Vinnumarkaður - 

23. Febrúar 2017

Óþekk(t)i embættismaðurinn

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Óþekk(t)i embættismaðurinn

Við Reykjavíkurtjörn horfir óþekkti embættismaðurinn í verki Magnúsar Tómassonar yfir fuglagerið með skjalatösku í annarri hendi. Hann er í þungum þönkum, áhyggjufullur og íhugar um þessar mundir óheillaþróun launa æðstu embættismanna ríkisins. Hann áttar sig á því að úrskurður kjararáðs um laun æðstu embættismanna ríkisins veldur því að landsmenn allir vildu gjarnan fá sömu launhækkanir. Hann hugsar sinn gang enda veit hann að hið opinbera er leiðandi í launaþróun í landinu.

Við Reykjavíkurtjörn horfir óþekkti embættismaðurinn í verki Magnúsar Tómassonar yfir fuglagerið með skjalatösku í annarri hendi. Hann er í þungum þönkum, áhyggjufullur og íhugar um þessar mundir óheillaþróun launa æðstu embættismanna ríkisins. Hann áttar sig á því að úrskurður kjararáðs um laun æðstu embættismanna ríkisins veldur því að landsmenn allir vildu gjarnan fá sömu launhækkanir. Hann hugsar sinn gang enda veit hann að hið opinbera er leiðandi í launaþróun í landinu. 

Embættismaðurinn veit að það er ekki skattheimta ríkisins sem skapar svigrúm til launahækkana í landinu. Þar ráða aðrir þættir. Verðmætasköpun fyrirtækjanna og aukin framleiðni ræður því hvernig launin þróast. Efnahagsástand, gengi krónunnar, vextir ásamt almennum rekstrarskilyrðum skapa umhverfi sem, þegar allt gengur vel, gerir fyrirtækjunum kleift að sækja fram, stunda vöruþróun, markaðssókn og undirbúa fjárfestingar í nýjungum.

Hann veit líka að best gengur þegar ungt fólk vill stofna til eigin rekstrar í því skyni að skapa sér og sínum atvinnu og lífsviðurværi og fær sjálft að njóta ávinningsins þegar vel gengur. Þegar svo háttar til skilar ábatinn sér í auknum skatttekjum hins opinbera og aukinni getu til að bæta þjónustu og innviði. Og þá myndast líka geta til að umbuna starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga. Það gengur augljóslega ekki að hið opinbera sé leiðandi í launaþróun í landinu. Sú hefur verið raunin undanfarin ár og nú er mál að linni – enda ábyrgð kjörinna fulltrúa mikil.

Í rammasamkomulagi  stærstu heildarsamtaka launafólks og viðsemjenda þeirra haustið 2015 var ákveðið að samningsbundnar launakostnaðarbreytingar skyldu að hámarki nema 32% frá nóvember 2013 til ársloka 2018. Gildir það jafnt um kjarasamninga sem höfðu verið gerðir og þá sem koma til endurnýjunar frá undirritun samkomulagsins.

Ekkert af þessu virðist hafa haft áhrif á kjararáð. Það virðist þeirrar skoðunar að opinberir starfsmenn geti leitt launaþróunina. Það er fráleit forsenda. Ráðið gefur lítið fyrir ríkjandi launastefnu þrátt fyrir að eiga samkvæmt lögum að taka tillit til almennrar þróunar kjaramála. Í stað þess hefur ráðið ákveðið 75% hækkun á þingfararkaupi frá nóvember 2013 og 88% sé almennum launahækkunum á árunum 2017 og 2018 bætt við. Leikhús fáránleikans er í beinni útsendingu.

Það blasir því við að ákvarðanir kjararáðs eru úr öllum takti við almenna launaþróun, hvort sem er til skemmri eða lengri tíma. Umbætur á vinnumarkaði eru stærsta verkefni stjórnvalda á kjörtímabilinu. Til viðbótar við kjararáð eru ríki og sveitarfélög orðin leiðandi í launaþróun í landinu. Umbætur á vinnumarkaði eru í uppnámi og kjaradeilur munu raska efnahagslegu jafnvægi og koma í veg fyrir mikilvæga uppbyggingu á mörgum sviðum. Ábyrgðin er alveg skýr: Hún er ríkis og sveitarfélaga.

Þetta er þyngra en tárum taki sé litið yfir hið efnahagslega svið. Kaupmáttur launa hefur aukist hratt. Skuldir heimila, fyrirtækja og hins opinbera hafa lækkað mikið. Sterkur hagvöxtur og góðar ytri aðstæður hafa haldið verðbólgu í skefjum. En til þess að árangurinn verði varanlegur þurfa launahækkanir að vera í samræmi við getu hagkerfisins til að standa undir þeim. Óskhyggja kjararáðs á þar ekkert erindi frekar en samningar hins opinbera við sína starfsmenn.

Samtök atvinnurekenda og launafólks eru á einu máli í þessum efnum og ábyrgð Alþingis er því mikil. Hið opinbera er leiðandi í launaþróun, það er staðreynd. Ríki og sveitarfélög þurfa að taka til í sínum ranni. En nú er engu líkara en að óþekkti embættismaðurinn sé að kikna undan ábyrgðinni. Þótt hann horfi hvorki til stjórnarráðsins né Alþingishússins leitar hugur hans þangað. Þar er unnt að bregðast við úrskurði kjararáðs, þar er unnt að leiðrétta vitleysuna, þar er unnt að tryggja að ekki verði upplausn á vinnumarkaði. Þar sitja ábyrgir fulltrúar almennings sem hljóta að taka heildarhagsmuni fram yfir sína eigin. Annars rísa þeir ekki undir þeirri ábyrgð sem þeim var falin.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 23. febrúar 2017.

Samtök atvinnulífsins