Óskað eftir tilnefningum vegna Kuðungsins 2008

Kuðungurinn - umhverfisviðurkenning umhverfisráðuneytisins - verður afhentur á degi umhverfisins 25. apríl næstkomandi. Úthlutunarnefnd á vegum ráðuneytisins óskar nú eftir tilnefningum um fyrirtæki eða stofnanir sem hafa skarað fram úr í umhverfismálum á árinu 2008 en frestur til að skila inn tilnefningum rennur út 25. mars.

Á vef umhverfisráðuneytisins kemur fram að óskað er eftir því að stutt greinargerð fylgi með tilnefningunum. Fyrirtæki og stofnanir geta hvort heldur sem er tilnefnt sig sjálf eða verið tilnefnd af öðrum. Til að koma til álita við veitingu Kuðungsins þarf fyrirtækið eða stofnunin að hafa skarað fram úr á einu eða fleiri eftirtöldum sviðum: Umhverfisstjórnun, innleiðingu nýjunga í umhverfisvernd, hreinni framleiðslutækni, lágmörkun úrgangs, mengunarvörnum, umhverfisvænni vöruþróun, framlagi til umhverfismála eða vinnuumhverfi.

Tillögur skulu berast umhverfisráðuneytinu eigi síðar en 25. mars næstkomandi, merktar ,,Kuðungurinn 2008", á póstfangið postur@umhverfisraduneyti.is eða með pósti í umhverfisráðuneytið, Skuggasundi 1, 150 Reykjavík.

Sjá nánar á vef umhverfisráðuneytisins