Efnahagsmál - 

06. Febrúar 2003

„Óvænta“ vaxtalækkun!

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

„Óvænta“ vaxtalækkun!

Flestir sem þekkja til í íslensku atvinnulífi gera sér ljóst að gengi íslensku krónunnar er orðið hærra en fær staðist til lengdar og verulega er farið að þrengja að þeim sem eiga í beinni samkeppni við erlend fyrirtæki. Hvort sem það er í útflutningsiðnaði eða framleiðslu sem keppir við innflutning, ferðaþjónustu innanlands eða sjávarútvegi.

Flestir sem þekkja til í íslensku atvinnulífi gera sér ljóst að gengi íslensku krónunnar er orðið hærra en fær staðist til lengdar og verulega er farið að þrengja að þeim sem eiga í beinni samkeppni við erlend fyrirtæki. Hvort sem það er í útflutningsiðnaði eða framleiðslu sem keppir við innflutning, ferðaþjónustu innanlands eða sjávarútvegi.

Jafnvægisgengi við 130-135 stig
Þau nýliðnu ár þar sem saman hefur farið jafnvægi í utanríkisviðskiptum, stöðugt verðlag og þokkaleg afkoma í atvinnulífinu (1995 og 2002) benda til þess að gengisvísitala á bilinu 130-135 stig sé það sem efnahagslegar forsendur eru fyrir. Gengisvísitalan er nú um 121 stig og gengi krónunnar því um 10 prósentustigum hærra en það sem telja má vera jafnvægisgengi.

Af mörgum ástæðum er vísan til tíu og jafnvel tuttugu ára meðaltals í þessu sambandi alls ekki viðeigandi. Umgjörð efnahagslífsins er gjörólík því sem áður var og flest þessara ára sem mynda meðaltölin var mikill viðskiptahalli og gríðarleg erlend skuldasöfnun hélt uppi óraunhæfum kaupmætti.

Seðlabankinn beiti sér
Miklu skiptir að endurtaka ekki mistökin frá árunum 1999 og 2000 þegar ofris krónunnar stuðlaði að ójafnvægi í utanríkisviðskiptum og mikið gengisfall fylgdi í kjölfarið. Þá fór vísitalan lægst í 108, sem sem samsvarar gildinu 115 í dag, ef horft er til raungengis á mælikvarða launa, sem hafa hækkað meira hér en annars staðar. Við eigum því skammt eftir í "bjargbrúnina" að þessu leyti.

Eðlilegt er að Seðlabankinn beiti sér gegn stórfelldum sveiflum í gengi sem efnahagslegar forsendur eru ekki fyrir og stuðli þannig að stöðugleika í efnahagslífinu. Það er jafn mikilvægt nú eins og það var í desember 2001 þegar krónan hafði fallið um 37% frá því í maí árið áður.

Áfram lægð í efnahagslífinu
Margt bendir til þess að lægðin sem gengur yfir íslenskt efnahagslíf sé enn að dýpka. Kannanir SA meðal aðildarfyrirtækja leiða til dæmis í ljós að atvinnuástand eigi eftir að versna enn á næstunni og að fyrirtæki hyggist draga saman í fjárfestingum. Eins og fram kemur í þessu fréttabréfi er almennur samdráttur fjárfestinga fyrirhugaður í öllum atvinnugreinum.

Stóriðjuframkvæmdir sem vonir eru bundnar við að hleypi lífi í efnahagsstarfsemina hafa takmörkuð áhrif á næstu tveimur árum. Aðeins 18% heildarkostnaðar falla til árin 2003 og 2004, 62-3% falla til árin 2005 og 2006, og 15-16% árin 2007 - 2009. Væntingar um innstreymi erlends gjaldeyris vegna þeirra eru þó sagðar helsta ástæða gengishækkunar nú.

Ekki "vænta" vaxtalækkun
Það hlýtur því að vera brýnasta verkefni Seðlabankans núna að hafa áhrif í þá veru að gengið lækki í átt að jafnvægi. Þær aðgerðir bankans að auka gjaldeyriskaup og koma í veg fyrir að óregluleg gjaldeyrisviðskipti hafi áhrif á gengisskráningu eru skynsamlegar og kynna ætti skíra stefnu í þeim efnum. Af einhverjum ástæðum virðist fremur vera lögð áhersla á það í svipinn að lýsa gjaldeyriskaupum bankans sem "ekki-inngripum."

Mat Seðlabankans á aðstæðum í efnahagslífinu eins og það birtist í nýútkomnum Hagvísum er mjög nærri þeirri mynd sem dregin hefur verið upp af talsmönnum atvinnulífsins. Þær aðstæður kalla á allt annað en háa vexti og gengishækkun. Það er ekki verjandi að stuðla að háu gengi með margfalt hærri raunstýrivöxtum en eru í Evrópu í því umhverfi verðlækkana og samdráttar sem hér er.

Væntingar fjármálamarkaðarins standa til þess að Seðlabankinn lækki stýrivexti um 25 til 50 punkta mánudaginn 10. febrúar. Þær væntingar endurspeglast að líkindum þegar í skráðu gengi og lækkun í samræmi við þær mun því ekki breyta miklu. Vaxtalækkun næstkomandi mánudag þarf því að vera verulega meiri ef hún á að hafa tilætluð áhrif. Það sem þörf er fyrir núna er því ekki vænt vaxtalækkun heldur einmitt "óvænt!"

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins