Óvinafagnaður

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis ritaði grein í Morgunblaðið og gerir að umtalsefni þingmannafrumvarp um breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða sem lagt var fram haustið 2015. Í frumvarpinu felst að í stað núverandi fyrirkomulags við skipan stjórna sjóðanna, þar sem fulltrúar stéttarfélaga og atvinnurekenda eru skipaðir að jöfnu, verði stjórnarmenn kosnir árlega í beinni kosningu sjóðfélaga. Stjórn sjóðsins skuli kosin beint á ársfundi eða með almennri leynilegri póstatkvæðagreiðslu fyrir ársfund. Atkvæðisréttur sjóðfélaga fari eftir áunnum og framreiknuðum iðgjöldum þeirra. Þá gerir hann að umtalsefni eldri frumvörp um að sjóðfélagar geti valið sér lífeyrissjóð í stað núgildandi skylduaðildar og lýsir stuðningi við slíka breytingu. Vísar hann til kannana sem sýni yfirgnæfandi stuðning við báðar breytingar. Óábyrgt væri að láta málflutning formanns efnahags- og viðskiptanefndar vera síðasta orðið í þessari orðræðu.

Lífeyrissjóðir eru í eðli sínu tryggingafélög sem tryggja sjóðfélögum ævilangan ellilífeyri, tryggingu gegn áföllum í formi endurhæfingar- eða örorkulífeyris og maka- og barnalífeyris við fráfall sjóðfélaga. Iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda vegna þeirra eru því tryggingariðgjöld en ekki fjáreign þeirra.

Lífeyrisréttindi eru kjarasamningsbundin
Stjórnskipan lífeyrissjóða er hluti kjarasamninga. Samningsaðilar á almennum vinnumarkaði, Samtök atvinnulífsins (áður Vinnuveitendasamband Íslands) og Alþýðusamband Íslands og aðildarsamtök þess, hafa verið í fararbroddi í uppbyggingu lífeyrissjóða í áratugi.

Árið 1969 gerðu aðilar kjarasamninga um skylduaðild að lífeyrissjóðum sem tryggðu öllu launafólki réttindi til ævilangs lífeyris. Sá samningur var endurnýjaður árið 1995 og varð fyrirmynd laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samningsaðilar vildu að settur yrði lagarammi um starfsemi sjóðanna m.a. til að þeir sem standa utan gildissviðs kjarasamninga tryggðu sér sambærileg lífeyrisréttindi og félagsmenn stéttarfélaganna, en reiddu sig ekki einvörðungu á lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins. Það var kjarni máls.

Frá setningu laganna um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða hafa verði gerðar fjölmargar breytingar á þeim. Stór hluti þeirra hefur komið til að frumkvæði ASÍ og SA vegna breytinga á lífeyrisréttindum í kjarasamningum.

Í kjarasamningi ASÍ og SA um lífeyrismál segir að stjórnir sjóðanna skuli skipaðar fulltrúum stéttarfélaga og atvinnurekenda að jöfnu. Þetta er svokallað fulltrúalýðræði. Um þessa skipan hefur ekki ríkt ágreiningur milli aðila.

Önnur ríki hafa sama fyrirkomulag og á Íslandi
Í ríkjum sem búa við sambærilega skipan kjaramála og hér, þ.e. lífeyristryggingar sem byggja á sjóðssöfnun og samið hefur verið um í kjarasamningum, skipa samningsaðilar almennt stjórnir lífeyrissjóða. Stærstu lífeyrissjóðirnir í Danmörku, sem tryggja lífeyrisréttindi sem um er samið í kjarasamningum, eru reknir sem líftryggingafélög í eigu samningsaðilanna og eru stjórnir þeirra skipaðar fulltrúum stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda að jöfnu. Þau eru rekin án hagnaðarsjónarmiða enda rennur allur hagnaður til aukningar réttinda hinna tryggðu.

Í öllum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði eru kaflar um lífeyrissjóði sem vísa til kjarasamnings ASÍ og SA. Frumvarpið sem hér er gert að umtalsefni er gróf íhlutun í kjarasamningana alla og er í andstöðu við þá sátt sem ríkt hefur undanfarna áratugi að löggjafinn hlutist ekki til um breytingar á ákvæðum kjarasamninga í andstöðu við samningsaðila.

Verði umrætt frumvarp að lögum væri verið að marka leið inn í aðra kafla kjarasamninganna. Einnig hlyti löggjafinn samhliða að kveða á um atkvæðagreiðslur meðal félagsmanna um skipan stjórna í sjúkrasjóðum, orlofssjóðum, starfsmenntasjóðum og starfsendurhæfingarsjóðnum VIRK. Þá væri leiðin greið fyrir Alþingi að endurskoða ákvæði kafla kjarasamninga um laun, vinnutíma, neysluhlé, orlof og greiðslu launa í veikindum.

Óvinafagnaður
Muni áform formanns efnahags- og viðskiptanefndar ganga eftir má ætla að efnt yrði til einhvers mesta óvinafagnaðar sem um getur á Íslandi í seinni tíð. Enginn getur séð fyrir sér sundrungu og átök sem fylgt gætu almennum kosningum í stjórnir lífeyrissjóðanna. Í stærsta sjóðnum á almenna markaðnum áttu 158.000 manns réttindi og 212.000 í þeim næst stærsta árið 2015, en ársfundi þeirra sækja að jafnaði 50-100 manns. Litlir, vel skipulagðir hópar með kosningavélar ættu því greiða leið að yfirtöku sjóðanna. Aðferðin blasir við og er þaulreynd, þ.e. með notkun samfélagsmiðla og þjónustu almannatengslafyrirtækja. Kosningaþátttaka yrði eflaust undir 5% í stærstu sjóðunum. Það er ekki sviðsmynd sem lýðræðiselskandi flutningsmenn umrædds frumvarps hafa í huga en yrði augljóslega raunin.

Ávöxtunin er yfirgnæfandi hluti lífeyrisréttindanna
Ávöxtunin skiptir sköpum við myndun lífeyrisréttinda. Einstaklingar geta vænst þess að lifa í 20 ár að meðaltali nái þeir 65 ára aldri. Sé greitt 12% iðgjald í 40 ár samsvarar uppsöfnuð fjárhæð án ávöxtunar tæplega fimm árslaunum og sé miðað við að lífeyririnn sé helmingur meðallauna á ævinni þá dugar iðgjaldið til að hámarki 10 ára lífeyrisgreiðslna. Ávöxtun iðgjaldanna verður því að standa undir a.m.k. helmingi lífeyrisréttindanna. Ef vel á að takast til um ávöxtun þarf því að velja öflugt fólk með mikla og fjölbreytta þekkingu og reynslu í stjórnir sjóðanna.

Lífeyrisréttindi í séreignarsjóðum
Gagnstætt því sem gildir um iðgjöld í lífeyrissjóðunum er viðbótarlífeyrissparnaður eða annar séreignarsparnaður eign sjóðfélaganna. Þar er ekki um neina umsamda tryggingu að ræða. Án þess að gerð sé um það tillaga hér er spurning hvort áhugafólk um kosningar í stjórnir lífeyrissjóða ætti ekki að beina sjónum sínum að þessari tegund lífeyrissparnaðar. Það væri áhugaverð æfing af þeirra hálfu að semja frumvarp um að skylda alla vörsluaðila séreignarsparnaðar til þess að láta fara fram árlegt stjórnarkjör þar sem í framboði væru allir sem réttindi eiga í viðkomandi séreignarsjóðum og atkvæði þeirra vegin með fjárhæð í eigu hvers og eins.

Önnur áhugaverð tilraun fyrir áhugafólk um almennar kosningar á stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum, án þess að hér sé mælt með því, er að taka upp fyrirkomulagið í lífeyrissjóðum ríkisstarfsmanna og sveitarfélaga, þ.e. LSR og Brú. Þá mætti sama áhugafólk, sem eflaust á flest réttindi í LSR, íhuga afleiðingar þess að leyfa öllum landsmönnum að gerast sjóðfélagar í LSR og Brú.

Lífeyrissjóðirnir eru vel reknir
Almennu lífeyrissjóðirnir eru í senn öflugir, vel reknir og dæmi um svið þar sem Íslendingum hefur tekist sérlega vel til í samanburði aðra. Inntak frumvarpsins vegur að rótum farsællar uppbyggingar lífeyrisréttinda á almennum vinnumarkaði án þess að huga að afleiðingunum. Tengsl myndunar lífeyrisréttinda við kjarasamninga eru rofin. Hlutverk samningsaðila verður ekkert og greiðslur í lífeyrissjóði verða ekki samningsatriði í kjarasamningum. Iðgjöld munu fá einkenni hefðbundins skatts og á endanum mun ríkissjóður sitja uppi með ábyrgð á öllu lífeyriskerfinu.

Hlutverk samningsaðila
Aðilar almenna vinnumarkaðarins hafa lengi talið það mikilvægt verkefni að tryggja starfsfólki ellilífeyri. Þeir hafa unnið að verkefninu af fullri ábyrgð og hugsað til langs tíma. Sjóðirnir hafa stækkað mikið og hlutur lífeyrisgreiðslna lífeyrissjóða miðað við ellilífeyrisgreiðslur TR vex ár frá ári og nemur hlutur þeirra um 70% en TR 30%. Almennt séð er íslenska lífeyrissjóðakerfið talið eitt það besta í alþjóðlegum samanburði.

Ef komið er í veg fyrir aðkomu Samtaka atvinnulífsins að stjórnum lífeyrissjóða með lögum eða á annan hátt hlýtur hlutverki vinnumarkaðarins og kjarasamninga að vera lokið í rekstri og uppbyggingu lífeyrisjóðanna. Þá munu íslensk fyrirtæki líta á framlög í lífeyrissjóði sem hvern annan skatt en ekki umsamdar greiðslur til mikilvægra sameiginlegra verkefna með starfsfólki sínu og samtökum þess.

Ríkisreknir lífeyrissjóðir
Sú breyting felur í sér að ríkið beri ábyrgð á þróun og rekstri allra lífeyrissjóða. Þá verða aðilar vinnumarkaðarins ekki bakhjarlar lífeyrissjóðanna, ekki verður samið um iðgjöld í kjarasamningum og ríkið hlýtur að enda sem ábyrgðaraðili allra lífeyrisréttinda.

Sjóðirnir verða sjálfsagt meðfærilegri fyrir stjórnvöld. Aðilar vinnumarkaðarins hafa ætíð þurft að standa gegn viðleitni og tillögum stjórnmálamanna um breytingar sem hefðu bakað lífeyrissjóðunum kostnað og tjón og skert greiðslur til lífeyrisþeganna.

Ríkið hefur alls ekki sýnt ábyrgð við uppbyggingu lífeyriskerfis sinna starfsmanna. Það kerfi hefur verið rekið með verulegum tryggingafræðilegum halla og skuldbindingum velt yfir á framtíðina.

Góð reynsla af núverandi kerfi
Við skipan í stjórnir lífeyrissjóða hafa SA kappkostað að fá til þess hæfileikaríkt fólk með stjórnunarreynslu. Reglur SA um skipan í stjórnirnar voru nýlega uppfærðar. Með auglýsingum er nú leitað eftir umsóknum frá einstaklingum með fjölbreytta reynslu og þekkingu m.a. á lífeyrismálum, stjórnun, stefnumótun, áætlanagerð og reikningshaldi, lögfræðilegum málefnum og fjármálamarkaði. Úr þeim hópi verða tilnefndir þeir hæfustu.

Samtök atvinnulífsins telja að aðild þeirra að stjórnum lífeyrissjóða hafi verið mjög til góðs fyrir uppbyggingu lífeyriskerfisins og skipt sköpum við að efla sjóðina. Samtökin ætlast til þess að fulltrúar í stjórnum sjóðanna gæti einungis hagsmuna sjóðanna sjálfra og vinni af heilindum fyrir þá sem njóta lífeyrisréttinda og allt samfélagið.

Um almenna lífeyriskerfið hefur ríkt góð sátt hér á landi. Bæði stjórnmálamenn og forystumenn á vinnumarkaði eru stoltir af uppbyggingu þess. Víða erlendis er horft til þess sem góðrar fyrirmyndar. Það vekti furðu ef löggjafinn vildi nú ráðast gegn rótum íslenska lífeyriskerfisins.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. mars 2017