Ört vaxandi atvinnuleysi háskólagenginna

Háskólagengnu fólki á atvinnuleysiskrá hefur fjölgað ört undanfarna mánuði og misseri. Um síðustu áramót voru 363 háskólagengnir á atvinnuleysiskrá á landinu öllu. Fjöldi atvinnulausra háskólamanna á landinu jókst um tæp 75% á síðasta ári og á síðustu tveimur árum hefur fjöldinn þrefaldast.


 

Smellið á myndina

Tæplega 30 tölvunarfræðingar eru á skrá, 60 verk- og tæknifræðingar og rúmlega 40 manns með menntun í öðrum raunvísindagreinum. Tæplega 80 manns með viðskipta- og rekstrarmenntun eru á atvinnuleysisskrá og 24 kennarar. Stærsti hópurinn, sem flokkast undir önnur hugvísindi, taldi 133 einstaklinga í desemberlok. Hlutfall háskólagenginna af atvinnulausum í heild hefur farið vaxandi. Í árslok árið 2001 voru háskólagengnir 5,1% af heildarfjölda á atvinnuleysisskrá en í lok desember sl. var hlutfallið komið upp í 7,2%.

Hærra hlutfall á höfuðborgarsvæðinu
Þessar tölur koma fram á heimasíðu Vinnumálastofnunar . Á dögunum fjölluðu SA um skiptingu atvinnulausra eftir menntun samkvæmt gögnum frá Vinnumiðlun höfuðborgarsvæðisins, en samkvæmt þeim eru 10% atvinnulausra á skrá með háskólamenntun. Þessi munur þarf þó ekki að koma á óvart, þar sem hlutfall háskólamenntaðra er mun hærra á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu.