Orsakir þýska efnahagsvandans
Á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins flutti Ottheinrich von Weitershausen, yfirhagfræðingur BDA, þýsku samtaka atvinnulífsins, erindi um orsakir þýska efnahagsvandans. Hverfandi hagvöxtur, mikið atvinnuleysi og lítil atvinnuþátttaka eru sjúkdómseinkenni sem hann rekur fyrst og fremst til sívaxandi útgjalda til félagsmála og til lítils sveigjanleika á þýskum vinnumarkaði. Þar á hann ekki síst við ríka uppsagnarvernd, en auk hennar er til dæmis óbeinn launakostnaður mjög hár, allt að 66%, og atvinnuleysisbætur mjög rausnarlegar.
Rík uppsagnarvernd
Reglur um uppsagnarvernd eru að sögn von Weitershausens mjög
flóknar og takmarkandi í Þýskalandi, þar sem fyrirtæki þurfa meðal
annars að hlíta ákveðnum reglum um hverjum sé sagt upp störfum, með
hliðsjón af fjölskylduástæðum viðkomandi starfsmanna o.fl.
Reglurnar gilda fyrir öll fyrirtæki með fleiri en fimm starfsmenn,
sem er mikil hindrun fyrir lítil fyrirtæki að stækka við sig.
Ríkisstjórn Helmuts Kohl hafði hækkað þetta viðmið í tíu
starfsmenn, en til þess að efna kosningaloforð færði ríkisstjórn
Gerhards Schröders töluna strax aftur niður í fimm. Rík
uppsagnarvernd kemur í veg fyrir að fyrirtæki ráði fólk á tímum
uppsveiflu, vegna þess hversu flókið og dýrt er að fækka fólki
aftur á tímum samdráttar.
Rausnarlegar atvinnuleysisbætur
Líkurnar á að einstaklingur sé atvinnulaus í hálft ár eða lengur
eru sex sinnum meiri í Þýskalandi en í Bandaríkjunum. Skortur á
atvinnutækifærum hefur þar eitthvað að segja, einkum í
austurhlutanum, en þarna endurspeglast að mati von Weitershausens
ekki síst góð og fyrst og fremst langvarandi trygging
atvinnulausra. Þannig getur roskinn einstaklingur á
atvinnuleysisskrá samkvæmt núgildandi lögum fengið
atvinnuleysisbætur í allt að 32 mánuði, sem að jafnaði nema 60% af
hans síðustu hreinu tekjum. Engin skylda hvílir á atvinnulausum að
leita sér vinnu.
Tekist á um umbótatillögur Schröders
Ríkisstjórn Schröders hefur nú komið fram með tillögur til umbóta,
sem meðal annars miða að því að draga úr uppsagnarverndinni,
takmarka atvinnuleysisbætur fyrir alla við tólf mánuði og leggja
atvinnulausum þá skyldu á herðar að þeir sýni sannanlega fram á að
þeir séu í atvinnuleit. Þýsku samtök atvinnulífsins telja
tillögurnar skref í rétta átt þótt þær gangi engan veginn nógu
langt. Miklar deilur eru hins vegar um tillögurnar innan
sósíaldemókrataflokks kanslarans og óvíst að þær nái fram að ganga,
jafnvel að ríkisstjórnin haldi velli í ljósi harðra deilna um
tillögurnar.
Sjá ræðu von Weitershausen í íslenskri þýðingu (pdf-skjal)