Óviðunandi að 14.000 séu án vinnu

Samtök atvinnulífsins kynntu í morgun atvinnuleiðina, sýn SA á leiðina út úr kreppunni á opnum fundi á Grand Hótel Reykjavík. Yfir 200 manns úr íslensku atvinnulífi mættu til fundarins. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði tímabært að hefja nýja atvinnusókn og kveða atvinnuleysið niður sem hafi verið mikið frá hruni. Vilhjálmur sagði jafnfamt áhyggjuefni að svo virðist eins og atvinnuleysið sé að gleymast og landsmenn að dofna fyrir þeirri staðreynd að 14.000 manns eru án vinnu. Þessu verði að breyta hið fyrsta og því vilji SA fara atvinnuleiðina, skapa ný stöf og bæta hag fólks með aukinni vinnu og tekjum.

Atvinnuleiðin er fær

Glærukynningu Vilhjálms má nálgast hér að neðan en einn af lykilþáttunum í atvinnuleiðinni er að gerðir verði kjarasamningar til þriggja ára sem verði sambærilegir fyrir allan vinnumarkaðinn. Þar með verði óvissu eytt og fyrirtækin fá tækifæri til að ná aftur fyrri styrk, ráða fleira fólk í vinnu og bæta núverandi kjör starfsfólks.

SA hafa nefnt í yfirstandandi kjaraviðræðum 7-8% hækkun launa á þremur árum en það eru meiri hækkanir en í löndunum í kingum okkur. Lykilatriðið í þeim efnum er að verðbólga verði lægri en umrædd hækkun á sama tíma þannig að kaupmáttur fólks vaxi. Vilhjálmur sagði þó að megin kaupmáttaraukningin hljóti að koma með því að fólk fái vinnu í stað þess að þurfa að vera á atvinnuleysisbótum og að vinnutími lengist í stað þess að vera skertur um ákveðið hlutfall.

Verðbólguleiðin er ófær

Í erindi sínu sagði Vilhjálmur að hægt væri að fara aðra leið en atvinnuleiðina, svokallaða verðbólguleið, en hún hafi verið farin áður á Íslandi og afleiðingar hennar séu vel þekktar. Veðbólguleiðin einkennist af upplausn á vinnumarkaði, einstök verkalýðsfélög reyni að knýja fram hækkanir um tugi prósenta og stundi yfirboð í kröfum sem taki á sig mynd kröfukeppni en ekki lífskjarakeppni. Af þessu hljótist verkföll, ört hækkandi verðlag, skuldasöfnun, kaupmáttarhrap í stað kaupmáttaraukningar og aukið atvinnuleysi.

Vilhjálmur sagði þetta ástand ekki geta gengið og SA trúi ekki á framtíð með 8% atvinnuleysi í landinu. Með því að ná niður atvinnuleysinu náist lífskjarabati og að því verkefni verði stjórnvöld að koma með aðilum vinnumarkaðarins.

Samningaleiðin verði farin í sjávarútvegi

Á fundi SA í morgun sagði Vihjálmur stjórnvöld veða að ná niðurstöðu um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins í samstarfi við hagsmunaaðila og í það verkefni eigi aðilar einhenda sér fremur en að viðhalda deilum og illsku út í atvinnugreinina. Vilhjálmur sagði hvorki viðeigandi né boðlegt af hálfu ríkisstjórnarflokkanna og forystumanna í stjórnarliðinu að tala niður til fólks og fyrirækja í sjávarútvegi eins og gert hafi verið en það gildi sömu reglur um sjávarútveg og aðrar atvinnugreinar. Greinin þurfi að búa við örugg og fyrirsjáanleg starfsskilyrði til langs tíma til að hægt sé að reka fyrirtæki með hagnaði og veita fólki atvinnu.

Vilhjálmur sagði Samtök atvinnulífsins standa þétt við bakið á sjávarútveginum í þessum málum enda standi sjávarútvegurinn  nú í baráttu fyrir allt atvinnulíf í landinu til að sporna við því að laun hækki um tugi prósenta og verðbólgan komist á kreik á ný.

Sjá nánar:

Glærur Vilhjálms: Atvinnuleiðin

Upplýsingavefur um atvinnuleiðina

Tengt efni:

Umfjöllun í hádegisfréttum Bylgjunnar 9. febrúar 2011

Yfirlýsing SA um afstöðu til breytinga á stjórnun fiskveiða

Varðandi málefni sjávarútvegsins má vísa til nýlegrar yfirlýsingar SA en þar kemur fram að Samtök atvinnulífsins eru fylgjandi þeirri sáttastefnu, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir markaði og hrinti í framkvæmd með stofnun og starfi endurskoðunarnefndar um stjórn fiskveiða. SA leggja áherslu á að endurskoðunarnefndin, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir setti á laggirnar og lauk störfum í september síðastliðnum, náði víðtækari sátt en áður eru dæmi um á þessum vettvangi eftir að forsætis- og fjármálaráðherra höfðu sjálf beitt sér fyrir að leitað yrði samkomulags á grundvelli svokallaðrar samningaleiðar. Samningaleiðin er því niðurstaða, þar sem nær allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi auk fulltrúa stjórnarflokka og tveggja stjórnarandstöðuflokka komust að sameiginlega.  Að framansögðu er ljóst að Samtök atvinnulífsins eru fylgjandi breytingum á málefnum sjávarútvegsins og hafa lýst yfir fullum vilja til að halda áfram nauðsynlegri vinnu þar að lútandi.