytingin verði komin í eins stafs tölu. Hjöðnun vísitölunnar án húsnæðisliðarins verður heldur hægari en þó stefnir í að 12 mánað verðbólgan á þann mælikvarða verði komin í eins stafs tölu í haust og ársverðbólga þriggja og sex mánaða muni sýna verðstöðugleika um mitt ár eða síðla sumars.

Aðstæður hér innanlands eru þannig að eftirspurn eftir vöru og þjónustu hefur dregist mikið saman og kostnaður fyrirtækja lækkað vegna lækkunar launakostnaðar og annarra aðhaldsaðgerða. Gengi krónunnar er tiltölulega stöðugt í sínum haftafjötrum miðað við það sem á undan er gengið. Erlendis ríkir djúp efnahagslægð, nánast engin verðbólga en hætta á verðhjöðnun. Það er því útlit fyrir hægar breytingar á vísitölu neysluverðs á komandi mánuðum sem þýðir að 12 mánaða verðbólgan verður líklega komin í eins stafs tölu í júní næstkomandi og verðstöðugleiki kominn á þegar litið er til skemmri tímabila.

Peningastefnunefnd Seðlabankans sagði í rökstuðningi sínum fyrir 1% lækkun stýrivaxta þann 19. mars síðastliðinn að verðbólguþrýstingur hefði verið á undanhaldi og því væri tímabært að draga gætilega úr peningalegu aðhaldi. Þetta er ónákvæm lýsing á núverandi aðstæðum þar sem flestar vísbendingar benda til þess að verðbólguþrýstingur sé horfinn og framundan sé verðstöðugleiki og jafnvel verðlækkun.

Nýjasta verðbólgumæling Hagstofunnar hlýtur að koma Seðlabankanum verulega á óvart. Hjöðnun verðbólgu er mun hraðari en hann virðist hafa  gert ráð fyrir og það hlýtur að leiða til þess að stýrivextir verði endurskoðaðir fyrr en áformað var.

Samtök atvinnulífsins