Efnahagsmál - 

06. apríl 2006

Örorkugreiðslur lífeyrissjóða: úr fimm milljörðum í tíu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Örorkugreiðslur lífeyrissjóða: úr fimm milljörðum í tíu

Örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað ört undanfarin ár og voru þeir orðnir tæplega 13.000 um síðustu áramót. Fjölgunin hefur numið 750-800 árlega undanfarin þrjú ár og í forsendum lífeyrissjóðanna er gert ráð fyrir að tveir þriðju séu konur og einn þriðji karlar. Þá fer meðalaldur öryrkja lækkandi og er nú um 50 ár, en lækkandi meðalaldur öryrkja þýðir jafnframt aukin heildarútgjöld lífeyriskerfisins. Árið 2004 var örorkulífeyrir alls 29% af greiddum lífeyri lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði, eða tæpir 4 milljarðar króna, og um 5 milljarðar í lífeyriskerfinu í heild. Örorkubyrðin leggst misjafnlega þungt á sjóðina og er allt frá 6% af lífeyrisgreiðslum Lífeyrissjóðs bankamanna í 43% hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja og Lífeyrissjóði Austurlands.

Örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað ört undanfarin ár og voru þeir orðnir tæplega 13.000 um síðustu áramót. Fjölgunin hefur numið 750-800 árlega undanfarin þrjú ár og í forsendum lífeyrissjóðanna er gert ráð fyrir að tveir þriðju séu konur og einn þriðji karlar.  Þá fer meðalaldur öryrkja lækkandi og er nú um 50 ár, en lækkandi meðalaldur öryrkja þýðir jafnframt aukin heildarútgjöld lífeyriskerfisins. Árið 2004 var örorkulífeyrir alls 29% af greiddum lífeyri lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði, eða tæpir 4 milljarðar króna, og um 5 milljarðar í lífeyriskerfinu í heild. Örorkubyrðin leggst misjafnlega þungt á sjóðina og er allt frá 6% af lífeyrisgreiðslum Lífeyrissjóðs bankamanna í 43% hjá Lífeyrissjóði Vestmannaeyja og Lífeyrissjóði Austurlands.

Úr 5 milljörðum í 10 á næstu 20 árum

Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur hefur að beiðni SA gert framreikninga á örorkubyrði lífeyrissjóða og samspili við greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Framreikningarnir gera ráð fyrir að verulega hægi á fjölgun öryrkja á næstu árum og að fjöldi þeirra muni staðnæmast við 14-15 þúsund á næsta áratug. Þeir gefa hins vegar einnig til kynna að nýir öryrkjar muni að jafnaði eiga mun meiri rétt í lífeyrissjóðum en þeir sem fyrir eru auk þess að verða mun yngri og þannig lengur á örorkulífeyri. Samkvæmt framreikningum mun meðaltalsörorkulífeyrir lífeyrissjóða því allt að tvöfaldast á næstu tveimur áratugum, þ.e. mánaðarlegur lífeyrir per öryrkja. Örorkulífeyrisgreiðslur lífeyrissjóða munu aukast verulega af framangreindum ástæðum. Þær voru 5 milljarðar króna 2005 en aukast í 8 milljarða 2015 og tæplega 10 milljarða 2025, þ.e. tvöfaldast á næstu tveimur áratugum. Örorkulífeyrisgreiðslur TR munu hins vegar aukast mun hægar, úr rúmum 10 milljörðum í 12 milljarða króna á sama tímabili.

Tekjutenging sparar ríkinu milljarða

Hlutdeild lífeyrissjóða af örorkulífeyri í heild er nú um 30% á móti 70% hlut TR. Árið 2015 verða þessi hlutföll orðin 40/60 og árið 2025 verða þau 45/55. Örorkulífeyrir TR (tekjutrygging) væri nú 1,7 milljörðum hærri ef ekki væri tekjutenging við örorkulífeyri lífeyrissjóða. Árið 2015 verður þessi fjárhæð 2,2 milljarðar króna og 2,6 árið 2025.

Samtök atvinnulífsins