Fréttir - 

15. október 2020

Óvandaður málflutningur Eflingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Óvandaður málflutningur Eflingar

Undanfarið hafa birst auglýsingar Eflingar þar sem maður sést taka peninga úr veski annars manns, sem á að vera starfsmaður. Undir þessari auglýsingu er fullyrt að atvinnurekstur steli árlega hundruðum milljóna króna úr vösum félagsmanna Eflingar stéttarfélags. Auglýsingaherferð Eflingar hefur það markmið að stilla atvinnurekendum og starfsmönnum upp sem andstæðingum. Atvinnurekendur séu upp til hópa brotamenn sem veigri sér ekki við að hlunnfara starfsfólk sitt.

Undanfarið hafa birst auglýsingar Eflingar þar sem maður sést taka peninga úr veski annars manns, sem á að vera starfsmaður. Undir þessari auglýsingu er fullyrt að atvinnurekstur steli árlega hundruðum milljóna króna úr vösum félagsmanna Eflingar stéttarfélags. Auglýsingaherferð Eflingar hefur það markmið að stilla atvinnurekendum og starfsmönnum upp sem andstæðingum. Atvinnurekendur séu upp til hópa brotamenn sem veigri sér ekki við að hlunnfara starfsfólk sitt.

Sú mynd sem Efling dregur upp af stjórnendum fyrirtækja og Samtökum atvinnulífsins (SA) er bæði ómálefnaleg og veruleikafirrt. SA eru ekki málsvari þeirra sem gerast sekir um refsivert athæfi. SA tóku ásamt ASÍ þátt í starfi nefndar um félagsleg undirboð og brotastarfsemi á vinnumarkaði sem lagði til refsiábyrgð vegna alvarlegra eða ítrekaðra brota gegn launafólki. SA hafa lengi stutt breytingar á lögum til að hrinda þessum tillögum í framkvæmd, eins og ítrekað var í grein formanns SA í Fréttablaðinu 19. ágúst sl. Hvorki Efling né ASÍ geta andmælt því.

Þótt nefna megi dæmi um brotlega atvinnurekendur þá er það staðreynd að í yfirgnæfandi meirihluta tilvika stofna einstaklingar og reka fyrirtæki af heilindum. Þeir vilja búa til verðmæti fyrir samfélagið, skapa störf og koma vel fram við sitt starfsfólk. Hagsmunir atvinnurekenda og starfsmanna liggja saman. Þegar fyrirtækjum landsins vegnar vel vegnar starfsmönnum einnig vel og raunar samfélaginu öllu.

Óraunhæfar kröfur ASÍ

Samtök atvinnulífsins væntu þess að ný starfskjaralög yrðu samþykkt síðastliðið vor þar sem ákvæði um refsiábyrgð væri að finna. Það hefur því miður ekki gerst, einkum vegna kröfu ASÍ um allt aðra útfærslu viðurlaga en samþykkt hafði verið í samráðshópi ráðherra og vilyrði var gefið um í yfirlýsingu stjórnvalda í tengslum við gerð lífskjarasamningsins. Engin samstaða er um tillögu ASÍ sem felur í stuttu máli í sér að atvinnurekanda sem vangreiði launamanni beri að endurgreiða honum hin vangreiddu laun með dráttarvöxtum og 100% álagi. Samtök atvinnulífsins geta ekki stutt tillögu ASÍ sem skapar fjárhagslegan hvata til að stofna til ágreinings við atvinnurekanda fremur en að leita friðsamlegrar lausnar og veldur sundrungu og glundroða á vinnumarkaði.

Veldur hver á heldur

Atvinnurekendur og starfsfólk í launabókhaldi geta vitaskuld gert mistök eins og aðrir. Mikilvægt er að hafa í huga að íslenskir kjarasamningar eru flóknir, einkum kjarasamningar fyrir verkafólk, og vinnufyrirkomulag oft ekki sniðið að þörfum fyrirtækja. 80% launagreiðenda í landinu hafa fimm eða færri starfsmenn í þjónustu sinni og 90% launagreiðenda hafa færri en tíu. Það gefur augaleið að öll þessi örfyrirtæki eru með litla eða enga yfirbyggingu vegna starfsmannahalds og hafa þörf fyrir einfaldar og skýrar reglur til að vinna eftir, en ekki þverhandarþykkar skýrslur eins og kjarasamningar hafa orðið með tímanum.

Það er heldur ekki tilviljun að fjöldi ágreiningsmála er margfalt meiri vegna kjarasamninga verkafólks en samninga verslunarmanna sem eru töluvert einfaldari í framkvæmd. Í kjaraviðræðum 2019 við Eflingu og SGS lögðu SA áherslu á að framsetning kjarasamninga yrði gerð skýrari til að tryggja rétta framkvæmd þeirra og jafnt launafólk og atvinnurekendur gætu með auðveldum hætti áttað sig á gildandi reglum. Hugmyndum þessum var mætt af fullkomnu áhugaleysi af hálfu Eflingar.

Samtök atvinnulífsins telja, meðal annars af þeim sökum, farsælast að taka á brotastarfsemi á vinnumarkaði með því að óháður aðili, stjórnvöld eða dómstólar, leggi mat á brot og ákveði hæfileg viðurlög, líkt og nefnd um félagsleg undirboð og brotastarfsemi lagði til. Slík lausn er fullkomlega í takt við yfirlýsingu stjórnvalda vegna lífskjarasamningsins. 

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

Samtök atvinnulífsins