Óþarft að auka valdheimildir Samkeppnisstofnunar til að skipta upp fyrirtækjum

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, fjallaði um aðkomu bankanna að endurskipulagningu fyrirtækja og hlutverk Samkeppniseftirlitsins á opnum fundi eftirlitsins sem fram fór í morgun. Þar ræddi hann m.a. um ósk Samkeppniseftirlitsins um auknar valdheimildir til að skipta upp fyrirtækjum án þess að þau hafi brotið af sér eða án þess að um sé að ræða samruna sem hefur í för með sér markaðsráðandi stöðu. Þessar óskir hafa nú birst í lagafrumvarpi sem til umfjöllunar er á Alþingi. Samtök atvinnulífsins eru algerlega ósammála þessu sjónarmiði, telja stofnunina ekki hafa fært fyrir því gild rök og að sú lagabreyting sem stofnunin hefur farið fram á sé óþörf.

Í erindi sínu sagði Vilmundur m.a.:

"Sambærileg heimild var felld úr lögum árið 2005 eftir ítarlega umfjöllun og þrátt fyrir að því sé haldið fram í frumvarpinu hafa norsk samkeppnislög ekki að geyma sambærileg ákvæði. Það er heldur ekki eðlilegt að yfirtaka banka á fyrirtækjum skapi þörf á slíku lagaákvæði. Þar er um að ræða neyðarráðstöfun sem kallar á strangt eftirlit Samkeppniseftirlitsins frekar en að dregið verði  úr verðmæti eigna bankanna með slíkum hætti.  Lagaheimildin getur þannig orðið til þess að seinka nauðsynlegri endurskipulagningu atvinnulífsins.

Hlutverk og mikilvægi samkeppni í frjálsu markaðskerfi verður ekki dregið í efa. Með samkeppni eykst framleiðni í þjóðfélaginu. Með aukinni framleiðni eykst verðmætasköpun og um leið velsæld í þjóðfélaginu. Samkeppnin þvingar fyrirtæki til þess að skapa nýjar hugmyndir og nýjar vörur. Þetta er drifkrafturinn að baki rannsóknum, nýsköpun og um leið nýjum fyrirtækjum og atvinnugreinum. Að þessu vilja Samtök atvinnulífsins vinna og að þessu á Samkeppniseftirlitið að vinna."

Þá sagði Vilmundur mikilvægasta hlutverk Samkeppnisstofnunar vera að upplýsa og fræða fyrirtæki, veita þeim leiðbeiningar og vinna með atvinnulífinu að virkri og heilbrigðri samkeppni.

Sjá nánar:

Ræða Vilmundar Jósefssonar á fundi Samkeppniseftirlitsins 20. maí 2010 (PDF)