Óvissu verði eytt

Á fundi nýrrar stjórnar Samtaka atvinnulífsins sem haldinn var í dag var áhersla lögð á að stjórnmálalegri óvissu verði eytt sem fyrst og að stefna landsins verði mótuð til framtíðar. Verulegur árangur í niðurskurði ríkisútgjalda sé forsenda þess að landið komist hratt upp úr öldudalnum.


Stjórn SA leggur áherslu á að unnið verði að samstöðu um víðtækan þríhliða stöðugleikasáttmála milli aðila vinnumarkaðar og stjórnvalda. Fram komu áhyggjur af því að staða atvinnulífsins kynni að vera verri en áður hefur komið fram og hvatti stjórnin til þess að fyrirliggjandi upplýsingar verði lagðar fram sem fyrst. Atvinnulífið væri í gríðarlegri óvissu í fjötrum ofurvaxta og áform um hægfara vaxtalækkanir væru óásættanleg. Ákvörðunarfælni og sífelld frestun mikilvægra ákvarðana skapi enn frekari vandamál.


Á fundinum í dag kom fram að tryggja þurfi jafnræði og eðlileg samkeppnisskilyrði í framhaldi af því að vikið hafi verið frá þeirri meginreglu að fyrirtæki í rekstrarvanda fari í gjaldþrot. Nýtt umhverfi með ríkisbönkum skapi mikla óvissu fyrir fyrirtæki í samkeppnisrekstri. Samkeppnisumhverfið sé afar óljóst á ýmsum mörkuðum  sem einkennist af óeðlilegum undirboðum. Ríkisbankar skapi hættu á að samkeppnishamlandi aðstoð við fyrirtæki í samkeppnisrekstri verði viðvarandi.


Stjórn Samtaka atvinnulífsins lýsti andstöðu sinni við áform stjórnarflokkanna um eignaumsýslufélag á vegum ríkisins vegna þjóðhagslegra mikilvægra fyrirtækja. Í stað þess beri að stuðla að fjárfestingafélagi á vegum lífeyrissjóða og annarra fjárfesta sem með faglegum og gegnsæjum hætti geti fjárfest með arðsemi að leiðarljósi í fyrirtækjum, sem tapað hafi eigin fé sínu, og séu tímabundið í eignarhaldsfélögum á vegum bankanna. Óvissa um afdrif framvirkra samninga lífeyrissjóðanna komi þó í veg fyrir að slíkt fjárfestingafélag komist á laggirnar og eru stjórnvöld hvött til þess að höggva á þann hnút.

Stjórn SA telur gjaldeyrishöftin  afar skaðleg því þau dragi úr líkum á erlendri fjárfestingu og takmarki möguleika innlendra fyrirtækja á því að hasla sér völl erlendis. Hraða þurfi áformum um afnám þeirra.

Þá var áréttað í umræðum að reglur á sviði umhverfismála taki stöðugum breytingum og ógegnsæi ríki varðandi framkvæmd þeirra sem fæli erlenda fjárfesta frá landinu. Pólitískur stöðugleiki þurfi að ríkja á því sviði sem öðrum.